Þjóðaróvinur fær makleg málagjöld

Það var frétt í útvarpinu í kvöld um að nú þyrfti Darling hinn breski að taka pokann sinn.  Hann hefur svikið út fé eins og fleiri þingmenn og ráðherrar þar í landi en í stað þess að hann fái á sig hryðjuverkastimpil dugir honum hypja sig.

Fréttina ekki ég leiða lít
sem landsmenn aðrir nú glotta hlýt:
Brátt á að reka‘ann,
sök bítur sekan
og Darling er lentur í djúpum skít.


 


Nýtt met í limruleti

Þetta er lengsta limrustopp sem ég hef tekið síðan ég byrjaði.  Afsökun er helst sú að það hefur verið mikið að gera í vinnunni - en ástæðan er samt heldur leti.  Ég er þó sem betur fer ekki jafnlöt á öllum vígstöðvum og nú stefni ég á fjallgöngu.

Þó hrjái mig limruleti
ligg ég samt ekki í fleti:
Nei langt í því frá
nú mig langar að sjá
hvort tölt upp á tindinn ég geti.

Með vöskum konum og köllum
ég kemst fram hjá hindrunum öllum.
Og næ eftir dúk
og disk upp á hnjúk
og dauðþreytt svo kem ég af fjöllum.

Eða kannski kemst ég ekki alla leið - ég er alltaf að frétta af fólki sem þarf að snúa við og það gæti svo sem eins átt eftir að henda mig.


Gjaldþrota

Blöðin í dag voru full af fréttum um gjaldþrota auðmenn.  Magnús Þorsteinsson flýði til Rússlands - fór með lögheimili sitt þangað um daginn.  Sjálfsagt í von um að koma undan hluta af feng sínum.  Björgólfur barmar sér í blöðum dagsins og segist ekki einu sinni vera viss um að halda húsinu.  Hann er þar með á báti með mörg hundruð öðrum landsmönnum sem fóru illa út úr hruninu og varla meiri vorkunn en þeim.

Hann Mangi er farinn í fússi
og fjármála- hættur er stússi.
Til Moskvu hann fór
og þar biður um bjór
á barnum sem hver annar Rússi.

En hann á kannski möguleika að kaupa sig inn í framleiðsluna að nýju?

Björgólf nú segja þeir blankann
en ég býst við þeir ná ekki að hank‘ann:
Hann öllu' hefur eytt
og á ekki neitt
hvorki einbýlishúsið né bankann.

 


Að ganga á bak orðanna

Það var frétt á Eyjunni í dag um fráfarandi sendiherra Bandaríkjanna.  Hún (sendiherrann er kona) var búin að boða komu sína á Bessastaði til að kveðja og átti í leiðinni að fá Fálkaorðuna.  Sú orða hefur verið veitt hægri, vinstri síðan Óli varð bóndi þarna suður frá og eiga af henni eintak bæði Jóhannes í Bónus og mannvinurinn Banka-Bjöggi, að ekki sé talað um furstynjuna af Habsburg sem mun vera vinkona Dorritar.

En eitthvað snuggaðist í Óla á síðustu stundu, svo að forsetaritarinn (orðuhafi sjálfur) þurfti að hringja í gemsa sendiherrans og tilkynna að hætt hefði verið við að veita henni krossinn.  Aumingjalegt í alla staði og ekki til þess fallið að auka hróður okkar meðal þjóða.

Örnólfur greyið hann yppti
öxlum og tólinu lyfti:
„Þú færð ekki kross
Carol hjá oss
því um skoðun hann Ólafur skipti“.

„Þegar að þjóðinni herðir
við þurfum að hugsa‘ okkar gerðir
og orðuna þá
aðeins nú fá
þeir sem heiðursins víst eru verðir“.

En ef marka má fréttina sem ég las var því borið við að orðuna fengu aðeins þeir sem væru hennar verðir - eins og Habsborgarafrúin.




Ímyndunarveiki

Í netfréttum sem og fréttum sjónvarpsins í kvöld var mikið rætt um svínainflúensuna sem nú er að stinga sér niður víða um veröldina.  Fyrir mig sem er drullukvefuð voru þessar fréttir skuggalegar.  Eitt augnablik lét ég ímyndunarveikina ná tökum á mér og hóstaði með miklum látum.

Í fréttir var róleg að rýna
og reyna verð stillingu‘ að sýna:
En  innst inni veit;
hóstandi' og heit
að ég  haldin mun -flensunni svína-.

Eða nei annars - sennilega er ég bara með venjulegt vorkvef.  Og já - ég veit að þessi flensa er dauðans alvara.


Tapsárir og fattlausir.

Þá er búið að kjósa og þjóðin sagði skýrt að hún vildi inn í Evrópusambandið.  Þetta fatta allir nema Steingrímur Sigfússon.  Reyndar fattar hann það líka en er nú samt að reyna að þenja sig smá áður en hann tekur sönsum.  Í sjónvarpsumræðum í kvöld sagði hann eitthvað á þá leið að það væri bara "elítan" sem vildi inn í ESB - ekki þjóðin.  Merkilegt þegar yfir helmingur þjóðarinnar gaf atkvæði sitt þeim flokkum sem hafa ESB inngöngu á stefnuskrá sinni. 

Er Steingrímur úti að aka
eða yfir sig búinn að vaka?
Nú elítu kalla
vill kjósendur alla
og mark vill sem minnst á þeim taka.

En hann áttar sig vonandi í fyrramálið.

Björn Bjarnason er ekki lengur þingmaður.  Hann mun því hafa góðan tíma til að blogga á næstunni -  sér í lagi þar sem hans menn ráða ekki yfir kjötkötlunum lengur og geta því hvorki gert hann að bankastjóra né sendiherra.  Hann bloggar í dag um hrun Sjálfstæðisflokksins og skammast yfir því að á Morgunblaðinu hafi verið skrifað í neikvæðum tón um flokkinn.  Þar vitnara hann m.a. í Kolbrúnu Bergþórsdóttur sem mun hafa skrifað að flokkurinn yrði að "láta af fýluköstum" sem hún ætti nú að þekkja - alltaf í fýlu sjálf.

Hjá Birni‘ er á blogginu spenna,
hann bálreiður heldur á penna:
Skaðinn í gær
nú skýringu fær;
hann er  Kolbrúnu Bergþórs að kenna.



Kosningaáróður

Nú gefast mun færi‘ á að brjóta blað
og bara að okkur nú takist það
að mæta og kjósa
manið hið ljósa
og leggja til Evrópu loks af stað.


AHA!

Síðustu daga hafa birst auglýsingar í blöðunum þar sem "Áhugamenn um endureisn Íslands" mótmæla þeirri ósvinnu að auka megi skatta hátekjufólks.  Samkvæmt þeirra útreikningum verða þeir sem hafa milljón á mánuði að láta þrjátíu þúsund krónum meira en áður renna í sameinginlega sjóði.  Svari nú hver fyrir sig en mér finnst það nú engin goðgá?

Þ
eir heimilin vernda frá voða og raun
en víst er af málinu leggur daun
ef álögur má
ekki auka á þá
sem eru með milljón í mánaðarlaun.

Auðvitað á að hækka skatta þeirra sem þéna mest - en ekki hvað?


Evrur og aflabrögð

Merkilegt hvernig Sjálfstæðisflokkurinn ver alltaf útgerð og sægreifa.  Engu máli skiptir þó að þorri þjóðarinnar vilji auðlindir í þjóðareigu; þeir standa sem fyrr vörð um sitt fólk og sína kvótakónga.

Að grýta‘ okkar framtíð á glæ, leyfa
gauð er ég skilið ei fæ.  Hreyfa
við auðlind ei má
ef mark tökum á
málpípu auðvalds og sægreifa.

Einhverjir brestir eru þó að komast í sambandið því þó útgerðin vilji krónur áfram - svona til að geta fellt gengið þegar illa árar, þá hafa Sjálfstæðismenn látið hafa eftir sér síðustu daga að hugsanlega ættum við að taka upp evrur.  Þeim hefur reyndar dottið það snjallræði í hug að leita til IMF og sníkja evrurnar þar hvernig sem þeir koma því nú heim og saman.


Þungur nú reynist þeim róðurinn
og í ráðleysi er kyrjaður óðurinn:
„Evrurnar hefur
og okkur þær gefur
Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn“.

En í þessu bænastandi ættu þeir líka að biðja um gott veður og góðan afla.




Æ sér gjöf til gjalda

Það er gott að fara í langt páskafrí og gaman eyða því fjarri Fróni.  Og það jafnvel þó að gengið sé slíkt að hvítvínsglas á búllu suður í höfum sé jafndýrt og það var á miðbæjarkránni 101 í miðju góðærinu (að ekki sé talað um verðlag á expressóbolla).  

Heimkomin fyllist maður ógeði á því hvernig allt er samflækt; FL-group (sem samkvæmt skilgreiningu var Baugsfyrirtæki) var helsti styrktaraðili Sjálfstæðisflokksins og það án skuldbindinga.  Hingað til hefur manni skilist á Mogganum að málshátturinn "Æ sér gjöf til gjalda" hafi verið fundinn upp hjá Baugi.

Til að bjarga málum hefur skuldinni verið skellt á Geir sem "axlar ábyrgð" einn, enda aðrir enn í framboði.  Sennilega verður þó Guðlaugur Þór að pakka saman einhvern næstu daga - en hann mun hafa verið duglegastur allra við sníkjurnar.

Gráðugur reyndist hann Gulli Þór
og galvaskur krækti í framlög stór.
Í flórnum nú stendur
með forugar hendur
og fálmar við allskonar yfirklór.

En flokkurinn fékk líka aura frá Landsbanka þar sem menn vildu ekki vera minni menn og kröfðust þess að
að "matcha" framlagið frá FL-group.  Þetta voru góðir tímar....

H
ér áður fyrr voru örlög góð
íhaldsmönnum hjá vorri þjóð.
Svo næðu þeir sigri
lét Sigurjón digri
þrjátíu millur í þeirra sjóð.

En vonandi er nógu stutt til kosninga til að þetta gleymist ekki:

Þeir halda sig klóka og klára;
að kross muni landsmenn þeim pára:
En klefanum í
þeim fólk gefi frí
til fjögurra komandi ára.



 


Næsta síða »

Um bloggið

Limruleikur

Höfundur

Jóna Guðmundsdóttir
Jóna Guðmundsdóttir
Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband