8. mars

Þessi dagur er sem kunnugt er alþjóðlegur baráttudagur kvenna.  Hann stóð heldur betur undir nafni hér á landi þar sem úrslit úr prófkjörum hafa verið kynnt í öllum fréttatímum og víðast hvar hafa konur unnið mikið á.  Meira að segja svo að kynjakvóti mun nú helst nýtast karlmönnum þetta árið.

Þó karlar ei kosningu hljóti
og kjósendur snúist þeim móti,
þá fá þeir að gista
fjölmarga lista
því kynja- mun hjálpa þeim kvóti.


Leiktímabilið hafið

Ég vakanaði í morgun við að Geir Haarde var að tjá sig um tillögur um breytingar á stjórnarskrá.  Þeim fann hann allt til foráttu heyrðist mér og sagði ekki hægt að breyta kosningalöggjöf þar sem "leikurinn" væri hafinn. 

Geir hann var súr og gnafinn
og galli var ræða hans vafinn:
Hann sagði það eitt;
engu skal breytt
því „leikurinn“ hann er hafinn.

Merkileg orðanotkun hjá formanninum; venjulegu fólki finnast kosningar ekki leikur heldur dauðans alvara.

Yfir umræðu skal nú skautað
enda skýrt þessu koma hlaut að.
Stilla upp liði
nú langar í friði
því til leiks verður fljótlega flautað.

Þetta hefði verið meira líkt varaformanninum.  Þorgerður Katrín er meira svona í  boltanum.




Hvað verður um Árna?

Jæja þá sjá Sunnlendingar sína sæng uppreidda.  Nýjustu fréttir herma að Davíð ætli að bjóða sig fram fyrir Sjálfstæðisflokkinn í kjördæminu.  Það verður erfitt fyrir flokksmenn að velja á milli Árna, Davíðs og Eyþórs. 

Landbyggðar vex bara vandi
og vandséð að endi sá fjandi
ef Davíð nú er
á fullu og fer
í framboð á Suðurlandi.

Er annars Eggert Haukdal ekkert á leiðinni í framboð?  Hann var nú sýknaður um eitthvað sem hann átti að hafa gert af sér og gæti passað vel í þessum hóp.


Þórsmerkurljóð

Nýja Ísland verður ekki svo nýtt eftir allt saman.  Ég var orðin spennt fyrir áströlskum auðkýfingi sem vildi kaupa Moggann en þegar upp var staðir eru nýju eigendurnir gamlir íslenskir kapítalistar og kvótaeigendur.

Yfir kvótunum hafa þeir verulegt vald
og vilja ekki skrif um auðlindagjald.
Að fjölmörgu hyggja,
til framtíðar byggja
og á Árvakri tryggðu sér eignarhald.

Og svo eru þeir vafalaust allir góðir og gegnir Sjálfstæðismenn.



Mannlýsing

Að eigin sögn er hann iðinn
og elskar trúi ég  friðinn.
Kjarkmikill berst
gegn vonsku, en verst
hve víða hann illa er liðinn.


Við upphaf lönguföstu

Ég settist áðan með Passíusálmana og ætlaði að fylgjast með hvað Silja væri komin langt.  Ég var alveg búin að gleyma því að þeir eru ekki lesnir á sunnudögum.  Veit reyndar ekki hvers vegna?

En ég fann mér aðra píslarsögu.  Aðalfrétt mbl. nú í kvöld var um Björn Bjarnason og bloggfærslu hans um prófkjör Sjálfstæðisflokksins fyrir síðustu Alþingiskosningar.  Þar bar hæst að Guðlaugur Þór tók í prófkjöri af honum sæti sem hann taldi sig eiga.  Ég kíkti á síðuna og þessi píslarsaga er ekki síðri en sú sem Silja er að segja frá þessa dagana. 

Á blogginu hefur Björn nú rætt
um böl og pínu er hefur mætt:
Honum gramdist er fór
Guðlaugur Þór
og yfirtók sæti merkt „Engeyjarætt“.

Skemmtilegur flokkur þessi Sjálfstæðisflokkur en ég gat ekki séð að Björn minntist neitt á útstrikanir í sjálfum Alþingiskosninunum - eru þær kannski bara misminni mitt?



Bloggleti

Ekki þarf að kvarta yfir að ekkert sé að frétta.  Maður þarf ekki annað en að lyfta blaði og þá sér maður þær; framboðsfréttirnar.  Allir hafa ákveðið að gefa kost á sér eftir fjölda áskorana og að vandlega íhuguðu máli.(Reyndar las ég pistil frá einum sem sagði að enginn hefði skorað á sig en hann ætlaði nú fram samt).  

Jón Magnússon er þó sennilega mest að hugsa um  það að detta ekki út af þingi enda óvíst að hann kunni til annarra verka. 

Í
Valhöll er rokna gleði og geim
og glaumur því loks er kominn heim
Jón, enda kann
enginn sem hann
listina að beita tungum tveim.

Hvar ætli fyrrverandi flokksbróðir hans Kristinn sleggja dansi annars um næstu jól?










Svo ungur enn...

Hlægilegt útspil hjá Jóni Baldvin sem lýsti yfir áhuga sínum á að verða formaður Samfylkingarinnar - svona ef Jóhanna ekki vill(!).  Mér heyrist að fylgi við þessa  hugmynd sé ekki mikið  - ætli stuðningsmennirnir kæmust ekki fyrir í aftursætinu á meðalstórum fjölskyldubíl.

Ég var auðvitað ekkert á þessum fundi en leyfi mér engu að síður að ímynda mér hvernig fundargestum varð við.

Hljóður og skelfdur varð skarinn
er skundaði Jón Baldvin þar inn.
Telja þó gestir
trúlega flestir
hans tími sé kominn - og farinn.


Einvígi?

"Mín upphefð kemur að utan"  var eitt sinn sagt og það á við sem aldrei fyrr.  Meðan landsmenn baula á Davíð er hann settur á lista yfir helstu mikilmenni heimskreppunnar tímaritun Time í dag.

Davíðs hróður eykst áfram, enn,
ég ætla að toppnum hann nái senn:
Á  lista má finna
sem fjölmiðlar kynna
yfir alheimskreppunnar.upphafsmenn.

Hvað gerir Ólafur nú - hann er þegar búinn að segja að við borgum ekki.


Fjölmiðlar dagsins

Stundum verð ég svo svartsýn á vöxt og viðgang þjóðarinnar að mig langar mest að skríða undir sæng og vera þar.  Hvernig á maður skilja að unga fólkið kjósi íhaldið til forustu í Háskóla Íslands í nýafstöðnum stúdentakosninum?  Eru menn virkilega ekki búnir að fá nóg af nýfrjálshyggju í bili?

Ekki eru heldur góðar fréttir af þeim Bessastaðahjónum.  Ég las viðtal við þau sem birst hafði í útlendu blaði og þar hnakkrifust þau fyrir blaðamann.  Dorrit segist nú hafa varað við bankahruni og auðvitað vill Ólafur ekki heyra svona bull.  Gaman fyrir útlendinga að setja sig inn í þessi mál - svona milli þess sem þeir fylgjast með hvernig okkur gengur að losna við seðlabankastjórann vinsæla.

Góðar fréttir eru hinsvegar þær að Bubbi Morteins ætlar að mæta með Egó (?) á Arnarhól á morgun og reyna að rokka Bubba kóng burt úr ríki sínu.  Uppinn Bubbi er að reyna að spóla til baka í öreigann Bubba - vonandi að hann mæti ekki á svæðið í Land Cruisernum sem heyrst hefur að hann aki í boði Toyota. 

Við blaðalestur mér hugur hrýs
í háskóla lýðurinn íhald kýs.
Bubbi á jeppa
í bæinn vill skreppa
og í blöðum rífst Dorrit við Óla Grís.

Bubbi hann mætir með fríðan flokk
því fengið mun hafa af Davíð nokk:
Nú vonast menn til að
verði þar spilað
kraftmikið, dúndrandi dauðarokk.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Limruleikur

Höfundur

Jóna Guðmundsdóttir
Jóna Guðmundsdóttir
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (16.4.): 6
  • Sl. sólarhring: 11
  • Sl. viku: 12
  • Frá upphafi: 1056

Annað

  • Innlit í dag: 6
  • Innlit sl. viku: 12
  • Gestir í dag: 6
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband