Útrásarskóli

Aldrei hætta framsóknarmenn að koma mér á óvart.  Nú síðast Valgerður.  Hún brá sér út fyrir landsteinana, nánar tiltekið til London og hélt þar ræðu um skólamál.  Tilvitnun í mbl:

"Valgerður Sverrisdóttir, utanríkisráðherra, sagði á hádegisverðarfundi í Lundúnum í dag, þar sem staða íslenskra fyrirtækja í útlöndum var rædd, að ríkisstjórnin væri að velta fyrir sér þeirri hugmynd, að setja á stofn alþjóðlegan skóla á Íslandi fyrir börn erlendra starfsmanna íslenskra fyrirtækja og þar sem námsefni fyrir allt grunnskólastigið og upp í stúdentspróf yrði kennt á ensku. Valgerður sagði, að það væri verkefni ríkisstjórnarinnar, að sjá til þess að íslensku útrásarfyrirtækin sæju sér áfram hag í því að hafa höfuðstöðvar á Íslandi. Einnig þyrftu stjórnvöld að hlúa að fjölskyldum starfsmanna fyrirtækjanna og þessar hugmyndir tengdust því".

Halló.  Er ekki búið að hamra stanslaust á því að grunnskólar séu í verkahring sveitarfélaga?  Eiga þá útrásarbörnin ein að vera undir verndarvæng ríkisstjórnarinnar? 

Og útrás?  Þýðir það ekki að íslenskir spekúlantar flytja til útlanda til að vera nær peningunum sínum og Duran Duran?  Afhverju ættu þá börnin að vera í skóla á Íslandi að tala ensku?  Er þetta ekki bara tilraun til að stofna yfirstéttarskóla þar sem peningar verða ekki skornir við nögl?

Merkileg finnst mér sú frétt
og furðuleg ef hún er rétt:
Fyrir útrásarbörn
er Vala í vörn
og
 þau verndar frá alþýðustétt.

Ef ríkisstjórnin vill setja á stofn skóla og veita peningum í alþjóðlega kennslu þá vil ég benda á að í dag var birt skýrsla um börn í íslenska skólakerfinu sem hafa annað móðurmál en Íslensku.  Þar kenndi margra grasa og þó að ég hafi ekki náð tölunum heyrði ég þó að pólsk börn eru langflest.

Ef bæta vill barnanna hag
ég býst við að núna sé lag
og lýsi ekki fólsku
að fræða á pólsku,
þau börn sem hér búa í dag.

Nýbúadeildir skólanna gætu örugglega notað eitthvað af þeim peningum sem Vala ætlaði að splæsa á útrásarliðið og ég trúi ekki öðru en að hún vilji "hlúa að fjölskyldum starfsmanna fyrirtækjanna"  jafnvel þó að það séu bara fiskverkunarfyrirtæki.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Limruleikur

Höfundur

Jóna Guðmundsdóttir
Jóna Guðmundsdóttir
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 14
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 14
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband