15.1.2007 | 22:55
Án tilefnis
Limrur eru í eðli sínu bull. Enskir hafa leikið sér að því að gera limrur sem allar eru dónalegar, allar byrja á því að kynna til sögunnar persónu, staðsetja viðkomandi óg segja svo frá gjörðum hennar. Hér kemur ein af þessu tagi og ekki sérlega svæsin:
Finnur er bóndi í Firði
sem frúnni er töluverð byrði
Þegar á hana fer
því feitur hann er:
Hún myndi þverneita ef að hún þyrði.
Hér er svo önnur bull-limra:
Í fötum til Sahara sand ber
seggur að nafni Randver
þar víst fær að heyra
þeir vilji' ekki meira
og allt svo í bál og brand fer.
Þetta er ekki mikil kúnst. Meiri áskorun er að taka umræðuefni líðandi dags og reyna að þröngva í limruformið og auðvitað held ég áfram að glíma við það.
Ég sá hluta af viðtali Evu Maríu við forsetafrúna Dorrit í sjónvarpinu í gær og var eins og fyrr stórhrifin af glæsilegri framkomu hennar. Það rifjaðist upp fyrir mér af því tilefni að þegar hún flutti til landsins og hóf sambúð með forsetanum heyrði ég haft, að mig minnir eftir Kára Stefánssyni, að hún væri meira en velkomin - ekki síst væri fengur að fá hana þar sem nafnið Dorrit rímaði svo ljómandi vel við orðið forrit! Ég læt á það reyna:
Í gærkvöld í Kastljósi kætti
okkur kona' er í viðtal þar mætti
Það var reffileg Dorrit
sem rímar við forrit
og var indæl svo undrum það sætti.
Um bloggið
Limruleikur
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (3.8.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Hæ
Ekki er ég limrusmiður en ákvað samt að reyna eina í tilefni dagsins:
Að limrunum leikur hún sér
og líkar það fleirum en mér
ber aldurinn vel
ég einstaka tel
mín afmæliskveðja er hér
kveðja,
mundi
Guðmundur Baldvin (IP-tala skráð) 16.1.2007 kl. 20:27
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.