Skýrslur og skjöl

Í fjölmiðlum þessa dagana er allt á útopnu.  Byrgismál hafa verið til umfjöllunar í nokkra daga og verða skringilegri og skuggalegri með hverjum deginum sem líður.  Nýr flötur kom upp á því máli þegar forstöðumaður Byrgisins sagðist sjálfur ætla að kæra nauðgun til lögreglunnar! 

Í hita þessarar umfjöllunar er hætt við að það gleymist sem ætti að vera aðalmálið; sem sagt að félagsmálaráðuneytið dældi aurum í þá Byrgismenn án þess að þeir þyrftu að standa neinum reikningsskil.  Það eru skattpeningar okkar sem fóru í að kaupa og reka lúxusbíla í stað þess að þeir væru notaðir til að hjálpa þurfandi fólki.  Ég verð að segja það að hver svaf hjá hverjum þarna fyrir austan er mér að mestu sama um og myndbönd sem hafa gengið ljósum logum á netinu raska ekki svefnfriði mínum.

Víst þykir fjölmiðlum frétt
ef fólk gerir annað en rétt.
En hver ætli syrgi
þó kynlíf í Byrgi
hvorki sé fellt eða slétt.

Svefnró okkar allra ætti líka vissulegar að vera betri eftir að Birni Bjarnasyni tókst að herja út úr Dönum nokkra aflóga riffla og annað dót sem er hannað til manndrápa en hér á reyndar að nota til að verja okkur fyrir þeim óvinum sem áður varð ekki varist nema með herþotum!  Aðeins of flókið fyrir mig en ég sef vissulega betur:
 

Kaninn hann kvaddi’ okkur skjótt
og kom sér í burtu um nótt
En lýkur nú raunum
með riffla frá Baunum
um síðir við sofum nú rótt.

Í sjónvarpinu í kvöld kom í ljós að Valgerður Sverrisdóttir er komin í kosningaham.  Nú segir hún einörð að ástæðulaust að laumupokast með skjöl og skýrslur og að sjálfsögðu eigi viðaukar við varnarsamninginn að vera upp á borðinu og alþjóð sýnilegir.  Rámar mig þá í aðrar skýrslur sem voru gerðar vegna virkjunar austur á landi og enginn fékk að sjá - jafnvel ekki sjálfur ráðherra ....?

Nú afhjúpar skýrslur og skjöl
mikið skelfing er Valgerður svöl.
En áður í flaustri
og flýti í austri
hún forðaðist slíkar sem böl.

En reyndar held ég að jarðfræðiskýrslur séu bæði erfið lesning og leiðinleg.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Limruleikur

Höfundur

Jóna Guðmundsdóttir
Jóna Guðmundsdóttir
Ágúst 2025
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.8.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband