25.1.2007 | 23:45
Kastljós?
Ekki var ég með Kastljósið í huga þegar ég harmaði OH-væðingu RÚV í síðasta bloggi. Mín vegna mætti selja það eða gefa. Að minnsta kosti finnst mér það oft vera þunnur þrettándi.
Það er þó reyndar varla við Kastljósstjórnendur að sakast þó gamlingjarnir sem ég hélt að ætluðu að bjóða fram saman til Alþingis í sátt og samlyndi séu farnir að rífast í beinni. Þetta styður bara þá kenningu mína að lífsskoðanir fólks fari ekkert frekar fara saman þó fólk eigi nokkurnvegin jafnmörg ár að baki. Mér sýnist þetta framboðsvesen vera dæmt til að misheppnast en skal svo sem éta það ofan í mig ef sættir nást og þeir rúlla upp kosningunum í vor.
Núna er fátt eitt að frétta
og fréttnæmast helst er þetta:
Gamlingjar glíma
og gefa sér tíma
úr geðvonskukirnum að skvetta.
Reyndar voru þeir nú ekki sérlega geðvondir - það er nú orðum aukið, en það var mikill pirringur í gangi og enginn virtist vita almennilega um hvað málið snerist.
Kastljósinu var annars beint að óhefðbundnum lækningum í gær og í dag. Í gær var rætt við landsfræga Jónínu Ben sem býður fólki upp á stólpípuferðir til Póllands og lækni sem reyndi þolinmóður að útskýra fyrir henni að það væri óþarfi að skola ristilinn á þennan hátt. Líka var sýnd afeitrun gegnum fætur - fótabað sem á að hreinsa eiturefni úr líkamanum! Í dag var svo gerð tilraun í þættinum þar sem kona var fengin til að fara í fótabað og læknir reyndi að útskýra fyrir hlustendum að brúni liturinn sem kom á vatnið væri ekki járn að skiljast út í gegnum iljarnar á henni. Nú kvíða áhorfendur föstudagskastljósinu...
Menn lappirnar litu á einni
ljómandi verða og hreinni.
En fólk er að vona
að fótabaðskona
fái ekki stólpípu í beinni.
Um bloggið
Limruleikur
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (3.8.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.