2.2.2007 | 22:02
Af hæstaréttardómum
Þegar ég náði í Moggann minn í morgun hrökk ég í kút. Það átti ég sameiginlegt með fjölda fólks eða nánar tiltekið þeim hluta þjóðarinnar sem ennþá er áskrifandi að Morgunblaðinu. Forsíðan var prýdd svarthvítum myndum af fimm skuggalegum mönnum og yfirskrift fréttarinnar var: Milduðu dóminn. Síðan var sagt frá barnaníðingsmáli sem Hæstiréttur Íslands hafði verið að dæma í og mildað dóm undirréttar þannig að sá sem níðingsverkið vann fær átján mánaða dóm í stað tveggja ára.
Nú þarf að fara sér hægt. Níðingsverk gegn börnum eru einn sá versti glæpur sem hægt er að drýgja og enginn mælir slíku athæfi bót. En því miður er þetta ekki eina verk sinnar tegundar sem komið hefur til kasta Hæstaréttar og ekki eina tilfellið um að rétturinn hafi mildað dóma héraðsdóms í slíkum málum. Sem dæmi má nefna að þann 6. apríl í fyrra mildaði Hæstiréttur dóm héraðsdóms yfir manni sem hafði framið kynferðisbrot gegn þremur stúlkum, úr tveimur árum í eitt ár. Reyndar er ekki getið um aldur stúlknanna í þeirri frétt en það að þær eru kallaðar stúlkur, ekki konur, gefur til kynna að þær hafi verið undir lögaldri.
Nú man ég ekki nákvæmlega hvernig Morgunblaðið tók á dómi héraðsdóms í apríl í fyrra en ég er nærri viss um að ekki voru birtar svarthvítar ljósmyndir af Hæstaréttardómurum á forsíðu. Slíkar myndbirtingar á forsíðu virðast mér hingað til að hafi einkum verið notaðar þegar um hörmulegar slysfarir er að ræða og viðkomandi einstaklingar eru látnir.
Hvað er á seyði? Hvað veldur? Það var umræðuefnið á kaffistofum landsins í dag. Og alþýðuskýringin lætur ekki á sér standa hjá fólki sem veit að "ekki lýgur Mogginn"
Nú dómurum hent út á haug
hefur Mogginn sem aldregi laug.
Er verið að glefsa
í greyin og refsa
þeim sömu og sýknuðu Baug?
Eða er það tilviljun að þrír af fimm mönnum á forsíðu Moggans sátu í Hæstarétti þegar Baugsmenn voru sýknaðir þann 25. janúar síðastliðinn? Að minnsta kosti er gott að besti vinur aðal, Ólafur Börkur var ekki með í dag og heldur ekki sá innmúraði og innvígði Jón Steinar.
Um bloggið
Limruleikur
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (2.8.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.