21.2.2007 | 22:59
Heiðmörk
Stundum leita menn langt yfir skammt. Það á oft við um Reykvíkinga sem aka langar leiðir til að komast í snertingu við náttúruna þó að þeir hafi Heiðmörkina við bæjardyrnar. Þar er gott að vera á öllum tímum árs og í alls konar veðri. Mér er sérlega minnisstæð ferð sem ég fór þangað með finnskan gest fyrir nokkrum árum. Ekki til að sýna henni trjágróður heldur til að leyfa henni að vera úti í roki. Í verstu vindkviðunum tók hún upp símann (Nokia) og hringdi í börnin sín til að segja þeim frá bjráluðum vindinum, sem reyndar var nú bara hlý vorgola.
Þó að Finnanum hafi ekki þótt trjágróðurinn í Heiðmörk nógu merkilegur til að minnast á í simtalinu erum við stolt af því hvað vel hefur gengið að rækta upp svæðið og njótum þess að ganga þar í okkar eigin skógi. Því eru margir sárir yfir þeim gróðurspjöllum sem hafa verið unnin þar uppá síðkastið. Fjölmiðlar hafa sýnt okkur myndir af stórvirkum vinnuvélum sem tæta upp allt sem á vegi þeirra verður og er ekki laust við að sumum hafi brugðið í brún.
Lítið sig verktakar vanda
og viðkvæmum trjálundum granda.
Þeir sem svo gera
sýnast mér vera
lítilla sæva og sanda.
Verktakarnir höfðu þó vit á að stinga undan nokkrum trjám sem vonandi eiga eftir að enda aftur uppi í Heiðmörk með tíð og tíma.
Í gær og í dag voru svo skrýtnar fréttir í útvarpinu. Skógræktarfélag Reykjavíkur vildi láta menn svara til saka fyrir skemmdarverkin og hugðist kæra verknaðinn til lögreglu. En samkvæmt fréttum í kvöld kom Vilhjálmur borgarstjóri í veg fyrir það, ef ég heyrði rétt. Hvers vegna fylgdi ekki sögunni en eitthvað er málið dularfullt.
Þeir menn skulu' af mistökum læra
og málsvörn í réttarsal færa,
sem viðkvæmum gróðri
granda í rjóðri:
Því vill ekki Vilhjálmur kæra?
Spyr sá er ekki veit.
Um bloggið
Limruleikur
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (2.8.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.