5.5.2007 | 22:27
Samgöngumál og einkaframtak
Það er alltaf merkilegt þegar einkaframtakið og forsjárhyggjan mætast. Þannig er hlálegt að sjá hvernig frábært framtak Norðanmanna í samgöngumálum virðist ætla að koðna niður vegna þess að pilsfaldur ríkisins er ekki nógu síður.
Þarna á ég við Vaðlaheiðargöngin sem einkaaðilar fyrir norðan stofnuðu hlutafélag til að bora. Félagið hét eða heitir "Greið leið" en ætti kannski að heita "Greið leið að ríkiskassanum."? Ef ég hef skilið málið rétt þá fannst þeim eitthvað skorta á ríksiframlag eða einhversskonar ríkisábyrgð og sögðust þeir hættir við allan undirbúning. Reyndar var það nú eitthvað dregið tilbaka en það breytir því ekki að fyrir okkur sem vorum farin að sjá göngin í hillingum og vorum alveg til í að borga fyrir að sleppa við Víkurskarðið voru þetta hálfgerðar furðufréttir.
Þetta er furðuleg fregn,
framkvæmdir eru um megn:
Göng ekki þora
að byrja að bora
og gatið mun seint ná í gegn.
Og svona af því samgöngumál fyrir norðan eru til umtals þá veit ég ekki hvaða rugl er í gangi með Grímseyinga en þeir eiga samúð mína eftir að fréttir í dag sögðu að ferjan þeirra væri í lamasessi. Þessi frétt kemur í kjölfar frétta seinustu daga um ryðkláfinn sem verið er að gera upp til að þjóna þeim í framtíðinni en gengur víst hægt og kostar mikið.
Útí eynni þó íbúar hangi
ég ætla að stundum þá langi
í bæinn að skreppa:
Hvílikt bull var að sleppa
hinum góða og gamla Drangi.
En eins og allra elstu menn muna þá sá Drangur um siglingar milli lands og eyjar langt fram á horfinni öld.
Um bloggið
Limruleikur
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.4.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 3
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 3
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.