30.5.2007 | 23:16
Sumarkoma?
Þá er útlit fyrir að sumarið sé komið til Íslands. Það var vissulega komið í Berlín þar sem helginni var eytt við að skoða og reyna að kynnast þessari sögufrægu borg.
Hér heima virðist fátt hafa gerst. Einna helst er verið að tala um aðstoðarmenn ráðherra þessa daganna en við hraðlestur blaðanna gat ég ekki séð að nema tveir væru búnir að taka af skarið. Ingibjörg Sólrún valdi sér Kristrúnu Heimisdóttur og síðan var Össur búinn að krækja í Einar Karl Haraldsson.
Einar hefur nú aðallega vakið athygli upp á síðkastið fyrir bókstafstrú. Hann hefur eytt mikilli prentsvertu í að fjalla um að hjónaband geti aldrei verið sáttmáli milli einstaklinga af sama kyni ef ég hef skilið hann rétt. Þar fyrir utan er hann hinsvegar sagður hafa ýmislegt sér til ágætis:
Hann ynni ekki skepnunni Skjóna grand,
hann skaffaði óhræddur róna bland:
Hann óttast ei neitt
nema það eitt
að hommarnir gangi í hjónaband.
Eins gott að hann fór ekki í félagsmálin.
Annars er þingsetning á morgun og þá verður nú fagnaðarfundur. Einhverjir eru að sjálfsögðu búnir að hittast og kjaftasaga um félagana Möller og Johnsen fjallar um þeirra fund eftir að ljóst varð að sá fyrrnefndi yrði ráðherra
Til Eyja er leiðin ei löng
en líkast til sagan þó röng:
Án þess að blána
sagði Árni við Stjána:
Ekki gleyma; þú skuldar mér göng
Um bloggið
Limruleikur
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (29.7.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.