10.7.2007 | 23:48
Ekki fréttir
Aftur er Byrgið orðið fréttaefni. Nú vegna þess að í ljós hefur komið að veggjalýs voru heimilisfastar í Efri-Brú og hefur þurft að brenna innbú til að losna við óværuna. Veggjalýs munu vera skæð kvikindi sem ráðast á sofandi fólk og bíta. Sennilega er hér komin skýring á því hvers vegna forstöðumaðurinn svaf ekki allar nætur í eigin rúmi að því er sagt var.
Hann lá ekki á sínu liði
en leiddi inn margskonar siði:
Svo sem fletin að reyna
til að finna það eina
sem væri ekki á einlægu iði.
Annars er það annað fréttnæmt að nú hafa tveir Íslendingar gert tilraun til að synda yfir Ermasund í vikunni og báðir þurft að gefast upp fyrir erfiðum aðstæðum. Mér sýnist vera fullreynt - einkum ef maður heitir Benedikt.
Ermasund allmargir þreyta
ár hvert og sundtökum beita
en betra má telja
bátsferð að velja
ef Benedikt kapparnir heita.
En að þessu sögðu vil ég taka fram að ég ber mikla virðingu fyrir þessum köppum. Það eru engir meðaljónar sem reyna við svona ögrun og það er engin skömm að játa sig sigraðan í slíku einvígi við náttúruöflin.
Um bloggið
Limruleikur
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (27.7.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.