Bjór og meiri bjór

Frægt er orðið að framkvæmdaglöð hjón á Árskógssandi stofnuðu litla bjórgerð í vetur sem leið.  Í kosningabaráttunni sá Steingrímur Sigfússon um að auglýsa þennan bjór þegar hann tók þessa framkvæmd sem dæmi um að fleira mætti framleiða á landsbyggðinni en ál.  Síðan skilst mér að bjórinn auglýsi sig sjálfur en bjórunnendur segja þar vera um afbragðsvöru að ræða.

Nú er sem fyrr að allir vildu Lilju kveðið hafa.  Í dag var sagt frá því að Vestmanneyingar ætluðu að fara að brugga og um helgina var auglýst eftir bruggara til að vinna við brugghús á Suðurlandi sem "mun verða leiðandi á sínu sviði" minnir mig að hógvært orðalagið hafi verið.

Hér er semsagt komið hið nýja laxeldi.  Eða kannski frekar refarækt.  Nú er að sjá hvort menn geti lifað á því að selja hver öðrum bjór.

Um það ríkir alls enginn efi
að í aðra hönd betur það gefi
bjórinn að laga
liðlanga daga
en laxa að ala´ eða  refi.

Það var frétt um drukkna geimfara í mbl. í dag.  Samkvæmt þeirri frétt fara þeir meira og minna drukknir í loftið en ekki var getið um hvort að þeir drukku bjór eða eitthvað sterkara.

Það ríkir víst gleði og glasa-
glaumur og enginn að þrasa
þó fullir á loft
þeir fari víst oft
enda frábært að vinna hjá NASA.

Hann var hinsvegar víst ekki fullur, bara frekur, guttinn sem var tekinn fyrir of hraðan akstur hér suður með sjó í gær.  Hann var á 130 km hraða og ók öfugt í gegnum hringtorg.  Heppinn að drepa engann en þetta er auðvitað ekkert annað en hreinn og klár ofbeldisglæpur.

Á hringtorgi öfugt hann ók
og eftir það hraðann svo jók.
Slíkt er ofbeldi frekt
og fá mun hann sekt
því til fanga hann lögreglan tók.

Sennilega sleppur hann þó við að sitja inni þrátt fyrir að hann gæti vissulega haft gott af því að fá að hugsa sinn gang í ró og næði.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðrún Markúsdóttir

Þú ert algjör snillingur! Takk fyrir að gerast bloggvinur minn!

Guðrún Markúsdóttir, 28.7.2007 kl. 17:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Limruleikur

Höfundur

Jóna Guðmundsdóttir
Jóna Guðmundsdóttir
Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.7.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband