13.8.2007 | 22:44
Langt líf og gott
Samkvæmt fréttum mbl.is andaðist 114 ára gömul kona að nafni Jóna (Yone) í Japan í gær. Hún hafði hampað titlinum "elsta kona heims" síðan í janúar svo það var nú alveg kominn tími á hana.
Hún golunni geispaði í hvelli
og glyrnum lauk aftur með skelli.
Lífinu skjótt
var lokið um nótt
og líklegast dó hún úr elli.
Ég ætla nú að vona að ég verði ekki alveg eins lengi að koma mér héðan eins og þessi japanska nafna mín.
Hún má hinsvegar vera fegin ef hún verður ekki dauð úr hjartabanki fyrir tvítugt, breska sautján ára stúlkan, sem fékk svo sterk eitrunanareinkenni af expressó að hún var flutt á bráðamóttöku:
Hún fann hvorki streitu né stress þó
hún sturtaði í sig expressó
en sjöundi boll-
inn kom henni í koll
og kvaðst hún þá alls ekki hress nóg.
Hún kvaðst reyndar líka ætla að láta þetta sér að kenningu verða, svo hún gæti kannski átt eftir að verða 114 ára - hver veit? Hún á jafnvel eftir að taka þátt í ástarviku í Bolungarvík en þar er þátttakan svo góð að meira að segja Síminn ákvað að veita íbúum næði til ásta og því verður símasambandslaust þar í nótt ef marka má fréttir sjónvarps. Reyndar var það nú vegna tenginga en vafalaust hafa þeir reynt að velja tíma sem hentaði....
Ástar- nú blindar þá -bríminn
til bólfara nýttur er tíminn.
Og þá er sko fínt,
já beinlínis brýnt
að bansettur hringi ekki síminn.
Um bloggið
Limruleikur
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (26.7.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Ég gæti nú gert því skóna
að gömul verði hún Jóna
og langi til þess
að lifa svo hress
við limrur og fagra tóna.
Hallmundur Kristinsson, 13.8.2007 kl. 23:52
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.