16.8.2007 | 23:17
A town called Alice
Bærinn Alice Springs í Ástralíu er ekki stór. Íbúafjöldi er eitthvað um 25 þúsund og þar gerist sjaldan nokkuð spennandi. Nei, ég hef ekki komið þangað en ég á heimboð þar hjá David, áströlskum vini, sem flutti þangað í janúar og var strax farinn að sjá eftir því - áður en hann flutti.
Í dag var samt þessi eyðimerkurbær í fréttum:
Í ástralska bænum Alice Springs
oftast er lífið hangs og vings
uns maður sást pota
með penna og krota
í pocketbækur hans Stephen Kings.
Þegar bókarbúðareigandinn hafði upp á þessum krotara þá kom í ljós að þetta var hryllingsbókahöfundurinn sjálfur - að árita eigin framleiðslu. Bækurnar verða að sjálfsögðu boðnar upp og ágóðanum varið til góðgerðarmála.
Annars hafa þessir síðust dagar verið dagar stóriðjunnar. Þar er fyrst að telja olíuhreinsistöðina sem nú virðist eiga að rísa við Arnarfjörð. Ef fer sem horfir verður henni dritað niður inni í miðjum firði, í svonefndum Hvestudal, þar sem áður stóð bærinn Hvesta.
Það er skömm enda skelfir það flesta
að skynsemi virðist þá bresta
sem olíu vilja
á Vestfjörðum skilja
þar sem fyrrum stóð kotbýlið Hvesta.
Reyndar getur vel verið að Hvesta hafi verið höfuðból en ekki kot - en það mun í öllu falli vera í eyði í dag og því í lagi að menga að vild.
Stóriðjudraumur Akureyringa gæti líka ræst á næstunni. Nú er það aflþynnuverksmiðja sem á að bjarga öllu, enda mun ekki af veita þegar útgerðin flyst úr bænum. Mogginn birtir í dag mynd af kampakátum íhaldsmönnum að gera áætlanir og bar þar mest á þingmanni þeirra Akureyringa ásamt Selfyssingnum Eyþóri Arnalds sem mun verða í forsvari fyrir þessa fabrikku.
Fyrir norðan er merkast og mætast
að munu nú draumarnir rætast:
Arnalds hann sér
um aflþynnuver
og Akureyringar kætast.
Og við getum öll verið kát. Þó að hlutabréf lækki og krónan liggi á líkbörunum, þá er á hverjum degi fundinn nýr viðmælandi í útvarp og sjónvarp sem segir okkur öllum að þetta sé allt í góðu:
Allt er víst með kyrrum kjörum
og kokhraustir menn í svörum
þó verðbréfin lækki
og vextirnir hækki
og veik liggi krónan á börum.
Um bloggið
Limruleikur
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (25.7.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.