4.9.2007 | 23:07
Af hugðarefnum mínum og annarra
Fréttir af Reðursafninu (Reðasafninu/Reðrasafninu) á Húsavík halda áfram að gleðja áhugafólk um efnið. Nú síðast var í Fréttablaðinu (?) viðtal við eldhressan safnstjórann sem kvartar ekki yfir skorti á athygli þó að hann hefði getað annað fleiri gestum úr hópi heimamanna á afmælisdegi safnsins: Þeir mættu alls fjórir.
Að skoða skaufana stóra
og skeleggan reðursafnsstjóra
heillaði víst
húsvíska síst:
Í afmælið fengu þeir fjóra.
Útlendingar eru hinsvegar alltaf jafn spenntir og einhver næstum því frægur skrifaði um safnið og Ísland í spænsk blöð og sagði að ekkert á Íslandi hefði jafnast á við þetta stórkostlega safn.
Hann sótti heim fold vorra feðra
og fjölbreytni kannaði veðra,
en kunni sig best
er komst fyrir rest
í helgidóm húsvískra reðra.
Og talandi um helgidóm og heilagleika. Mér finnst auglýsingin um Símann og Júdas ekki sérlega vel heppnuð; eru þeir ekki að segja að þetta sé svo gamaldags dót að það hefði passað vel á dögum postulanna?
Græðgis- í blossandi -brímanum
þeir bjartsýnir eru hjá Símanum:
Segja þeir fína
framleiðslu sína
en tvöþúsund ár eftir tímanum.
Reyndar hefði verið gagnlegt ef það hefði komið fram hvort slíkur sími fáist fyrir þrjátíu silfurpeninga?
Um bloggið
Limruleikur
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (24.7.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.