Ekkifréttir

Þá er kjötið búið og skyrið komið aftur á matseðilinn á mínu heimili.  Ég var nú samt ekki að borða skyr heldur bara að sötra kaffi þegar ég las í Fréttablaðinu í morgun að nú ætti að fara að grafa eftir fornmunum á Kili.  Og þar var ekki verið að tala um tannstöngla eða lúsakamba Reynisstaðabræðra heldur hinn Heilaga Gral sem  hafnaði víst í djúpu gili á Kili þegar búið var að vaska upp eftir síðustu kvöldmáltíðina forðum.

Ég spái hann með okkur spili
þó spennandi hljómi í bili.
Eftir heilögum gral
grafa nú skal
gárungi nokkur á Kili.

Það má segja sveitastjóra Hrunamanna Ísólfi Gylfa, til hróss að hann virtist ekki leggja mikinn trúnað á bullið og sýnir það að Framsóknarmönnum er þrátt fyrir allt ekki alls varnað.

Fleiri furðufréttir urðu á vegi mínum í dag.  Eða hvað er hægt að segja annað um þetta:

"Stórar nærbuxur hafa að líkindum komið í veg fyrir að heimili breskrar fjölskyldu yrði eldi að bráð þegar þegar þær voru notaðar til að slökkva eld sem blossaði upp á steikarpönnu í eldhúsinu á sunnudaginn". 

Síðar í fréttinni kemur fram að nærbuxurnar voru í stærð XXL og fengust í Marks & Spencer.

Skemmtilegt þetta skens er
en skiljanlega þó tens er
frúin sem klók
fórnaði brók
sem fékk hún í Marks og Spencer.

Til að toppa vitleysuna þá vitnar Mogginn í breskt blað sem aftur hefur það eftir söngkonunni Björk Guðmundsdóttur að hún, eins og allir aðrir Íslendingar drekki heilan lítra af óblönduðum vodka á hverju föstudagskvöldi.  Þarna er henni nú heldur betur farið að förlast eða þá er ekki rétt eftir henni haft. 

Hún Björk hún er kúl bæði‘ og klók
en klárlega er þetta djók
því rétt eins og við
veit hún þann sið
að vodka skal blanda í kók.

 



« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Limruleikur

Höfundur

Jóna Guðmundsdóttir
Jóna Guðmundsdóttir
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband