Lasinn, veikur, dauður.

Lasinn, veikur, dauður, sagði strákurinn sem átti að stigbreyta lýsingarorðið lasinn.  Ég er ekkert af þessu.  Hef ekki einu sinni fengið kvef í sumar.  Ég fór bara í frí.  Mér sýnist að það séu sex, sjö vikur síðan og á þeim tíma hef ég ferðast um lönd og álfur.  Ég hef gengið, hlaupið, róið, hjólað, synt og sólað mig en ekki bloggað.

Nú held ég að ég sé komin í bloggheima að nýju og það verður bara að koma í ljós hvert úthaldið er.  Þegar ég bloggaði síðast hélt ég mig vera með fuglaflensu eða bráðaberkla en sem betur fer er heilsufarið gott.  Ég fór meira að segja út í garð í dag og tíndi ber sem nú eru orðin rifsberjahlaup í krukkum.

Ég er ekki allskostar dauð
en andlega galtóm og snauð
Þó aðeins ég rétt
áðan tók sprett
er rifsberja-sultu ég sauð.

Ég er auðvitað jafn bjartsýn og aðrir landsmenn eftir sigur "strákanna okkar" í Bejing,  þó ég hafi nú ekki haft rænu á að kveikja á sjónvarpinu í dag.  En þetta er glæsilegt - ennþá að minnsta kosti, þó ég efist nú einhvern veginn um að gullið sé í höfn.

Nú ljósið tók loksins að skína
og liðsheild þeir mynduðu fína
Snorri og hinir
handboltavinir
sem kasta nú bolta í Kína.

Það er ekki alveg eins gaman að fylgjast með sundfólkinu:  49. sæti af 64 keppendum, 38 sæti af 52 keppendum og svo framvegis. 

Með kínverjum eitt sinn ég undi
(án þess að bragða á hundi).
En lagin komst hjá
að láta þá sjá
hve léleg við erum í sundi.

Það gladdi mig þegar ég var stödd í fjarlægri heimsálfu hér um daginn að fá fyrirspurn frá bloggvini um hvað hefði orðið af mér.  Ég gat ekki svarað því tölvarn sem ég var í bauð ekki upp á það en mér hlýnaði um hjartarætur.

Ég framtíð tel síst vera svarta
ef svoddan höfðingjar kvarta
er fer ég í frí
og fagna ég því
af auðmjúku og einlægu hjarta.









 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Limruleikur

Höfundur

Jóna Guðmundsdóttir
Jóna Guðmundsdóttir
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband