20.8.2008 | 22:46
Erfiðar ákvarðanir
Nú eru skólar að byrja og mikið að gera hjá þeim stóra hluta þjóðarinnar sem kemur að skólamálum; nemendum og foreldrum þeirra fyrst og fremst en auðvitað líka kennurum og öðrum starfsmönnum menntakerfisins.
Einn er þó stikkfrí: Meðan kennarar velta fyrir sér stundatöflum og námsefni og foreldrar og nemendur fara með greiðslukortin og innkaupalistana í búðir hefur menntamálaráðherra þær áhyggjur helstar að hún þurfi aftur að fara til Kína að góla á handboltastrákana okkar. "Sem yfirmaður íþróttamála finnst mér eðlilegt að maður fylgi þeim eftir, og það er bara hlutur sem ég er að skoða, segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra.
Ég tel líklegt að litlu það breyti
um lognmollu í ráðuneyti
þó hún stormi til Kína
stuðning að sýna
í stað þess að senda þeim skeyti.
Á morgun verður haldinn mikill fundur í borgarstjórn. Þá verður einu sinni enn skipt um borgarstjóra og einu sinni enn eru borgarbúar fúlir og argir yfir ruglinu. Síðast mættu ungliðar stjórnmálaflokkanna (nema auðvitað íhaldsins) á pallana og bauluðu. Nú hefur hinsvegar Óskar frammari sýnt hvað hann er snjall. Í útvarpsauglýsingu skorar hann á framsóknarmenn að mæta á pallana og tryggir þar með að aðrir láta ekki sjá sig þar. Hver vill svo sem eiga það á hættu að vera álitinn framsóknarmaður? Þetta verður því mikil hallelúja samkunda með Hönnu Birnu, Villa, Óskari og öllum framsóknarflokknum.
Þar ríkja mun kjarkurinn, kætin
og hverfandi verða þar lætin;
því framsókn mun alla
fylla þar palla;
já þeir taka öll sextíu sætin.
Það verður ekki baulað á Hönnu Birnu í þetta sinn - ónei.
Um bloggið
Limruleikur
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.