18.1.2009 | 23:03
Fyrsta flokksþingið á árinu
Þá eru Framsóknarmenn búnir að þinga og kjósa og álykta. Ályktun þeirra um Evrópusambandið er nú kafli út af fyrir sig. Fyrirvararnir voru svo margir að það vantaði bara að það stæði að íslenska skyldi verða aðaltungumálið í Brussel.
En þó toppar formannskosningin í dag allt. Þar þurfti til tvær umferðir og að þeirri seinni lokinni hyllti þingheimur vitlausan mann um stund þar til einhver í kjörstjórn áttaði sig á því að þeir höfðu talið vitlaust:
Því fyrirhöfn fylgir og elja
formann til starfa að velja
og núna hver sér
það nauðsynlegt er
að kjörstjórnin kunni að telja.
Höskuldur Þórhallsson bar sig þó furðu vel þegar menn áttuðu sig á talningarmistökunum og hann mátti lufsast niður af sviðinu og í sætið sitt. Hann er ættaður eða uppalinn í Hörgárdal og ég gef mér að þar hafi menn haldið með sínum manni.
Það var hátíð í Hörgárdalnum
er hylltur um stund var í salnum,
uns frægðar af þröskuldi
fleygðu menn Höskuldi
og vaskur hann liggur í valnum.
Sá sem tók við formannsembættinu eftir að kjörstjórn fór yfir samlagninguna einu sinni enn var splunkunýr flokkslimur Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. Sem betur fer hefur einhver ættfróður bloggari bent á að hann eigi rætur að rekja út fyrir malbik.
Maddama Framsókn er móð og heit
því mannaval slíkt ekki fyrr hún leit:
Formann sér velur
er fremstan hún telur
og sá á sér rætur í Reykhólasveit.
Ekki mikið þó að Páll Magnússon færi ekki langt í þessu kjöri - er hann ekki bara að sunnan?
Um bloggið
Limruleikur
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.