5.1.2007 | 23:39
Fátt nýtt
Auðvitað á þetta eftir að reynast erfitt áramótaheit hjá mér: Nú er ekki nema fimmti dagur ársins og ég er þegar komin í þrot. Vandinn er sá að þetta er einn af þeim dögum sem ekkert er í fréttum. Ég vaknaði reyndar upp í morgun við umræður í útvarpi þar sem Valgerður nánast lofaði að berjast fyrir því að við tækjum upp Evruna. Ég er þó hrædd um að það verði framkvæmt á framsóknarmannavísu - það er að segja ekki. Þetta er hinsvegar of alvarlegt mál til að hægt sé að blogga um það, hvað þá yrkja. Sama má segja um hjónaskilnað rokkarans Magna - limran um það var á kantinum svo ég sleppi henni.
Hinsvegar eru mér boltaíþróttir ekki heilagar og án þess að ég hafi fylgst með því þá er landsliðið í handbolta búið að fara til Noregs og skíttapa - og það þrátt fyrir að þjálfararnir hafi setið á hliðarlínunni með ygglibrún:
Þó þjálfarar góni og gapi
grettnir og þungir í skapi,
þá var allt í steik
í vináttuleik
og landslið í tjóni og tapi.
Önnur frétt og öllu verri var um franskan fanga sem drap klefafélaga sinn og át. Reyndar ekki allan, þessi virtist vera mest fyrir innmat án þess að ég fari nánar út í það hér. Hann var að sjálfsögðu handtekinn og hvað svo? Settur í fangelsi?
Frakkarnir matinn þeir meta
og mig langar hér þess að geta:
Í kjöt fór að langa
langsoltinn fanga
svo félagann fékk sér að éta.
Um bloggið
Limruleikur
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (5.8.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Frábær og skemmtilegur kveðskapur. Ég vona að þú standir við það, að yrkja
limru á dag. Mættu vera fleiri. Og eftir að hafa séð mynd af höfundi hér að ofan
datt mér í hug:
Mér virðist hún gáfum gædd,
geðþekk en lítið klædd.
Hún yrkir svo vel
að ég ætla og tel;
oss er limrumær fönguleg fædd.
pbs (IP-tala skráð) 6.1.2007 kl. 11:08
Vá! Takk fyrir fallega kveðju og flotta limru!
Jóna Guðmundsdóttir, 7.1.2007 kl. 21:54
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.