Fagurgali

"En bæði frá hægri og vinstri eru menn að laumast inn á miðjuna og blekkja fólk til fylgilags við sig með fagurgala".  Orðrétt tilvitnun í setningarræðu formanns Framsóknarflokksins á flokksþinginu sem hófst í dag.  Ræðan var annars dæmi um fagurgala og orðskrúð og merkilega gaman að heyra hvað formaðurinn hrífst af eigin orðum; hann var af og til við það að klökkna yfir eigin orðheppni.

Nú þráfalt loforðin þylja
og þykjast plana að skilja
við íhaldsmaka
og ætla að taka
að sýna sjálfstæðan vilja.

Undirbúningur undir þetta flokksþing hefur annars staðið síðustu dagana og mikið hefur gengið á.  Nú á að kýla á það:  Lánshlutfall til íbúðarkaupa hækkað einn daginn; auðlindum skal skilað til þjóðarinnar þann næsta og matarverðið að sjálfsögðu miklu lægra í dag en í gær.  Allt er þetta og meira til skilst mér að sé Framsóknarflokknum að þakka sem og fjöldi sólskinsstunda í febrúar en þær hafa aldrei verið fleiri.

Hér matvara flest loksins lækkar
og lánshlutfall íbúða hækkar
Kjördagur nær
er nú en i gær
og um sinn í Framsókn ei fækkar.

Ég vaknaði annars við Guðna Ágústsson í morgun þar sem hann var að tjá sig um stjórnarskrána og um að nauðsynlegt væri að festa þar inn ákvæði um eignarrétt þjóðarinnar á eigin auðlindum!  Þakka skyldi honum.  Gott að hann mundi eftir þessu svona korter í kosningar.  Annars skilst mér að í Þjóðarpúlsi Gallup frá í gær hafi Framsókn þokast upp í 10% svo ekki mikið þó að kallgreyið hafi verið kátur.

Guðni er ólmur og ær
og æstur síðan gær
er framsókn að nýju
fór upp í tíu
(sem er margfalt meir en hann fær). 


En hvað veit maður kannski fá þeir svo 10% eftir allt saman - við erum svo gleymin.
 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Limruleikur

Höfundur

Jóna Guðmundsdóttir
Jóna Guðmundsdóttir
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.5.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 21
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 21
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband