8.2.2009 | 23:02
Setning dagsins
Davíð sagði í svarbréfi sínu til Jóhönnu eitthvað á þá vegu að aðförin að honum væri einsdæmi "um allan hinn vestræna heim". Björn Bjarnason tók strax undir það - nema hvað.
Þetta vekur hinsvegar upp spurningar um fleira sem er óþekkt eða sjaldgæft um hinn vestræna heim....
Menn spurningu senda spekingum tveim
hvort spjátrungar finnist sem líkist þeim
og skipi sig sjálfa
eða skyldmennabjálfa
víða í stöður um vestrænan heim?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.2.2009 | 23:42
Nóg vinna fyrir vana menn
Þremur miðaldra mönnum hefur verið sagt upp störfum í miðbæ Reykjavíkur. Þeir þurfa esamt kki að fara langt til að finna störf við hæfi.
Í bankanum höfðu þeir pottþétt plan;
af peningum frekar of en van.
Núna í vinnu
vilja hjá Tinnu
sem Kasper, Jesper og Jónatan.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.2.2009 | 22:15
Kóngurinn bregst ekki...
Þá er Jóhanna búinn að biðja hann að fara með góðu - en við eigum nú eftir að sjá það.ganga eftir.
Nú hefjast mun þrasið og þrefið
en þetta var auðvitað gefið:
Karlinn á hólnum
hangir á stólnum
og hunsar uppsagnarbréfið.
Hvað er hann annars að gera í útlöndum? Stofna til gjaldeyrisviðskiptasamninga við Mósambik? Eða kannski bara að kaupa sér föt í London?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
2.2.2009 | 23:30
Drjúg eru morgunverkin
Jóhanna hefur í stutta stund
stjórnað, en eftir morgunfund
á sig hún tekur
rögg og þá rekur
hún Eirík, Davíð og Ingimund.
Vonandi verður þessi spá mín búin að rætast um hádegi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
31.1.2009 | 22:44
Gamalt vín á nýjum belgjum
Í flóðljósi fjölmiðla glaður
fer hann með bull og með þvaður
Greinilegt er
hér galvaskur fer
gamaldags framsóknarmaður.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
29.1.2009 | 23:36
Stjórn að fæðast?
Nú bendir allt til þess að ný stjórn verði mynduð á morgun. Ég veit ekki hvað það er raunhæft að vera með miklar væntingar en það er þó ljóst að hún getur ekki orðið verri en sú gamla.
Ég bind að minnsta kosti vonir við Jóhönnu og óska henni alls hins besta í nýju hlutverki.
Það er gáleysi að vera með gáska
við gæta' okkar þurfum í háska.
Nú Jóhönnu styðjum
og Steingrím við biðjum
um að stilla sig fram yfir páska.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.1.2009 | 00:08
Það sem okkur vantaði
Nenni ekki að hafa skoðun á nýrri stjórn í bili en fagna því þó ef tími Jóhönnu er kominn. Hinsvegar voru aldeilis fáránlegar fréttir af síðustu glappaskotum fráfarandi stjórnar.
Yfir gjaldþrot og barlóm nú breiða skal
og blása á allt þetta leiða tal:
Nú Íslands við bætum
ímynd og kætum
alheiminn með því að veiða hval.
Ætlar bullið aldrei að taka enda?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.1.2009 | 00:08
Stjórnarkreppa og spár
Það er dapurt hve óttast menn drekann
þó dæmt hafi þjóðin hann sekan:
Nú sitja á fundum
flestöllum stundum
og ræða um hver á að rekann.
Nú hafa báðir stjórnarflokkar boðað fund í fyrramálið. Innanhúskenning hér á bæ er að varaformaðurinn fái forsætisráðherrastól til vors gegn því að ráðast til atlögu. En sennilega þorir hún ekki heldur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.1.2009 | 22:50
Sjálfhverfir ráðherrar
Hann er áþekkur þrjóskustu uxunum
og ámóta frískur í hugsunum.
Og svipað og þeir
segir nú Geir
að hann sé ekki á kosningabuxunum.
Þorgerður var hinsvegar á annarri skoðun í dag. Hún segist sjá að það verði kosningar á árinu en segir verst að ´"sjálfhverf" kosningabarátta taki tíma frá öðrum verkum!
Þorgerður sagði annars þegar mest gekk á í haust að í hönd færu spennandi tímar fyrir Sjálfstæðisflokkinn og hefur heldur betur reynst sannspá.
Hún Þorgerður léttlynd og lagin
segir ljóslega komið á daginn
að rætist nú spár
um spennandi ár
og sér kastar í kosningaslaginn.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.1.2009 | 23:41
Jólin búin og jólasveinarnir komnir aftur inn á þing
Þegar lögreglan var að sprauta piparúða yfir mótmælendur í dag fyrir utan Alþingishúsið þótti menntamálaráðherra "bagalegt" að fá ekki vinnufrið.
Með kylfum og lögregluliði
létu menn kné fylgja kviði:
Þótti samt bagalegt
Þorgerði og agalegt
að vinna hún fékk ekki í friði.
Ég hjó eftir orðinu bagalegt í fréttinni en fann hana svo ekki þegar til átti að taka. Kannski fannst henni þetta ekkert bagalegt eftir allt saman?
Geir bað líka um vinnufrið í sinni ræðu skilst mér. Til hvers? Til að ræða vanda heimilanna? Til að ræða um frystingu eigna auðmanna? Til að ræða um kröfu almennings um kosningar? Nei ekki alveg; á dagskrá voru nefninlega alvörumál eins og frumvarp um skipafriðunarsjóð.
Vinnufrið þurfum við, þrumdi Geir
og þingheimur vafalaust sagði heyr.
Skjótt kann að miða
skipin að friða
en umboð frá okkur fær aldrei meir.
Annað og merkara mál var um greiðslur til líffæragjafa. Það er auðvitað vannýtt auðlind og nú er bara að selja nýra upp í skuldir.
Ef skulda- ert komin á -klafa
þá kannski er pening að hafa
sátt ef að næst
og samþykki fæst
um greiðslur til líffæra gjafa.
Eitt mál var þó tekið af dagskrá. Frumvarp um rétt fólks til að kaupa áfengi í mjólkurbúðum verður að bíða enn um sinn og því verður bara jóghúrt og léttmjólk í kælinum næst þegar við förum í Hagkaup.
Það fréttist af frjálshyggjulúðum
og fæst okkar eyrum við trúðum:
Þeir kusu þann besta
kostinn að fresta
umræðu um áfengi í búðum.
Gott mál. Og þarmeð fékkst líka meiri tími til að ræða hin þjóðþrifamálin eins og Eldflaugavarnir í Austur-Evrópu og Áhrif markaðsvæðingar á samfélagsþjónustu svo einhver séu nefnd.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Limruleikur
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar