7.1.2007 | 21:20
Ellismellur
Ellismellur? Ég? Já kannski líka en ég kemst þó ekki með tærnar þar sem prestur nokkur frá Nígeríu hefur hælana. Hann er 107 ára gamall og var að kvænast þrítugri konu hér um daginn. Hann segir skv. Mogganum: Drottinn er styrkur minn. Ég er mjög sterkur og fullur af orku.
Presturinn verður í vandaer hjá vífinu þarf sig að standa
en treystir þó á
honum takist að fá
aðstoð frá heilögum anda.
Ég er alveg viss um að þetta á allt eftir að fara vel hjá þeim nýgiftu og vonandi að við þurfum ekki að lesa skilnaðarfréttir um páskana. Það er alveg nógu niðurdrepandi að lesa skilaðarfréttir Magna í blöðum þessa dagana. Hann segir að í Fréttablaðinu að allt tal um samband sitt við Dilönu sé ekki svaravert en það kemur víst ekki í veg fyrir að sögurnar blómstri á spjallsíðunum. Dilönu kalla ég að sjálfsögðu Diljá uppá Íslensku.
Vafningalaust ég vil fá
að vita og ef til vill skil þá
því ekki þagna
þeir sem að Magna
bendla við dömuna Diljá.
Nú verð ég að gera þá játningu að þetta fólk er mér reyndar ekkert mjög hugleikið - ég sá aldrei söngvakeppnina vinsælu sem þau tóku þátt og Dilana er fyrir mér bara nafn í Fréttablaðinu. En Magna hugsa ég að ég myndi ég þekkja á götu (nema að hann hafi rakað sig nýlega).....
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.1.2007 | 02:47
Andríki
Nei andríki mitt er ekki mikið en það var andríki í gangi þegar ungir íhaldsmenn afhentu verðlaun í gær (eða var það í fyrradag?). Verðlaunin kalla þeir frelsisskjöld og kenna við Kjartan Gunnarsson fráfarandi formann Sjálfstæðisflokksins. Eitthvað hefur frelsisbarátta þess manns farið framhjá óbreyttum en hann hefur vonandi enn tíma til að sanna sig fyrir almenningi.
En verðlaununum var skipt milli Andra Snæs sem fékk þau fyrir bókina Draumalandið og samtaka sem heita Andríki og standa að einhverri vefútgáfu. Veit ekkert um þá gaura en vonandi eru þeir jafn vel að frelsisskildinum komnir og Andri Snær sem hristi duglega upp í þjóðinni á liðnu ári með bókinni Draumalandið. Verðum bara að treysta því að hann fari ekki í vörn þó að hann sé kominn með skjöld - persónulega hefði ég frekar viljað að hann fengi frelsissverðið....
Með frelsiskjöldinn á flandr í gær
hann frjálshyggjulið í klandri ljær
Draumalands-höfundi
(sem held ég þeir öfundi)
því hugsjónamaður er Andri Snær.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.1.2007 | 23:39
Fátt nýtt
Auðvitað á þetta eftir að reynast erfitt áramótaheit hjá mér: Nú er ekki nema fimmti dagur ársins og ég er þegar komin í þrot. Vandinn er sá að þetta er einn af þeim dögum sem ekkert er í fréttum. Ég vaknaði reyndar upp í morgun við umræður í útvarpi þar sem Valgerður nánast lofaði að berjast fyrir því að við tækjum upp Evruna. Ég er þó hrædd um að það verði framkvæmt á framsóknarmannavísu - það er að segja ekki. Þetta er hinsvegar of alvarlegt mál til að hægt sé að blogga um það, hvað þá yrkja. Sama má segja um hjónaskilnað rokkarans Magna - limran um það var á kantinum svo ég sleppi henni.
Hinsvegar eru mér boltaíþróttir ekki heilagar og án þess að ég hafi fylgst með því þá er landsliðið í handbolta búið að fara til Noregs og skíttapa - og það þrátt fyrir að þjálfararnir hafi setið á hliðarlínunni með ygglibrún:
Þó þjálfarar góni og gapi
grettnir og þungir í skapi,
þá var allt í steik
í vináttuleik
og landslið í tjóni og tapi.
Önnur frétt og öllu verri var um franskan fanga sem drap klefafélaga sinn og át. Reyndar ekki allan, þessi virtist vera mest fyrir innmat án þess að ég fari nánar út í það hér. Hann var að sjálfsögðu handtekinn og hvað svo? Settur í fangelsi?
Frakkarnir matinn þeir meta
og mig langar hér þess að geta:
Í kjöt fór að langa
langsoltinn fanga
svo félagann fékk sér að éta.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
4.1.2007 | 22:03
Úps!
Vaknaði í morgun og staulaðist út eftir Mogganum. Las hann frá orði til orðs eins og heyrir til þegar maður er áskrifandi - þannig fær maður mest fyrir peningana. Komin inn í mitt blað sá ég mér til undrunar að vísnaþáttur dagsins reyndist vera með limrum eftir sjálfa mig. Eins gott að súrmjólk getur ekki staðið í manni!
Ég hef nú lítil viðbrögð fengið. Tveir vinnufélagar höfðu lesið Moggann nógu vel til að reka augun í þetta og síðan hef ég bent fjölskyldunni á upphefð mína og fengið góðar undirtektir. En annars held ég bara mínu striki og held áfram að smíða limrur...
Í dag var frétt í Mogganum um glæsimeyjuna Paris Hilton sem kveðst hafa fengið sig fullsadda af karlmönnum og sofa með apa í rúminu til að vera ekki ein. Samkvæmt öðrum fréttum sem hafa birst af þessu kvendi er það fullkomlega eðlilegt að hún skuli sofa hjá apa. Sækjast sér um líkir - ekki satt?
Moggin frá gáleysi og glöpum,
greinir, jafnt sigrum sem töpum
Hilton, en frétt
ég fyrst teldi' ef rétt
væri' að svæfi hjá öðrum en öpum.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.1.2007 | 20:55
Hófdrykkjufréttir
Í dag birti Mogginn frétt um að hófdrykkja gæti dregið úr hættu af völdum háþrýstings. Þessi frétt er auðvitað eins og allar fréttir úr heimi læknisfræðinnar studd tölum; hér var sagt að 11711 karlmenn hefðu tekið þátt í rannsókninni. Ég spyr hvar voru konurnar? Er hófdrykkja ekkert fyrir þær eða voru þær bara í því að þvo upp glösin eftir þessa tólf þúsund kalla?
Limra dagsin gerir nú samt ráð fyrir að þessar niðurstöður eigi við bæði kyn:
Skelfing sem lund mín varð létt
er las ég í Mogganum frétt:
Hjartveikum fækkar
og háþrýsting lækkar,
hófdrykkja' ef stunduð er rétt.
Bloggar | Breytt 4.1.2007 kl. 09:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.1.2007 | 22:06
Bloggraunir
Í fréttum í gær var sagt frá því að áramótaþátturinn á Stöð 2, kryddsíldin (prentsmiðjudanska eða blaðamannaþýðing á danska orðinu krydsild) hafi þetta árið verið kostaður af Alcan. Allir þátttakendur hafa lýst yfir skömm sinni á slíku og komu alveg af fjöllum því hingað til mun þátturinn hafa verið kostaður af kryddsíldarframleiðandanum Ora. Nú veit ég ekki hvort matur er borinn fram í þessum þáttum (kannski síld?) en ég er viss um að allir þátttakendur hafa heyrt að "there is no such thing as a free lunch"
Síst er það sannleikur nýr
og setningin um það er skýr,
(þótt sumir því gleymi):
Í gjörvöllum heimi
fæst enginn málsverður frír
En sennilega finnst þeim Ora skömminni skárri en Alcan ef dæma má af viðbrögðunum hjá Steingrími og Ingibjörgu Sólrúnu:
Grímsi er fölur og fár
og fúl er hún Imba og sár:
Þau segjast í losti
að síldina kosti
ekki Ora sem umliðin ár.
Auðvitað eiga pólitískir umræðuþættir að ekki að vera í boði fyrirtækja eða hagsmunaaðila - eru ekki afnotagjöld á þessari stöð sem staðið geta undir kostnaði við þætti af þessu tagi?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
1.1.2007 | 18:37
Nýtt ár
Nýtt ár er gengið í garð - stórslysalaust að því er fréttir herma. Gamlárshlaup ÍR var sannkallað gleðihlaup hjá okkur hlaupavinkonunum og ekki amalegt að enda árið á svo skemmtilegan hátt. Sprengjugleði landsmanna var ekki minni en venjulega enda viðraði vel til að styðja björgunarsveitir, sem er mín helsta afsökun þegar ég horfi á flugaelda fyrir milljónir lýsa upp himinhvolfið.
Áramótaheit eru til að rjúfa á nýju ári sagði einhver og limra gærdagsins er um það háttalag að strengja heit um áramót:
ÁramótaheitinMeð penna situr og párar snót
og pappírinn líkast til klárar skjót.
Hún ritar sín heit
sem reyndar þó veit
að rjúfa mun strax eftir áramót.
Eins og áramótaheitin verða kosningaloforðin líka svikin á nýju ári og kemur ekki á óvart. Nú man ég ekki hvort Villti tryllti Villi og gengið hans lofaði að láta aðgangseyri í sundlaugar verða óbreyttan um alla framtíð en ég er nærri viss um að ekkert var sagt um að hækka skyldi aðganginn um 25% strax um fyrstu áramótin eftir að þeir hlytu atkvæði okkar. En nú gerist það sem sagt - einstakur miði fer úr 280 kr í 350 kr þegar laugarnar opna í fyrramálið. Þetta kalla ég slæmar fréttir.
Slæmar fréttir.
Vilhjálmur léttur í lund
loforðin efndi um stund.
En góðverkum fækkar
því fljótlega hækkar
um fjórðung gjaldið í sund.
Gott að vera búin að kaupa kort sem dugir vonandi þangað til búið verður að flísaleggja baðherbergið hér á heimilinu.....
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.12.2006 | 13:44
Tilraun tvö
Ég er ekki alveg komin í samband við þetta bloggumhverfi - sem er við fyrstu sýn nokkuð ólíkt því sem ég notaði þegar ég bloggaði frá Ástralíu http://www.jonagudmundsdottir.blogspot.com en þetta lærist sjálfsagt eins og annað. Ég er búin að gera enn aðra tilraun til að eyða enska boltanum úr flokkayfirliti mínu en veit ekki hvort það hefur tekist enn.
Ég er hinsvegar búin að nota morguninn til að hlaupa 13 km. í góðum kvennahópi (mjög litlum, þrjár fyrir utan mig) en einhverjar af hlaupavinkonum mínum gætu hafa verið að spara sig fyrir áramótahlaup ÍR sem er á morgun. Veðrið var frábært og ekkert sem jafnast á við svona morgunhlaup í skammdeginu.
Í fréttum síðustu daga hefur verið sagt frá geisladiski með Bjögga Halldórs sem Álverið í Straumsvík sendi inn á hvert heimili í Hafnarfirði til að liðka fyrir hugmyndum um stækkun . Mér fannst góð hugmynd að skila diskunum eins einhverjir gerðu en samt er nú alltaf gaman að fá nýjan disk í spilarann - jafnvel þó að það sé bara Bjöggi sem ég hef ekki haldið upp á síðan ég var fjórtán. En ég hefið nú sennilega kallað þetta mútur ef ég hefði fengið svona sendingu.
Mútur í Firðinum?
Ég veit að ég mikils hef misst
af menningarauka og list
að fá ekki Bó
sem um bréflúgur fló
á kostnað Rannveigar Rist.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
29.12.2006 | 16:49
Sameinaðir að lokum?
Ég er ákveðin að reyna að semja limru á dag á komandi ári. Ég komst upp á bragðið í haust er ég setti mér þetta mark og stóð við það í þá þrjá mánuði sem ég var í Canberra við leik og störf. Reyndar mun ég nú ég nú sjálfsagt hafa meira að gera á nýju ári en þetta er svo ágæt heilaleikfimi að ég læt á þetta reyna.
Þetta bloggumhverfi sem Mogginn býður upp á er nýtt fyrir mér og ég er ekki alveg með á nótunum ennþá. Ég skil til dæmis ekki hvers vegna ég er með færsluflokk sem heitir enski boltinn og enn síður hvernig ég á að losa mig við þennan flokk. Ef það gengur ekki verð ég sennilega að fara að setja mig inn í boltann til að standa undir væntingum Moggans.
Í morgun vaknaði ég upp við umræður um hvort Saddam yrði tekinn af lífi fyrir eða eftir helgi. Mér er meinilla við allar aftökur - þessa líka - og skil ekki afhverju er ekki hægt að leyfa honum að rotna í rólegheitum í einhverri dýflissu þarna niðurfrá. En það er nú reyndar svo margt sem ég ekki skil. En þetta varð kveikjan að limru dagsins.
Hann hefur vart hugsað til endaer til Helvítis ætlar að senda
grályndan Huss-
ein galvaskur Bush
að þar sjálfur mun líklegast lenda
Bloggar | Breytt 30.12.2006 kl. 14:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Limruleikur
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (3.8.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar