Allt mér að þakka

Það er ekki nema um eitt að skrifa í dag:  Handbolta.  Kona eins og ég sem ekki hefur hundsvit á, né snefil af áhuga á þeirri íþróttagrein, er nú komin í þennan landsþekkta fíling sem lýsir sér þannig að allar setningar innihalda frasann "strákarnir okkar". 

Ég var auðvitað búin að spá því að Ísland myndi tapa stórt fyrir Frökkum en til að leggja mitt á vogarskálarnar sleppti ég því að horfa á leikinn.  Ég hef nefninlega sannreynt í gegnum árin að það lið sem ég held með tapar ef ég horfi á leikinn.  Síðasta sönnunin kom þegar Ísland vann Ástralíu - þá hélt ég með Áströlum enda nýbúin að vera hjá þeim þarna "down under".  En nú hélt ég semsagt með Íslendingum (held yfirleitt með þeim sem tel vera minnimáttar) og ákvað að sleppa því að horfa í þeirri veiku von að þetta hefðist.  Og mikið rétt!  Íslendingar stóðu sig vel og það var ekki fyrr en staðan var orðin þannig að okkar menn voru heilum tíu mörkum yfir að ég taldi óhætt fyrir mig að snúa mér að skjánum.  Sem betur fer var lítið eftir af leiktíma svo þeim tókst ekki að missa forskotið nema niður í átta mörk sem urðu lokaúrslit - allt mér að þakka.

Nú lofa ég að horfa ekki neitt á milliriðilinn - þá eru þeir vísast öruggir með fá sæti á verðlaunapalli og málm af einhverju tagi til að taka með sér heim:

Öll við með strákunum stóðum
og með stuðningi miklum og góðum
áfram þeir keppa
og efalaust hreppa
sæti með sigrandi þjóðum.

Framsóknarprófkjör

Ég ætla að taka fram í byrjun að mér er alls ekkert uppsigað við Framsóknarmenn upp til hópa enda sjálf Framsóknarmaður inn við beinið eins og við öll.  Hins vegar finnst mér þingflokkur dagsins í dag hálfgerður brandari og vorkenni ég ákaflega Framsóknarmönnum á Suðurlandi að þurfa að velja á milli þeirra Hjálmars Árnasonar og Guðna Ágústssonar í fyrsta sæti framboðslista fyrir komandi kosningar.  Þeir eru hvor sem annar og kannski væri skást fyrir flokk, þing og þjóð að hvorugur sæist meira á þingi?  En í kvöld ætti semsagt að koma í ljós hvor þeirra fær að leiða listann til taps(?) í vor:

Þrek hvorki skortir né þor
en þung munu kjósenda spor.
Sem skera’ úr um það
hvort skarn eða tað
sé skárra á túnið í vor.

Jamm - þetta var nú í morgun - nú er þetta allt komið á hreint.  K
jósendur Framsóknar í Suðvesturkjördæmi hafa sagt sitt.  (Fjöldi þeirra tvöfaldaðist reyndar um leið sem gefur flokknum góðar vonir um að hann þurrkist ekki alveg út í vor eins og alltaf er verið að spá honum).  Það kom í ljós að Hjálmar átti ekkert í Guðna og ekki bara það; hann féll niður í þriðja sæti sem hann ekki hyggst taka heldur pakka saman og þakka fyrir sig.

Hjámari fátt var til varna
vesalings greyinu' a tarna:
Fyrir Guðna hann féll,
hlaut fullkominn skell,
niður fyrir byrjandann Bjarna.

Nú er bara að sjá hvort Hjálmar fer með Valdimar Friðrikssyni yfir í Frjálslynda flokkinn?


Skýrslur og skjöl

Í fjölmiðlum þessa dagana er allt á útopnu.  Byrgismál hafa verið til umfjöllunar í nokkra daga og verða skringilegri og skuggalegri með hverjum deginum sem líður.  Nýr flötur kom upp á því máli þegar forstöðumaður Byrgisins sagðist sjálfur ætla að kæra nauðgun til lögreglunnar! 

Í hita þessarar umfjöllunar er hætt við að það gleymist sem ætti að vera aðalmálið; sem sagt að félagsmálaráðuneytið dældi aurum í þá Byrgismenn án þess að þeir þyrftu að standa neinum reikningsskil.  Það eru skattpeningar okkar sem fóru í að kaupa og reka lúxusbíla í stað þess að þeir væru notaðir til að hjálpa þurfandi fólki.  Ég verð að segja það að hver svaf hjá hverjum þarna fyrir austan er mér að mestu sama um og myndbönd sem hafa gengið ljósum logum á netinu raska ekki svefnfriði mínum.

Víst þykir fjölmiðlum frétt
ef fólk gerir annað en rétt.
En hver ætli syrgi
þó kynlíf í Byrgi
hvorki sé fellt eða slétt.

Svefnró okkar allra ætti líka vissulegar að vera betri eftir að Birni Bjarnasyni tókst að herja út úr Dönum nokkra aflóga riffla og annað dót sem er hannað til manndrápa en hér á reyndar að nota til að verja okkur fyrir þeim óvinum sem áður varð ekki varist nema með herþotum!  Aðeins of flókið fyrir mig en ég sef vissulega betur:
 

Kaninn hann kvaddi’ okkur skjótt
og kom sér í burtu um nótt
En lýkur nú raunum
með riffla frá Baunum
um síðir við sofum nú rótt.

Í sjónvarpinu í kvöld kom í ljós að Valgerður Sverrisdóttir er komin í kosningaham.  Nú segir hún einörð að ástæðulaust að laumupokast með skjöl og skýrslur og að sjálfsögðu eigi viðaukar við varnarsamninginn að vera upp á borðinu og alþjóð sýnilegir.  Rámar mig þá í aðrar skýrslur sem voru gerðar vegna virkjunar austur á landi og enginn fékk að sjá - jafnvel ekki sjálfur ráðherra ....?

Nú afhjúpar skýrslur og skjöl
mikið skelfing er Valgerður svöl.
En áður í flaustri
og flýti í austri
hún forðaðist slíkar sem böl.

En reyndar held ég að jarðfræðiskýrslur séu bæði erfið lesning og leiðinleg.

Frjálslyndi?

Frjálslyndi flokkurinn hefur sennilega aldrei verið sérlega frjálslyndur en þó tók steininn úr í haust þegar þeir fóru að viðra útlendingahatur sitt í fjölmiðlum.  Að vonum brá Margréti Sverrisdóttur framkvæmdastjóra þingflokks þeirra og hún lét í sér heyra.  Síðan þá hefur hún hinsvegar átt erfitt í flokknum og er skemmst að minnast þegar hún var látin taka leyfi frá störfum þar sem hugsanlega yrði hún í framboði á flokksþingi.

Í dag lýsti hún svo yfir að hún ætlaði að bjóða sig fram gegn varaformanninum á fyrrnefndu þingi.  Við það fór allt í bál og brand:  Addi Kidda Gauja sagðist styðja sinn varaformann og á honum var að skilja í sjónvarpinu í kvöld að þeir þrír karlmennirnir í þingflokknum hefður staðið sig svo vel að hún ætti bara að vera þakklát fyrir að fá að vera með þeim í flokki.  Karlremban var ósvikin í þessu viðtali, svo mikið er víst.  Hér er því mín stuðningyfirlýsing við Margréti:

Þeir vilja' ekki fraukunum flagga,
frjálslyndir, heldur þagga
í konunum niður
eins og karla er siður:
Þig stattu gegn strákunum Magga!

Margrét lét svo á sér skiljast í útvarpinu að hún gæti eins vel farið á móti formanni eins og varaformanni.  Hún þyrfti hvort sem er að berjast við formanninn eftir hvoru sætinu sem hún sæktist.   Fyrir mína parta þætti mér nú ekki slæmt að sjá hana fella kallinn í brúnni.....

Það verður skelfingar skellur
og skrambans óhemju hvellur
Magga ef sigra
megnar þann digra
og í kjörinu flatur hann fellur.
 




Veislur og boð

Í útvarpinu á heimleið úr vinnunni í gær heyrði ég að Vilhjálmur Bjarnason fjárfestir var í viðtali á Rás 2 um boð sem einhver banki (Glitnir?) hafði haldið fyrir valda viðskiptavini.  Hann var gagnrýnin á það að bankinn væri að eyða fjármunum í slíkt og vildi meina að réttara væri að hagnaðurinn kæmi hluthöfum til góða.  Undir það er hægt að taka en þá má ekki síður spyrja hvort ekki megi nota hann til að lækka vexti af lánum, nú eða draga úr þjónustugjöldum.  En almenningi sem borgar yfirdráttarvextina var víst alls ekki boðið þetta kvöld.

Bankarnir hófin sín halda
og heiðra þar kúnnana valda
Meðan ekkjan um hjarn
ein með sofandi barn
borgar vexti á  klakanum kalda.


Hér er svífur andi Jónasar yfir og minnir á að það  hafa löngum búið tvær þjóðir í þessu landi.....

Annað boð sem ég heyrði af í dag héldu Framsóknarmenn fráfarandi foringja sínum í september síðastliðnum.  Mörður Árnason hefur nú vakið athygli á því á Alþingi að boðið var haldið í Ráðherrabústaðnum sem er jú í eigu ríkisins og er víst ekki leigður út fyrir boð af þessu tagi.  Hér má samt benda á að Framsóknarmönnum er nokkur vorkunn.  Þeir eru svo fáir að flestallir salir á Stór-Hafnarfjarðarsvæðinu eru alltof stórir.  Notalegt hús af passlegri stærð frá þarsíðustu öld hentar þeim miklu betur. 

Mörður hann veislunni vart í
var, enda alls ekki margt í
boðinu smáa

í bústaðnum lága
þegar framsókn hélt formanni partý.

Og er þá nóg komið af boðum í bili.

Án tilefnis

Limrur eru í eðli sínu bull.  Enskir hafa leikið sér að því að gera limrur sem allar eru dónalegar, allar byrja á því að kynna til sögunnar persónu, staðsetja viðkomandi óg segja svo frá gjörðum hennar.  Hér kemur ein af þessu tagi og ekki sérlega svæsin:


Finnur er bóndi í Firði
sem frúnni er töluverð byrði
Þegar á hana fer
því feitur hann er:
Hún myndi þverneita ef að hún þyrði.


Hér er svo önnur bull-limra:


Í fötum til Sahara sand ber
seggur að nafni Randver
þar víst fær að heyra
þeir vilji' ekki meira
og allt svo í bál og brand fer.


Þetta er ekki mikil kúnst.  Meiri áskorun er að taka umræðuefni líðandi dags og reyna að þröngva í limruformið og auðvitað held ég áfram að glíma við það. 

Ég sá hluta af viðtali Evu Maríu við forsetafrúna Dorrit í sjónvarpinu í gær og var eins og fyrr stórhrifin af glæsilegri framkomu hennar.  Það rifjaðist upp fyrir mér af því tilefni að þegar hún flutti til landsins og hóf sambúð með forsetanum heyrði ég haft, að mig minnir eftir Kára Stefánssyni, að hún væri meira en velkomin - ekki síst væri fengur að fá hana þar sem nafnið Dorrit rímaði svo ljómandi vel við orðið forrit! Ég læt á það reyna:


Í gærkvöld í Kastljósi kætti
okkur kona' er í viðtal þar mætti
Það var reffileg Dorrit
sem rímar við forrit
og var indæl svo undrum það sætti.

 

 


Helgarfrí

Ég tók mér helgarfrí frá limrusmíð og bloggi þessa helgina.  Af og til er nauðsynlegt að bregða sér af bæ og heimsækja dreifbýlið.  Ekki er verra þegar Vetur konungur er á staðnum og skyggnið á vegum landsins er rétt á milli stika eins og það var á föstudaginn.  Ég gat reyndar stillt fögnuð minn en við vorum að ferðast með útlending sem þótti þetta allt hið besta mál.

Fréttir hafa lítið orðið mér að limruefni síðustu daga enda óvenjulítið að frétta.  Einhversstaðar sá ég þó uppgjör eftir jólabókavertíðina.  Þar eru það hvorki Konungsbók eða Tryggðapantar sem sitja á toppnum heldur matreiðslubóka Hagkaupa:  Eftirréttir.  Snilld að sameina það tvennt sem okkur þykir vænst um á jólunum - bækur og mat í einni jólagjöf.


Árvisst brast hér á bókaflóð

og býsna var salan jöfn og góð.

Nú eru’ allir mettir

Eftir- því -réttir

langbest seldust hjá  sagnaþjóð.


Framsóknarmenn í Norðausturkjördæmi völdu Valgerði og Birki Jón í efstu sæti framboðslista síns í komandi kosningum.  Spyrja má hve fýsilegt teymi það sé og hef heyrt Birki Jóni lýst sem leikara í illa leikstýrðu skólaleikriti!


Stundum mér virðist að virki flón,

þó vissulega hér yrki flón

um alþingismann
sem ýmislegt kann;

en ég á hér við  barnungann Birki Jón.


En barnunginn á vísast framtíðina fyrir sér - ef flokkurinn þurrkast þá ekki út í næstu kosningum eins og Þjóðarpúls Gallups gaf vonir um hér um daginn:


Þjóðarpúls Gallup þess getur

að geti svo farið í vetur:

Að framsóknarmenn

fjölmenni senn

til fjandans og því er nú betur.

 

Samráð

Þá er komið að því að fimm ára gamalt glæpamál verði tekið fyrir af dómsstólum.  Samráð olíufélaganna er orðið fimm ára og ekki seinna vænna en að fara að koma því í dómssalina.  Ætli það séu ekki annars einhverjar fyrningarreglur í gangi sem verjendur geti vísað í? 

Útvarpið mun hafa bent á það í fréttum í dag að engin verðhækkun á bensíni hefði átt sér stað síðustu mánuði liðins árs þrátt fyrir þónokkra hækkun á heimsmarkaði. Slíkt hefði nú einhverntíma verið notað til að afsaka nokkurra krónu hækkun.  Skyldu þeir hafa haft samráð um það að hækka ekki? 

Auðvitað eru allir verjendurnir á einu og sama máli um sakleysi sinna manna.  Þeir vilja láta vísa málinu frá og að sakarkostnaður falli á ríkssjóð.  Nú verð ég að játa að ég veit ekki hvort að málsvarnarlaun eru hluti sakarkostnaðar en það væri nú aldeilis eftir öðru að við sætum uppi með þann reikninginn líka!


Samráðið seint tekur enda

í sameining verjendur benda

á sakleysi sinna

og er sigur þeir vinna

munu reikninginn ríkinu senda.


Mín spá er sú að hinir stóru sleppi en hugsanlega tekst að finna blóraböggla.  Allir vita að bakarinn er sjaldnast hengdur en smiðurinn sleppur ekki hér frekar en fyrri daginn:


Bakarann finnum og flengjum

sem fyrrum og eftir það hengjum

hann, fyrir smið

það held ég nú við

skuldum þeim dáðríku drengjum.


Álmál og álitamál

Það er áfram kalt og það virðast leika sérlega kaldir vindar um Hafnarfjörð og Straumsvík þessa dagana.  Mér skildist á forstjóra álversins, sem var í morgunútvarpinu í gærmorgun, að það væri um líf eða dauða að tefla fyrir álverið að fá að stækka.  Síðan heyrði ég rétt óminn af einhverju viðtali í morgun þar sem einhver maður (starfsmaður í álverinu?) sagðist hafa heyrt þennan frasa í nokkra áratugi og ekki trúa honum nú frekar en í kjaraviðræðum liðinna ára.  Hverju eigum við þá að trúa sem þekkjum ál aðallega sem álpappír, nauðsynjavöru þegar á að pakka inn nýmeti og baka á glóðum?

Spyr margur: Hvað er svo málið?
Hve mikilvægt þjóðinni álið?

Auðvitað veldur

hver á ausunni heldur

en seint mun þó sopið allt kálið.


Sennilega varðar málið þó allra helst Hafnfirðinga og mest þá sem búa í nágrenni Straumsvíkur. 


Hafnfirskar ömmur og afar

auðvitað vilja án tafar

málið á hreint

þó munu víst seint

kurlin öll komin til grafar.

 

Hafnfirskur bloggari sagðist nokkuð viss um að andstaða við stækkandi álver væri nóg til að fella þá tillögu um deiliskipulag sem gerir ráð fyrir stækkun.  Hvað veit ég?  Kannski munar ekkert um Bjöggadiskinn þegar upp verður staðið?

 

Allt kannski í brand og bál fer
því býsna erfitt það mál er

að fullvissa alla

konur og kalla

um kosti við stækkandi álver.

 


Frost á Fróni

Það er frost á Fróni þessa dagana og dúnúlpur og flíshúfur í fullri notkun alla daga sýnist mér.  Það andar líka köldu milli hundakaupanda og -seljanda í frétt sem ég las í dag á mbl.is.  Því miður treysti ég mér ekki til að endursegja fréttina nema hvað deilumál þetta endaði fyrir dómstólunum.  Er  furða þó að það ríki ekki friður í henni veröld fyrst menn geta ekki einu sinni komið sér saman um eitt stykki hvolp.  


Á Fróni er frostharka’ um grund

sig Frónbúar dúða um stund.

Flestir svo hressir

en þó ekki þessir

sem í dómssölum deila um hund.


Þess ber þó að geta að hundurinn bar nafnið Júlíus Cesar og má teljast heppinn að hafa ekki verið drepinn eins og nafni hans forðum.



« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Limruleikur

Höfundur

Jóna Guðmundsdóttir
Jóna Guðmundsdóttir
Ágúst 2025
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.8.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband