Sirkus Geira Smart

Geiri Smart er í umræðunni í dag.  Í fyrsta lagi vegna myndbands frá í fyrra sem sýnir hann  rífast eins og fúla gelgju við fréttamann í vinnunni.  Þetta myndband hefur farið víða en nú er það komið aftur þangað sem það á heima - í gagnaeyðingu RÚV.  Menn geta þó enn séð það á ýmsum bloggsíðum og margir eru þeirrar skoðunar að þetta sýni nýja hlið á norska skógarkettinum.

Ljóst er að margur svo metur
að mátt hefði stilla sig betur
ráðherrann Geir
er tókust á tveir;
hann og svo prúðmennið Pétur.

(Ég er reyndar ekki alveg hlutlaus í þessari einkunagjöf).


Í sjónvarpinu í kvöld var svo Geir á dagskrá.  Reyndar var Mr. Bjarnason stríðsherra að tala úr ræðustól Alþingis og ekki bara að verja stjórnina heldur að kenna Steingrími J um allt sem miður hefur farið síðan land byggðist, heyrðist mér helst.  Grímsa hitnaði í hamsi og klagaði í Geir og einhverjir sögðu að hann hefði tekið svo fast í öxl honum að kalla mætti högg. 

Fokreiður Steingrímur starði
er stjórnina Bjarnason  varði:
Reiddist svo meir,
rauk upp að Geir
og í öxlina bylmingshögg barði.

Þessu harðneitaði reyndar Geir og hló við.

Loks varð sá sorglegi atburður að Geir missti eina manninn sem hann hefur ná nokkru sambandi við síðustu misserin; Björn Ríkarður hinn norski gafst upp á íslenska svartnættinu og vondum mat í stjórnarráðinu og fór heim.

Björn Richard hann gafst upp á Geir
hann gat ekki, sagði hann meir:
„Nå rejser jeg hjem,
gi kona din klem“
og í hendur svo tókust þeir tveir.

Og nú getur Bjössi aftur farið að grilla með nágranna sínum og fyrrum vinnuveitanda, því næsti nágranni hans á Snaröya rétt fyrir utan Osló er hinn fjölhæfi Bjarni Ármannsson.


Framsóknarvist

Mikið var nú gott að sjá að Frammarar eru farnir að hugsa um að raða sér að kjötkötlunum.  Mbl sagði frá því í dag að Birkir Jón sem þjóðin þekkir helst fyrir áhuga á spilamennsku hafi ákveðið að gefa kost á sér sem varamaður í flokknum á næsta landsþingi - ef einhverjir verða eftir til að halda landsþing. 

Í hönd fara mánuðir myrkir
en  marga það kætir og  styrkir
að fráleitt mun jóker
í Framsóknarpóker
fjárhættuspilarinn Birkir.


Ráð undir rifi hverju

Eftir að þjóðin var búin að jafna sig á því að Guðni væri horfinn fréttist af honum á Klörubar á Kanarí.  Auðvitað er hann búinn að hugsa næsta leik.  Hann stofnar elliflokkinn og er einmitt á réttum stað til þess að safna áhangendum.  Svo á hann eftir að koma og rúlla þessu upp.

Guðni hann fer nú á fjöru þar
við ferðamenn og  með snöru var;
ótrauður veiðir
og um atkvæði beiðir
eldgamalt liðið á  Klörubar.

Svo er bara spurningin:  Heldur hann eftirlaununum líka ef hann fer aftur á þing?

 


Þessi færsla er í boði IMF

Jæja þá er IMF-lánið í höfn skv. frétt á mbl. nú seint í kvöld.  Með því skilst mér fylgi svo meiri lán eða lánalínur frá vinum okkar og frændum - þessum sem við höfum verið að senda tóninn upp á síðkastið.  Það er auðvitað grábölvað að þurfa að taka öll þessi lán en í mínum huga var aldrei efi á því að við þyrfum að standa við tryggingar á ICEsave reikningunum þó að Davíð segði að við borguðum ekki skuldir óreiðumanna í útlöndum.  Og þrátt fyrir orð hans og kannski að hluta til þeirra vegna erum við nú komin á skuldaklafa til langrar framtíðar og höfum sett börn okkar og barnabörn að veði.

Vísast þinn vaxa mun hróðurinn
er verðurðu skuldsettur góðurinn:
Upp lyftist geð
þegar á í þér veð
alþjóðagjaldeyrissjóðurinn.


En að öllu gamni slepptu þá er bara að vona að við sem þjóð eigum eftir að öðlast virðingu og skilning á alþjóðavettvangi að nýju. Ekki vorkunnsemi og ekki óttablandna virðingu eins og borin var fyrir óprúttnum útrásarvíkingum, heldur virðingu sem þátttakendur í samfélagi þjóðanna með þeirri ábyrgð og þeim skyldum sem slíkri þátttöku fylgja.


Lausar skrúfur - margar

Það sem ég hef heyrt og lesið af ræðu Davíðs á fundi Verslunarráðs í morgun sannfærði mig enn og aftur um það að hann er orðinn endanlega klikkaður.  Eina góða við allt ruglið á honum er að fylgið hrynur af íhaldinu og það hefur mér nú aldrei leiðst.  En jafnvel það nægir ekki til að kæta mig þessa dagana:

Þó klárlega að íhaldi kreppi
og kjörfylgi´ af flokknum nú skreppi
mín brún ekki léttist
fyrr en það fréttist
að fluttur sé Davíð að Kleppi.


Framsóknarraunir

Guðni var góður í dag þegar hann stal athyglinni frá Geir og Ingibjörgu sem héldu blaðamannafund um skilmála alþjóðagjaldeyrissjóðsins og framtíðarhorfur okkar allra.  Guðni notaði daginn til að segja upp í vinnunni og þakka fyrir 20 ár á þingi.

Fjölmiðlar hafa auðvitað velt fyrir sér hvað veldur þessari uppgjöf Guðna.  Margar skýringar eru nefndar en ég á mína eigin.  Ég held að hann hafi verið hræddur um að eftirlaunalögin yrðu felld úr gildi og viljað vera kominn á þessi eftirsóttu eftirlaun áður en af því yrði.

Landsmenn í Guðna‘  ekki botna baun
sem bugaður virðist í formannsraun.
En ástæðan er
einkum og sér
að óskert  hann taka vill eftirlaun.

Reyndar heyrði ég í kvöld að flokksfundur Framsóknar um helgina hefði tekið Guðna svo fyrir að honum hafi ekki verið stætt á því að halda áfram sem formaður.  Það er nú jafnvel enn sennilegri skýring en græðgi hans í eftirlaun í heimsklassa.  En nú er hann farinn og þó að mér hafi nú aldrei litist sérlega vel á Guðna líst mér síst betur á Valgerði sem nú tekur við.

Ljóst er að formanninn færðu‘ í kaf
flokksmenn svo vald‘ann að stinga af.
Nú sest í hans stól
flagð það og fól;
Vala sem bankana vinum gaf.

Hún var jú viðskiptaráðherra og þar með einkavæðingaráðherra.


Dagur íslenskrar tungu

Nú er þessi árvissi dagur þegar við fyllumst stolti yfir því því að tala þetta mál sem aðeins þrjúhundruð þúsund samlandar okkar skilja + nokkrir eldri Færeyingar.  Við höldum hátíðlegan dag tungunnar á fæðingardegi eilífðarstúdentsins Jónasar sem dvaldi mikinn hluta ævinnar í Kaupmannahöfn og hefði örugglega verið útrásarvíkingur ef það hefði verið í boði.  

En það voru seinni tíma útrásarvíkingar sem skildu okkur eftir með bankaskuldir og volæði.  Því verður víst ekki klínt á dauð skáld sem ortu á íslensku á útlenskum krám.

  berum við byrðarnar þungu
því bankarnir hrundu og sprungu.
Ég sé ei hvort getur
bætt þar um betur
þó við bölvum á íslenskri tungu.

Jónas var annars ekki sérlega hógvær þegar hann yrkir um tunguna:  Ástkæra ylhýra málið og allri rödd fegra.  Ekki bara jafngott heldur best og fallegast.  Hljómar þetta kunnuglega? 



Allir á völlinn...

----Austurvöll.

Við skýrt okkur mark- setjum –miðið
og mætum nú galvösk á sviðið:
Baráttuköllin
bergmáli um völlinn:
„Burtu með spillingarliðið“.


Nýir og gamlir vinir

Heldur finnst mér nú aumt hjá Ólafi Ragnari að hnýta í vini okkar á Norðurlöndum svona á þessum síðustu og verstu tímum.  Hann hefur ekki lært vísuna sem ég lærði barn en fyrri hendingin var:

"Gleymdu ekki gömlum vin,
þó gefist aðrir nýjir".

Ekki það að þessir nýju séu nokkuð sérlega fastir í hendi.  Það er fátt að frétta af Rússum og Kínabréf Geirs er sjálfsagt enn í flokkunarstöð Íslandspósts uppi á Höfða og fer með jólakortunum um mánaðarmótin.

En Óla er náttúrulega vorkunn.  Fáír þurfa að breyta lífsstílnum meira.  Engir skreppitúrar með þotuvinunum og engar útrásarveislur.  Bara hann og Dorrit heima að spila Lúdó.

Hann var alltaf á einlægu spani
eins og útrásarhetju  er vani.
Nú heima er leiður
já, heilmikið reiður
og hundskammar Svía og Dani.


Mannraunir

Hann var heldur klaufalegur Bjarni Harðarson framsóknarþingmaður þegar hann ætlaði að framsenda aðstoðarmanni sínum níðbréf sem honum hafði borist um flokksystur sína Valgerði Sverrisdóttur.  Bréfið sem var skrifað af norðlenskum sveitamönnum fór óvart beint á alla fjölmiðla landsins og vakti að sjálfsögðu mikla athygli.

Hann bandaði hægri hendi
eins og heilögum refsivendi.
Ýtti á takka
í fáti;  lét  flakka
og fjölmiðlum bréfkornið sendi.

Bjarna brá og það sem meira er; hann sagði af sér þingmennsku.  Ég skil nú ekki alveg af hverju; ekki er refsivert að kunna ekki að senda tölvupóst og það að framsóknarmenn hnýti hver í annan er nú svo sem ekkert nýtt?  En nú er hann sem sagt úti í kuldanum.

En annar maður er að koma inn úr kuldanum.  Það er hinn geðþekki (!) ríkisstjóri  Californíu, Arnold Schwarzenegger, sem um hríð hefur komið að læstum svefnherbergisdyrum og þurft að sofa á stofusófanum.  Ástæðan er pólitík - konan hans sem er af Kennedyættum styður Obama og gat ekki hugsað sér að dreifa kröftunum í kosningabaráttunni með því að sænga hjá stuðningsmanni McCain.  En nú er búið að kjósa og búið að taka úr lás.

Vont það að ganga á vegg er,
það  vitlaust í margan segg fer.
En sáttur við frúna
í sænginni núna
er Arnaldur Schwarzen-Egger.





« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Limruleikur

Höfundur

Jóna Guðmundsdóttir
Jóna Guðmundsdóttir
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband