Skápahreingerning

Í mogganum í dag segir að Sara Palin hafi eytt helginni í að fara í gegnum fataskápinn til að sortera hvað hún ætti og hvað væri flokksins.  Hún mun hafa eytt 20 milljón úr sjóðum flokksins til að kaupa föt og nú vill flokkurinni endurnýta spjarirnar - eðlilega. 

Mér finnst þessar 20 milljónir dálítið mikið miðað við að konukindin leit nú alltaf út eins og hún væri í fötum úr geymslu einhverrar eldri frænku með lélegan smekk - en það geta hafa verið dýrar spjarir engu að síður.

Í
kosningum var ekki valin
og víst er því pirruð og kvalin:
Fjörinu lýkur 
og láns- þarf nú –flíkur
að láta af hendi frú Palin.

Svo fer maður að spá í hvað Repúblikanaflokkurinn hafi að gera við þetta dót?


Fleiri nýir vinir.

Ég vaknaði í morgun við að útvarpið sagði frá óeirðum í kínverskum smábæ.  Maður ók fullur á mótorhjóli og var handtekinn en reiður múgur réðst inn á lögreglustöðina og braut allt og bramlaði.  Í kvöldfréttum sjónvarpsins sá ég svo myndir af óeirðum í smábænum Reykjavík þar sem æstur múgur henti eggjum.


Ég veit ekki hvort Geir hefur verið að hlusta á sömu morgunfréttir og ég, en í dag mun hann hafa skrifað Kínverjum og sagt þeim frá vanda okkar og beðið þá um lán.  Þessu lýsti hann í fréttunum í kvöld og var kátur í bragði svo þetta er sennilega eins fast í hendi eins og Rússalán Davíðs í síðasta mánuði. 

Geir lætur skýrt í það skína
að skjótt fari okkur að hlýna
og segir „Ég hef,
sent lítið bréf
til systurflokks okkar í Kína“.

Gaman hvað Geir er orðinn fær í alþjóðasamskiptum.  Skyldi hann ekki vera búinn að skrifa Kastró?



Húsráð?

Ég geri mér grein fyrir því að kreppan verður hér áfram um hríð.  Ég skil hinsvegar ekki hvað stjórnendur ætla seint að taka við sér og fara að gera eitthvað.  Nú viljum við að þeir láti verkin tala og byrji á því að reka Davíð og henda krónunni á haugana.

Leysist seint verðbólgu  vandi
og verða kann mörgum að grandi:
Þó myndi‘ okkur kæta
og kjör okkar bæta
færu krónan og Davíð úr landi.

Það er nú ekki eins og það sé verið að fara fram á mikið....


Á lokametrunum

Vondar fréttir eru orðnar svo alvanalegar í fjölmiðlum að maður þorir varla að vona að morgundagurinn beri í skauti sér gleðifrétt.  Þar er ég auðvitað að hugsa um kosningarnar í henni Ameríku fyrir vestan.


Kosningakannanir  telja að Obama sé öruggur sigurvegari en ég þori ekki að trúa því fyrr en fulltalið verður í Flórida.  Það hefur komið illa við mig síðustu daga þegar spekúlantar spá í þann möguleika að hvítir kjósendur guggni á að velja svartan mann þegar þeir eru staddir  í einrúmi kjörklefans.  Vonandi er það nú bara bull og vonandi verður Obama kosinn með glæsibrag í nótt.

Mér er auðvitað alls ekki sama
en óttast að stefni í drama
ef á hólminum frjósa
og hvítan mann kjósa
þeir sem kokhraustir studdu Obama.

Ég held ég ráði samt ekki við að vaka í nótt - mér þykir of gott að sofa.


Landflóttamaður

Einn var sá íslenskur auðmaður sem hafði vit á að flýja land í tíma.  Það var hann Bjarni okkar allra Ármannsson sem fór ekki bara með fjölskylduna heldur líka einhverja milljarða úr landi eftir að við höfðum neitað honum um frían aðgang að orkuauðlindunum okkar í gegnum Rei og Geysir-Green eða hvað þetta heitir nú allt saman.  Og þar sem hann er sveitamaður í eðli sínu fór hann ekki til Cayman-eyja heldur til Oslóar og nú er ljóst að hann mun hafa gengið Noregskonungi á hönd:

landflottamadur

Eða hvað? 
Hann var sem sagt að hlaupa maraþon í Amsterdam um miðjan október og þar er hann skráður norskur! Merkilegt hvað það tekur stuttan tíma að fá ríkisborgararétt þar í landi - ætli þeir eigi sér einhverja Jónínu Bjartmarz sem getur aðstoðað svona kalla?

Í lúxusnum getur lon og don
leikið sér  Bjarni Ármannsson.
Í Hollandi horskur
hann sagðist norskur
er hljóp þar  í Amsterdam maraþon.

Og samkvæmt orðabókinni minni getur lýsingarorðið horskur bæði þýtt drengilegur og líka ófyrirleitinn


Nýr Baugsmiðill?

Það sem helst hann varast vann, varð þó að koma yfir hann sagði Hallgrímur sálugi ef ég man rétt.  Þetta á ekki illa við í dag þegar fjölmiðlar skiptu um eigendur hægri, vinstri, eða eins og segir í frétt mbl. í dag:

"Stjórn 365 samþykkti á stjórnarfundi í gær að selja alla fjölmiðla út úr fyrirtækinu til félagsins Rauðsólar, sem er  í eigu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar. Með í kaupunum fylgir 36,5% hlutur í Árvakri, útgáfufélagi Morgunblaðsins".

Þó forn sé og merkur miðill
Mogginn er  nýr hans biðill:
Ennþá á aur
útrásargaur
og leggja því Árvakri lið vill.

Gaman að sjá að enn eru peningar í umferð hér á landi - eða eru strákarnir kannski bara enn í Mattador?


Hæfi og vanhæfi

Alltaf er eitthvað nýtt úr spillingadeildinni sem kemur á óvart.  Þetta las ég í mbl.is í dag:  "Valtýr Sigurðsson ríkissaksóknari og Bogi Nilsson, fyrrverandi ríkissaksóknari, álíta sig ekki vanhæfa til að sinna frumrannsókn á starfsemi viðskiptabankanna þriggja, í aðdragandanum að falli þeirra."  og í framhaldinu segir:   "Sonur Valtýs, Sigurður, er forstjóri Exista. Sonur Boga, Bernhard, er framkvæmdastjóri lögfræðisviðs Stoða. Hvort tveggja er útrásarfyrirtæki með tengsl við fallna banka, Kaupþing og Glitni."

Í lok fréttarinnar er svo vitnað í Björn Bjarnanson sem gefur þessum mönnum sjálfdæmi í að kveða upp úr um hæfi eða vanhæfi eða eins og segir á mbl:   "Aðspurður vísaði Björn Bjarnason dómsmálaráðherra á þá Valtý og Boga. Engum væru reglur um vanhæfi betur kunnar en þeim. „...þeir eiga sjálfir síðasta orðið um hæfi sitt eða vanhæfi og treysti ég dómgreind þeirra óskorað í því efni,“ sagði Björn."

Ljóst er nú tekur að loga
um land allt og skrýtið að voga
sér skuli Björn
að bruna í vörn
og verja þá Valtý og Boga. 

En kannski er öllum sama?


Stelpa í strákaleik

Mér fannst eins og mörgum öðrum, bæði konum og körlum, ágætt að tveir af þremur hinna nýju bankastjórum landsins væru konur.  Ég var með hagsýnar og samviskusamar húsmæður í huga og þóttist viss um að þær hefðu engan þátt átt í spillingu og bulli innan gömlu bankanna.

En svo rak ég augun í kvöld í frétt sem mun hafa birst á Stöð 2 í gærkvöld.  Birna Einarsdóttir, hinn nýji bankastjóri Glitnis hafði keypt hlutafé í gamla Glitni fyrir 200 milljónir ÁN þess að greiða krónu.  Hún lifði síðan í vissu mánuðum saman um að hún ætti allt þetta hlutafé og það var ekki fyrr en hún mætti á hluthafafund sem í ljós kom að kaupin höfðu aldrei gengið í gegn; eðlilega því hún borgaði ekki krónu. Eða eins og segir í frétt á  visir.is

"Þann 29. mars á síðasta ári barst Kauphöllinni tilkynning um að Birna hefði keypt í gegnum einkahlutafélag sitt Melkorku, sjö milljón hluti í bankanum á genginu 26,4 eða fyrir 190 milljónir króna. Næstu 11 mánuðina hélt Birna að hún ætti hlutinn eða þar til hún mætti á hluthafafund þann 20. febrúar síðastliðinn, en þá var eignarhlutur Birnu hvergi á skrá. Kaupin gengu aldrei í gegn segir hún og kannski ágætt fyrir hana þar sem gengi bréfa í bankanum hafði hrunið og var komið í 18,15".

Ef ég hef skilið framhaldið rétt þá átti hún að borga með framtíðargróða af bréfunum en ég hlýt að hafa misskilið eitthvað?  En ef þetta er rétt þá er þessi kona alveg óhæfur bankastjóri - ekki bara voru viðskiptahættirnir skrítnir heldur athyglisgáfan engin, að fylgjast ekki betur með. 

Best er frá botninum spyrna
en blómið það reyndist með þyrna:
Milljónum eyddi
þó eyri´ ekki greiddi
og engu því tapaði Birna.

Hefði ekki verið best að fara í þjóðskrána og finna bankastjórana með því að loka augunum og benda á nöfn?


10% seðlabankastjóri

Ætli sé ekki hægt að minnka stöðuhlutfall seðlabankastjóra niðrí 10%?  Það rímar við að 10% þjóðarinnar styðja hann til starfa samkvæmt skoðanakönnun sem birt var í kvöld.  Hin 90% vildu svo gjarnan að hann væri heima að skrifa bækur eða  bara að horfa á vídeó.

Yfir Davíð fá krampa og klígju
af hverjum tíu manns níu.
En mig furðar að enn
skuli mæra hann menn,

eða um það bil einn af  tíu.

Merkilegt að hann fái þó 10% stuðning.  Úrtakið var 2000 manns og 800 svöruðu sem þýðir að allt að 80 manns hafa lýst yfir stuðningi.  Merkilegt!


Koma svo

Allir fjölmiðlar og fréttatímar eru fullir af svartsýni þessar vikurnar og verður líklega svo enn um sinn.  Þess vegna er enn meiri ástæða til að fagna jákvæðum fréttum.  Meira að segja ég sem veit ekkert um fótbolta verð glöð inni í mér þegar ég les fréttir eins og þær að þegar knattspyrnufélagið Stabæk varð Noregsmeistari fyrr í dag þá gerðu Íslendingar fjögur af sex mörkum sem skoruð voru.  Knattspyrnumaður að nafni Veigar mun hafa gert þrjú af þessum mörkum; ætli Norðmenn láni okkur ekki nokkra milljarða á morgun?

Að við séum flestöllum feigari
er fráleitt, því við erum seigari
en langflestir halda
á landinu kalda
það ljóslega sannast á Veigari.

Og hér fell ég í þá íslensku gryfju að eigna mér árangur þessa drengs með sama stolti og við sýndum þegar okkar menn keyptu Magasín hér um árið.

Og ef ég held með strákum sem sparka bolta á kaupi í útlöndum held ég að sjálfsögðu enn meira með stelpum sem gera jafntefli í landsleikjum.  Þar gerði eitt mark Hólmfríður Magnúsdóttir sem ég gef mér að sé kölluð Fríða.

Í myrkrinu loga tók týra
og trúlega frækorn að spíra
er stelpur í stríðu
stóðu með Fríðu
og stigið þær sóttu til Íra.

Koma svo....


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Limruleikur

Höfundur

Jóna Guðmundsdóttir
Jóna Guðmundsdóttir
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband