Færsluflokkur: Bloggar
1.4.2009 | 23:15
Aprílgabb
Sjónvarpið reyndi að senda okkur niðrí húsgrunn Björgólfanna á hafnarbakkanum. Þar áttu menn að hlusta á lögreglukórinn syngja til ágóða fyrir fíkniefnadeildina sem finnur gras alla daga. Fréttin var studd tóndæmi sem gaf ekki sérleg fyrirheit um gæðakonsert.
Mér fannst yfirbragð lúið og lasið
á lögreglukórnum og fasið
allt á þann veg
að álykta ég
að reykt hafi greyin allt grasið.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
31.3.2009 | 22:27
Matarhornið
Landinn nú bæði spjallar og spyr
hvort spekingur slíkur hafi fyrr
í Sjálfstæðisflokk
stigið á stokk
sem bjartasta vonin, Bjarni skyr.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.3.2009 | 23:14
Upprisufréttir
Af landsfundi Sjálfstæðisflokksins er það helst að frétta að þar var boðskapur páskanna fléttaður inn í dagskrána þegar Davíð kom og hélt þar ræðu.
Af er nú víst allur vafinn
yfir velflesta Davíð er hafinn
Í gær sér af list
líkti kallinn við Krist
sem var krossfestur, dáinn og grafinn
Ég kann svo alveg söguna áfram en neita að trúa að Davíð sé upprisinn. Bjarni Ben. er það hinsvegar.
Nú flokkinn skal losa við leti og slen
og ljóst er að þarf til þess afbragðs gen
úr vöndu skal ráða
menn völdu því snáða
sem er lifandi en heitir samt Bjarni Ben.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.3.2009 | 22:55
Neyðaraðstoð
Ekki skil ég hverjum datt í hug að betla aura af Neyðarlínunni. En nú síðustu daga hefur komið í ljós að þessa frábæru hugmynd virðast allir stjórnmálaflokkar hafa fengið einhverntíma og það sem meira er; neyðarlínan var aflögufær og lét aura í gott málefni.
Ef af seðlum þig víst fer að vanta meir
veit ég um ráðið sem nota þeir
staðföstu okkar
stjórnmálaflokkar;
þeir stynjandi hringja í einn, einn, tveir.
En reyndar eru þeir nú búnir að hringja aftur og bjóðast til að skila aurunum.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.3.2009 | 21:39
Helgarfréttir
Fréttir helgarinnar eru þær helstar að Spron féll á laugardag. Þeir sem vitið hafa blogga um að þetta hefðu allir mátt vita lengi. Það veit ég ekki en svona fréttir koma þó ekki á óvart lengur.
Fréttirnar lesum við lon og don
og löngum er í þeim á hruni von.
Nú í bili þá telst
það trúlega helst
að tók loksins ríkið yfir Spron.
Það hefur sjálfsagt ergt einhvern að Ísland tapaði fyrir Færeyjum í fótboltaleik um helgina. Ég verð þó að játa ég mér fannst þetta ekki slæmt. Gaman fyrir Færeyinga og gott fyrir okkur sem höldum alltaf að við séum betri en við erum á öllum sviðum - líka í boltanum.
Þó geðvondar bullur þær gapi
og gretti og hrylli yfir tapi
ég fullviss þó er
að fleirum en mér
er færeyskur sigur að skapi.
Við erum vonandi ekki búin að gleyma því að Færeyingar voru með þeim fyrstu til að bjóða okkur aðstoð þegar allt hrundi í haust?
En svo er auðvitað gott að vinna á einvherjum vígstöðvum. Handboltakarlar fóru í boltaleik við útlendinga og unnu.
Við bros fram í kreppunni kreistum
þegar karlar í stuttbrók og leistum
liprir og glaðir
léttir og hraðir
leika sér knáir að Eistum.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
18.3.2009 | 23:23
Þjóðþrifamál
Menn það í fjölmiðlum fréttu
að forðuðust þingmenn með réttu (?)
að mæta á fund
og fræðast um stund
um ferðir á Melrakkasléttu.
Fyrir rest varð að senda mann út af örkinni til að sækja þingmenn:
Og enn síður varð í þá klónum krækt
og til kosninga varla frumvarp tækt:
Í sal varð að lokka
fulltrúa flokka
svo kosið þeir gætu um kræklingarækt.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.3.2009 | 23:29
Allt við það sama
Ekki fóru allir jafnvel út úr prófkjörum helgarinnar. Sumir duttu alveg út en aðrir hanga inni en ekki meira en svo. Einn þeirra sem eiginlega fengu reisupassann er Össur Skarphéðinsson. Ekki vildi nema þriðjungur þeirra sem kusu í prófkjöri Samfylkingarinnar hann í annað sætið - en þangað rataði hann samt því aðrir gáfu ekki kost á sér í það sæti.
Mér finnst að hann ætti nú að þekkja sinn vitjunartíma og segja takk og bless.
Ekki er gæfuleg útreið slík
sem Össur greifi af Helguvík
sæta nú má
og sumir því spá
að hann pass muni segja í pólitík.
En prófkjör eða ekki - sjálftökuliðið er að störfum út um allt. HP Grandi fær fyrsta sæti á ræningjalistanum: Eftir að eigendur gengu á bak kjarasamningum og frestuðu launahækkunum starfsmanna töldu þeir í kassanum og sá að þeir áttu afgang til að greiða sjálfum sér arð. Snilld.
Lítilla sæva og sanda
ég segi eigendur Granda;
arðinn þeir hirða
og einskis þeir virða
almenna starfsmenn í vanda.
Var einhver að tala um "Nýja Ísland"?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.3.2009 | 00:08
Prófkjörshelgi
Fyrstu tölur eru komnar í prófkjörum helgarinnar. Það voru Framsóknarmenn í Norð-Vesturkjördæmi sem voru fyrstir að telja. Þar er helst að frétta að Guðmundur Steingrímsson (sem vildi komast á þing í kreppunni) lenti í öðru sæti á eftir heimamanni og fer sennilega enn neðar útaf kynjakvóta. Hann verður sennilega að finna sér aðra vinnu í bili.
Á sama lista vildi vera Kristinn H. Gunnarsson sem hefur nú farið í hring með viðkomu í öllum flokkum nema einum. Skemmst er frá að segja að hann komst ekki á blað.
Innfæddur maður varð ofan á
svo ekki mun Guðmundur sæti ná.
Og lítill er skaði
þó lenti ekki á blaði
lukkuriddarinn Kristinn H.
Þessi heimamaður sem fór í fyrsta sætið heitir annars Gunnar Bragi og mun vera Skagfirðingur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.3.2009 | 22:28
Flokksskírteinið dugði ekki
Í dag gerðist sá merki atburður að sitjandi formanni í VR var hafnað í formannskjöri. Ekki að ástæðulausu að sjálfsögðu því maðurinn sýndi fádæma dómgreindarleysi sem stjórnarmaður í Kaupþingi. Þar gleymdi hann að því er virtist í hverra umboði hann sat og var enda launað ríkulega af bankanum.
Hann er slyngur og sleipur sem áll
slímugur, blautur og háll.
En réttlætið vann
og rekinn var hann
Gunnar hinn gírugi Páll.
Guð láti gott á vita fyrir komandi kosningar.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.3.2009 | 23:37
Furðufrétt dagsins
Á fréttunum öllum mig furðar glás
af feðgum í Straumi Burðarás.
Á hausinn nú fer
og augljóst því er
um öxl sér þar reistu þeir hurðarás.
Væri nú ekki ráð að frysta restina af þeirra dóti - svona rétt meðan verið er að kanna hvort þeir eigi fyrir skuldum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Limruleikur
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar