Færsluflokkur: Bloggar

Hvunndagshetja

Siv Friðleifsdóttir ríður ekki feitum hesti frá þingi Framsóknarmanna um helgina.  Hún, sem er búin að strita fyrir sitt fólk árum saman fékk ekki einu sinni að vera varaformaður.  Einhver hefði farið í fýlu - en ekki hún Siv.   Í Mbl. í dag segist hún "alsæl" með nýjan formann og að hún telji að "flokknum hafi verið bjargað".

Hún gæti af ergelsi gargað
því greyinu, henni var fargað
í kosningu‘ í gær
en kokhraust þó hlær
og fullyrðir „flokknum var bjargað“.

Þetta heitir að kunna að taka ósigri. 


Fyrsta flokksþingið á árinu

Þá eru Framsóknarmenn búnir að þinga og kjósa og álykta.  Ályktun þeirra um Evrópusambandið er nú kafli út af fyrir sig.  Fyrirvararnir voru svo margir að það vantaði bara að það stæði að íslenska skyldi verða aðaltungumálið í Brussel.


En þó toppar formannskosningin í dag allt.  Þar þurfti til tvær umferðir og að þeirri seinni lokinni hyllti þingheimur vitlausan mann um stund þar til einhver í kjörstjórn áttaði sig á því að þeir höfðu talið vitlaust:

Því fyrirhöfn fylgir og elja
f
ormann til starfa að velja
og núna hver sér
það nauðsynlegt er
að kjörstjórnin kunni að telja.

Höskuldur Þórhallsson bar sig þó furðu vel þegar menn áttuðu sig á talningarmistökunum og hann mátti lufsast niður af sviðinu og í sætið sitt.  Hann er ættaður eða uppalinn í Hörgárdal og ég gef mér að þar hafi menn haldið með sínum manni.

Það var hátíð í Hörgárdalnum
er hylltur um stund var í salnum,
uns frægðar af þröskuldi
fleygðu menn Höskuldi
og vaskur hann liggur  í valnum.

Sá sem tók við formannsembættinu eftir að kjörstjórn fór yfir samlagninguna einu sinni enn var splunkunýr flokkslimur Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.  Sem betur fer hefur einhver ættfróður bloggari bent á að hann eigi rætur að rekja út fyrir malbik. 

Maddama Framsókn er móð og heit
því mannaval slíkt ekki fyrr hún leit:
Formann sér velur
er fremstan hún telur
og sá á sér rætur í Reykhólasveit.

Ekki mikið þó að Páll Magnússon færi ekki langt í þessu kjöri - er hann ekki bara að sunnan?


100 dagar!

Síðustu hundrað dagar hefa verið erfiðir og margt bendir til þess að næstu hundrað verði heldur ekki léttir.  Fréttir berast að atvinnumissi, kjaraskerðingum og gífurlegum hækkunum á verði og þjónustu.  Við sem héldum að verið væri að vinna í málunum höfum smátt og smátt verið að komast að því að ráðleysi ráðamanna er jafnmikið nú og það var í upphafi.

Af og til örlar þó á framtíðarsýn og þá tala menn fjálglega um Hið Nýja Ísland.  Lítið er hinsvegar um framkvæmdir sem gætu talist stefna að þessu marki - nema ef vera skyldi ritverk BB  sem heitir því hógværa nafni "Hvað er best fyrir Ísland?"  Án þess að hafa lesið bókina þá gef ég mér að það sé að hokra ein á hjara veraldar og láta Sjálfstæðisflokkinn halda áfram að teyma okkur á asnaeyrunum til að leggja niður sjúkrahús og selja aðgang að þeim sem eftir eru.

Undan fjárglæfrum hugðumst við flýja
og frjáls reisa Ísland hið nýja.
Það var endalaus saga
í eitt hundrað daga
en frasa þeim fylgir nú klígja.

Mér fannst líka forvitnilegt að þegar Ingibjörg var spurð um eitthvað sem betur mætti fara sagði hún við þjóðina að við yrðum að gæta þess að Hið Nýja Ísland væri ekki komið.  Nei ekki það? Hvenær? 

Ég ætla þó aðeins að  kyrja
og Imbu og Geir vil ég spyrja
Er ekkert að frétta?

Á ekki þetta
óskaland bráðum að byrja?

Ég hélt að slík lífsstílsbreyting ætti að taka þegar gildi?  Eða er þetta eins og megrunin sem fitubollan ætlar að fara í bara ekki í dag heldur bráðum?


Inni- og útifundir

Borgarafundurinn í Háskólabíói í kvöld mun hafa heppnast vel.
Nei ég var ekki á staðnum en með í anda.  Mæti næst.

Þessi fundur rifjar þó upp slæma minningu fyrir samfylkingarstuðningskonu eins og mig. Ég er hér að tala um þegar Ingibjörg Sólrún sagði á samskonar fundi við fullan bíósal af Íslendingum að "þeir væru ekki þjóðin".

Ýmsir þó missi nú móðinn
er mikilvæg baráttuglóðin
sem eigum við mörg
Ingi- þó –björg
segi:  "Þið eruð alls ekki þjóðin".

Annars var það helst í fréttum í dag að hópur fólks mótmælti morðunum á Gaza fyrir framan Stjórnarráðið.  Þvarg íslenskra ráðamanna um það hvort þeir mótmæli, fordæmi eða hallmæli aðgerðum stjórnvalda í Ísrael eru í besta falli kjánaleg og ekki skrítið þó að einhverjir fari af stað og mótmæli.  Ég er svo sem ekkert ýkja hrifin af fólki sem slettir málningu en skil þó að mönnum sé heitt í hamsi.  Mbl. birti myndir af fólki að skúra Stjórnarráðið að utan en ég tel ekki síður þörf á að þvo innviðina og þá sem inni eru:

Skelegg ég vil núna skrifa það
og skal á því máli hér klifa að
með einhverjum ráðum
nú reka þarf bráðum
ráðherrahyskið í þrifabað.

Hyski er annars gamalt og gott orð sem þýðir heimilisfólk eða jafnvel fjölskylda ......

Hugsjónamaður?

Hann langar í fjölmiðlaljósið
og líka frá pabbanum hrósið:
Upp því hann stendur
og stefnir nú Gvendur
beint heim í Framsóknarfjósið.


Hér er auðvitað allnokkur beiskja á ferð.  Mér leist nefninlega ekki illa á gaurinn og taldi hann jafnvel hafa hugsjónir - aðrar en þær sem snúast um að koma sér að kjötkötlunum.  Nú spái ég því að hann lýsi yfir formannsframboði sínu fyrir helgi.


Nýr maður?

Ég horfði eins og aðrir landsmenn á Bjarna hinn iðrandi Ámannsson í Kastljósi kvöldsins.  Þar var hann spurður út í greinina sem hann ritaði í Fréttablaðið í morgun og fjallar sýnist mér um þá (nýju) skoðun hans að hann eigi stóra sök á bankahruninu.  Það hefði ég nú geta sagt þeim Kastljósmönnum fyrir löngu.

Í einhverri umfjöllun um þennan nagla sá ég einhversstaðar að hann væri gjarn á að skipta um lið.  Hann vildi alltaf vera í vinningsliðinu og hefði af slægð valið sér viðskiptafélaga og samstarfsmenn sem þjónuðu honum og hagsmunum hans.  Þetta sel ég ekki dýrara en ég keypti það en þó var augljóst í kvöld að nú vill hann vera með okkur - alþýðu manna - í liði.  Kannski vegna þess að það er farið að þynnast í hópi jábræðra af útrásarkyni?

Hann þykist nú fara með friði
og í fjölmiðlum kynnir hann siði
sem miða að því
að mega á ný
leika með okkur í liði.


Bjarni var annars prúður og rólegur og mætti í alltof stórum jakkafötum - svona til að við fengjum á tilfinninguna að iðrunin væri slík að hann hefði hríðhorast.  Þetta hefur örugglega virkað á einhverja.

Þó iðrun við einhverjum hreyfi
og annarra fordæming  deyfi,
þá munum að aur
notar útrásargaur
til að kaupa sér landvistarleyfi.

Ég er nefninlega skíthrædd um að það búi eitthvað undir.  Skyldi hann ætla í pólitík?  Forsetaframboð?  Eða ætlar hann að taka við af Davíð? 

Svo minni ég á að hann fékk 900 milljónir í skilnaðargjöf eða hvað það nú heitir.  Fór með þær til Noregs þegar gengi norsku krónunnar var rúmar 11 krónur og breytti þeim í norskar 82 millur.  Nú eru þær 82  norsku milljónir orðnar tæplega 1,5 milljarður íslenskra króna (gengið í dag er tæpar 18 kr.)  og hann getur því greitt 370 milljónir og samt átt eftir milljarð:  Hann er því bara að hreyta í okkur gengishagnaðinum....frábært!


Gleðilegt ár

Ég fylgdist óvenju vel með yfirlit liðins árs í sjónvarpi og útvarpi þessa helgina.  Fá ár hafa verið viðburðarríkari og gaman að því þegar fjölmiðlar birta glefsur úr ávörpum síðustu áramóta og bera saman við ræður Óla og Geira í gær og í dag.  En bæði þeim og öðrum ber saman um að í hönd fari erfitt ár.

Tími flottheita og framfara
var fjármálabullinu samfara.
Nú kemur ár
með trega og tár
og tímabil efnahagshamfara.

Þrátt fyrir hrakspár og erfitt útlit voru áramótin með hefðbundnu sniði á flestum heimilum.  Ég geri mér reyndar grein fyrir því að Gamlárshlaup ÍR er ekki alveg eins algengt og flugeldar en ég reyni að hlaupa á hverju ári og í gær var það einstaklega gaman.  Góð þátttaka og gott veður og jafnvel þó að skipulagning hlaupsins hafi verið til vansa náði það ekki að spilla gleði okkar hlaupara.

Dagurinn í dag var svo hefðbundinn með góðum afgöngum og góðri fjölskyldusamveru og loks skemmti landslýður sér við að spá í hverjir fengu fálkaorðu  og af hverju.

Það var  ljúfmeti‘ á landsmanna borðum
og lífið í hefðbundnum skorðum:
Gamlársdagshlaup,
gleði og skaup
og forsetinn útdeildi orðum. 

Og meðal annara orða:  Gleðilegt ár!

Æfingaskot

Fór í skreppitúr norður í land um helgina.  Alltaf gott veður á Akureyri og rólegheit yfir öllu.  Það voru því viðbrigði að koma suður í gærkvöld - þar var sprengjuregn mikið og menn greinilega farnir að undirbúa áramótin.  Enginn krepputónn þar og lofar góðu fyrir gamlárskvöld.

Mín spá er þó komin sé kreppa
kjósi hér margir að sleppa
fram af sér beislum
í fjörugum veislum
og í flugeldaskotfimi keppa.


Gleðilega rest

Það gæti nú litið út eins og jólin hefðu ekki verið ýkja gleðileg hjá mér ef ég játa hér og nú að ég er búin að lesa Forsetabókina  Þrátt fyrir það hef ég átt ákaflega góða daga með mikilli fjölskyldusamveru í tveimur landshlutum og hef ekki yfir neinu að kvarta.

En að því sögðu get ég viðurkennt að milli veisluboða gluggaði ég í bók Guðjóns Friðrikssonar um Ólaf útrásarforseta.  Þetta er skelfilega mikið áróðursrit en mér leiddist ekki lesturinn - þó svo að ég nennti ekki að lesa bókina orði til orðs.  Guðjón kann að skrifa ævisögur enda vanur maður á ferð.


Hann  Guðjón er alltaf í önnum
með ævisögur í hrönnum.
Fölskvalaus trú
á forsetann nú
mun flokka‘ hann  með guðspjallamönnum.


Þorláksmessa

Góður dagur kominn að kveldi.  Allt með hefðbundnum hætti hér á bæ; skata í hádeginu og ein síðbúin jólagjöf sem neyddi mig í bæinn á sjöunda tímanum.  En nú er ég komin í jólagírinn og bíð jólanna með óþreyju:

Hér vandamenn gengu‘  inn af götunni
og glöddust með okkur í skötunni.
Nú hafin er bið
eftir helgi og frið
með Jesúbarninu‘ og jötunni.

Allt frá því að ég var smábarn hefur mér fundist jólasálmurinn "Í dag er glatt í döprum hjörtum" vera fallegastur þeirra allra.  Í mínum huga er jólin komin þegar hann hljómar í stofunni í flutningi Dómkórsins á aðfangadagskvöld.

Á jólanna stressi ég farið get flatt
og flýtt mér of mikið.  Það rétt er og satt.
En er ég sest  niður
þá fyllir mig  friður
Dómkórinn syngjandi „ Í dag er glatt".

Gleðileg jól!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Limruleikur

Höfundur

Jóna Guðmundsdóttir
Jóna Guðmundsdóttir
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband