Færsluflokkur: Bloggar
19.12.2008 | 00:06
Sögustund
Aldrei hef ég lært latínu en kann þó örfá orð, Eitt þeirra er pereat sem mun þýða "farist hann" eða kannski aðeins mildara "niður með hann". Þetta hrópuðu skólapiltar Lærða skólans þegar Sveinbjörn Egilsson rektor vildi skylda þá til að ganga í bindindisfélag. Það tókst hjá þeim - þeir losnuðu við kallinn og félagið líka minnir mig.
Sem kunnugt er endurtekur sagan sig og í gær eða fyrradag fóru nokkur ungmenni (og Jón Gerald) inn í Landsbankann í Reykjavík og hrópuðu niður með Tryggva Jónsson, sem var jú einn af þeim svæsnustu í útrásinni. Hann var hinsvegar kominn sæll og glaður á ríkisjötuna með fast starf í hinum nýja banka. En ekki lengur því hann var hrópaður niður og hætti í kjölfarið.
Pereat iðka menn enn um sinn;
æstur fór múgur í bankann inn.
Tryggvi varð mæddur
og trúlega hræddur
því tekið hann hefur nú pokann sinn.
Svo er bara að vona að hópurinn drífi sig upp í Seðlabanka með viðkomu í Stjórnarráðinu.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
17.12.2008 | 23:33
Liðsauki
Mótmælendur fóru í Landsbankann í dag og hrópuðu taktfast "Bankanum þínum er sama um þig" sem eru vissulega orð að sönnu. Athygli vakti að í hópi mótmælenda var Jón nokkur Gerald Sullenberger, sem til skamms tíma var skútuhaldari og rótari útrásarvíkinganna.
Eins og alþjóð veit, slettist upp á þann vinskap og nú er félagi Sullenberger að sleikja sig upp við alþýðuna í staðinn og mætti þess vegnaí Landsbankann í morgun. Hann hefur lýst því yfir í viðtölum við fjölmiðla að hann vilji taka þátt í uppbyggingunni hérlendis og leggja sitt af mörkum. Þessi fórn hans á að felast í því að hann vill stofna verslanir til höfuðs Baugsfeðgum. Það er auðvitað frábært því ef eitthvað vantar hérlendis þá eru það búðir - eða hvað?
Jón Gerald er kokhraustur kóni
sem kveðst vilja byggja upp á Fróni
En ef betur er gáð
beinast hans ráð
að því hvernig hann klekkt geti á Jóni.
Bloggar | Breytt 18.12.2008 kl. 08:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
14.12.2008 | 01:08
Úlfur, úlfur
Ingibjörg Sólrún var í spjallþætti á RÚV í morgun. Þar fór hún mikinn og hótaði, að því er mér skildist stjórnarslitum, ef Valhallarliðið hafnar ESB á landsfundinum í janúar.
Það er áþján og átthagafjötur
ef til Evrópu liggja ekki götur
segir Imba dag
og ætlar í slag
ef á samstarfi finnst ekki flötur
Verst að það eru flestir hættir að taka mark á hótunum Samfylkingarinnar - þeir sitja sem fastast hvað sem á dynur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.12.2008 | 23:29
Bjargvætturinn mikli
Merkilega skemmtilegt myndband á mbl. nú í kvöld. Það sýnir Gordon Brown halda ræðu í breska þinginu þar sem hann hælir sér af því að hafa bjargað heiminum! Þarna mismælti hann sig því hann ætlaði að segjast hafa bjargað bönkunum (þeim bresku, vel að merkja).
Hann var hvorki dapur né down
enda dýrðlegt og mikið hans lán:
Heiminum bjargar
og bágindum fargar
hinn guðlegi Gordon Brown.
Okkur Íslendingum verður sennilega seint hlátur í hug þegar hann er nefndur en það mátti brosa út í annað að þessu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.12.2008 | 23:54
Brjálað að gera
Það er bjálað að gera hjá mér og mótmælendum þessa dagana. Þeir voru í Alþingi í gær og við Ráðherrabústaðinn í dag. Ég var bara í vinnunni og á fullu. Þess vegna var það ekki fyrr en í kvöld að ég hlustaði á viðtal við gamlan mótmælanda; Össur sjálfan. Hann mótmælti á þingpöllum fyrir margt löngu en sleppti því að bíta sagði hann og þar með skildist mér á mótmælendur í gær hefðu notað tennur sem vopn.
Aðgerðum fólkið vill flýta
og forheimska stjórnina víta.
Einlæg þó spái
að árangri nái
það betur án þess að bíta.
En þó er aldrei að vita....
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.12.2008 | 23:53
Bókarabrögð
Menn hafa verið að bíða eftir viðbrögðum Samfylkingarinnar við bullinu í Davíð alveg síðan í september. Lítið gerist á þeim vígstöðvum - menn kyngja galli og láta sig hafa það - allt fyrir samstöðuna með Geir. En ekki Össur. Hann rís upp á afturfæturnar og lætur ekki bjóða sér þetta bull. Og hvernig bregst hann við? Með meira bulli. Hann hefur látið bóka að Davíð sér ekki að störfum í ábyrgð Samfylkingarinnar. Bókunin breytir að vísu engu: Áfram situr Davíð í helli sínum og bruggar launráð og áfram sofa landsmenn illa af ótta við næstu útspil hans. Nema Össur. Hann sefur rólega enda búinn að bóka manninn úr umferð.
Hann kokhraustur heldur sig klókari
og kænni en flesta, sá djókari.
En í rauninni má
rummungur sá
kallast bleyða og lélegur bókari.
Og svo það sé á hreinu þá þekki ég bara góða bókara - aðrir endast ekki í starfi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
4.12.2008 | 22:24
Prentsmiðjudanska
Gleðifrétt Davíðs var birt í dönsku blaði; Fynsk stiftstidende sem er blað sem enginn hafði heyrt um fyrr en í morgun - nú þekkjum við það jafnvel betur en hið sívinsæla uppflettirit fréttamanna Jyllandsposten.
Nå ridderen kommer ridende
og rabler i vej på flydende
dansk, men har nok
gået amok
med sin fabel í Fynske tidende.
Þegar ég hafði safnað kjarki og var komin til vinnu las ég um morgunverk Davíðs. Hann hafði sig loks í að mæta hjá viðskiptanefnd Alþingis til að skýra út rugl sitt um að hann vissi hvers vegna Bretar settu á okkur hryðjuverkalög þarna um daginn. Í ljós kom að hann vissi það auðvitað ekki og því brá hann fyrir sig bankaleynd og neitaði að tjá sig. Magnaður andsk. En hann kom í lögreglufylgd með lífverði - vonandi að enginn fari að skíta sig út á því að leggja hendur á hann.
Sá gamli og grályndi skröggur
nú gjarnan má hirða föggur
sínar og fara
ég segi það bara
með sína lífverði og löggur.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.12.2008 | 23:56
Kaup og kjör
Það var þrautseigja og kjarkur í þankanum
hjá þessum sem mótmæltu í bankanum.
En svikinn var skarinn
því skröggur var farinn
já frakkinn var horfinn af hankanum.
Merkilega stuttur vinnutími hjá yfirbankastjóranum svona á þessum síðustu og verstu - klukkan var ekki einu sinni orðin fjögur.
Það var orðið langt síðan Geiri smart hafði haldið blaðamannafund þegar hann skellti einum á í hádegninu. Þar var reyndar fátt að frétta nema honum virtist létt þegar hann tjáði okkur að það varðaði við lög að lækka laun ráðamanna eða sú væri niðurstaða kjararáðs.
Geiri þykist ekki í því botna baun
en ég býst við að fargi og þungri raun
sé af honum létt
síðan lak út sú frétt
að kjararáð megi ekki lækka laun.
Þetta er náttúrulega spurning um vinnutíma - það mætti gjarnan hýrudraga Davíð fyrir að fara heim á hádegi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.11.2008 | 23:33
Hundalógík
Heldur var dapurt að heyra af örlögum RÚV í vikunni. Nú á að spara og meðal róttækustu aðgerðanna er að senda heim konuna sem sér um morgunleikfimina. Það finnst mörgum hlálegt en þó ekki gamla fólkinu sem sat á stól og gerði bolvindur - því finnst fréttin bara sorgleg.
Bloggarar hafa velt því fyrir sér hvort útvarpsstjóri verði að skila jeppanum sem mér skilst að við höfum látið honum í té. Ekki veit ég til hvers en kannski til að komast á skytterí?
Hér er vond og fer versnandi kreppa
ef sér verður að afsala jeppa
kallinn sem áður
með byssuna bráður
banaði á skotveiðum seppa.
(Annars er minni mitt heldur svikult - kannski dó hundurinn ekki og kannski var það einhver annar sem skaut eða skaut ekki).
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.11.2008 | 23:34
Gjaldeyrislán og lukka
Nú eru víst að koma krónurnar að westan. Þær verða notaðar til að koma krónunni á flot eins og sagt er, hvernig sem það kemur nú til með að ganga.
Er krónuræfillin kemst á flot
mun kreppan magnast og óðagot
verða um hríð
og verðbólgutíð
sem áfram mun stefna þjóð í þrot.
Þess er nú kannski heldur svartsýn - ég ætti heldur að huga að eigin hag. Ef krónan fellur erum við gjaldeyriseigendur í góðum málum. Ég gæti til að mynda selt dollarana mína og keypt mér eitthvað fallegt, jafnvel nýja skó.
Nú krónan fer fljótlega að falla
því fljóta gerir hún valla:
Ég dollara á,
ætti ég þá
að selja samstundis alla?
Reyndar eru þetta nú ekki nema 160 dollarar og þar að auki Hong Kong dollarar svo ég fæ varla nema sokka.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Limruleikur
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar