Furðufréttir

Það var frétt í dag í vef-mogganum um deilur í Kjósinni.  Maður (sem sagður var tannlæknir ) er þar mótmæla vegi sem lagður var um land sem hann telur sitt og heim að öðrum bústað.  Tannsi virðist hafa gripið til harkalegra aðgerða og sýndar voru myndir af vegaskemmdum af hans völdum.  Hinn deiluaðili er síðan níræð kona.

Það kom leiðindaskarfur í ljós
við Laxavoginn í Kjós
Hann aldraða svekkir
ekkju og hrekkir
og ætti að sendast  til sjós!

Hann gæti mannast eftir vertíð á togara.


Önnur og skemmtilegri frétt birtist á mbl.is með yfirskriftina "Nítjánda barnið kom á óvart".  Þar segir frá ísraelskri konu sem var að eiga sitt nítjánda barn, 47 ára gömul.  Ekki kom fram hvort hin átján komu líka á óvart en hún ætti nú að vera farin að þekkja aðferðina og einkennin?

Konan hún öxlunum yppti
og ungbarni stynjandi lyfti:
„Á óvart það mér
kemur enn þetta hér
og núna í nítjánda skipti“.


Dýralæknablús

Árni Matt á ekki upp á pallborðið hjá þjóðinni þessa daga.  Hann á sér formælendur fáa eftir að fréttist af málaferlunum sem hann ætlar í við ljósmæður út af uppsögnum.  Meira að segja gat ég ekki heyrt betur en að Geir væri ekki alveg í stuðningsliðinu þegar hann var spurður í dag og aðrir stjórnarliðar eiga bágt þegar þeir þurfa að svara fyrir aðgerðir fjármálaráðherra.

Hann víst mun úr takti vera
af viti‘ ekkert maktar að gera
en hollt fyrir dýrin
að helv.  fýrinn
er hættur að praktisera.
´
En eins og kunnugt er er maðurinn dýralæknir að mennt.



Kyrrðarstundir

Nú er vetrardagskrá Valhallar hafin að nýju.  Þangað sækja Sjálfstæðismenn sér kjark á kyrrðarstundum sem haldnar eru alla laugardagsmorgna.  Fyrstur á mælendaskrá haustsins var Geir sem afgreiddi kreppuna myndarlega í morgun og var mönnum að vonum létt.

Ef reynist þú „down“ eða „deppa“
þér dugir í Valhöll að skreppa
Tíðindin heyr,
sem tautar þar Geir:
Á íslandi‘ er alls engin kreppa.

Ekki slæm tíðindi það - einkum fyrir ljósmæður því nú ætti að vera hægt að semja við þær um raunhæfar kjarabætur.

Tvisvar sinnum tveir

Í Mogganum vakti athygli mína frétt að norðan:  "Vilja tvöfalda framleiðsluna".   Forvitni mín var vakin og ég fór að lesa.  Þetta var frétt um fyrirhugaða aflþynnuframleiðslu í Krossanesi við Akureyri.  Þar á að byrja að framleiða fyrir jól og að sögn Aldo Fasan, aðstoðarforstjóra ítalska fyrirtækinins sem stendur á bak við þetta er strax farið að spá í tvöföldun.....

Menn ættu að spara sér asann
þó Aldo sé geðþekkur Fasan.
Auðmýkt sér  temja
og ágirnd að  hemja
þar til aurinn er kominn í vasann.

En vonandi gengur þetta eftir.


Allt í þessu fína í Kína

Það hefur ekki farið mikið fyrir fréttum af umræðunum sem spunnust á þingi í gær um Kínaferðir menntamálaráðherrans í ágúst.  Menn vildu fá að vita kostnaðinn og hvort vissulega hefði verið nauðsyn að fara tvisvar.  Þorgerður er brött og segist bara hafa verið að gera skyldu sína sem ráðherra:   „Ég myndi taka þessar ákvarðanir aftur enda tók þjóðin á móti strákunum með reisn,"  er haft eftir henni í mbl. í gær.

Þingmenn í Þorgerði rýna
og þarf hún nú reikninga‘ að  sýna:

En kerlingaranginn
er  alls ekki banginn
„Ég færi´ aftur með Kristján til Kína“

Hún hefur sennilega síðan hvorki haft tíma eða aura til að skreppa að fylgjast með Ólympíuleikum fatlaðra.


Linfrómur og afstæður?

Það er ekki ofsögum sagt af Árna Johnsen.  Nú guggnaði hann á því að fara í mál við Agnesi Bragadóttur og sendir frá sér tilkynningu þar sem hann "fyrirgefur henni" um leið og hann atar hana auri sem mest hann má. 
Frasarnir sem hann notar í pistli sínum virðast að mestu heimasmíðaðir eins og það að segja að Agnes hafi verið "linfróm í mannasiðum" og hún eigi "brjóstgóða takta þannig að hennar svið er vítt og vinalegt á margan hátt þótt slíkt sé alltaf afstætt í stærðum".  Þetta minnir mest á tæknilegu mistökin frá því jarðvegsdúkurinn skrapp óvart um borð í Herjólf hér um árið.

En það verður gaman að spjalla um þetta í kaffinu í fyrramálið.

Þjóðina karl hefur kætt
í kaffinu‘ á morgun mun rætt;
hvað hann á við
með „vinalegt svið
sem af-  er í stærðunum –stætt“

Ég held nú samt að hann hafi farið yfir strikið núna?

Ljóst er að skriplar á skötu
er skíthroði eys upp úr fötu
hinn linfrómi  Árni
þó ljóslega sárni
og líkist helst bilaðri plötu.

Eða kannski tekst honum í eitt skipti að þagga niðrí þeim sem ekki eru búnir að gleyma jarðvegsdúknum og muna ekki eftir syndakvittuninni sem hann gengur með upp á vasann....

Skyldi nú verða loks værð um
vafagemsann sem kærðum
við okkur lítt um
löngum og víttum
sem af- er þó –stætt eftir stærðum?



Þrír fyrir einn

Seint hætti ég að undrast fréttir af öldruðum mæðrum úti í heimi.  Nýjasta fréttin var af 59 ára gamalli franskri konu (af víetnömskum ættum) sem eignaðist þríbura! 

Að endingu eldumst og hrörnum
þó ýmsum menn hugi að vörnum
sem lausn reynir nú
í Frakklandi frú:

Að fylla húsið af börnum.

Auðvitað átti hún börnin í félagi við læknavísindin - en ekki hvað?


300 milljón evrur

Um miðja viku voru allir glaðir því loks hafðist ríkisstjórnin  eitthvað annað að en að fljúga til útlanda.   Geir tók loksins lánið sem átti öllu að bjarga; styrkja krónuna, styrkja stoðir viðskiptalífsins og auka okkur djörfung og dug.  En hvað gerist í dag?  Krónan fellur, viðskiptahallinn eykst og gengi lækkar í DeCode. 

Efnahagmál eru dýrlegt djók;
loks drattaðist Geiri og lánið tók
en aðgerðin styrka
var ekki‘ að virka
hún viðskiptahalla og raunir jók.

Og svo er spáð rigningu.


Baráttukveðja

Hálf stund til miðnættis og ljósmæðraverkfalls.  Það er ekki góð tilfinning að horfa á eftir ljósmæðrum út af fæðingadeildunum en skiljanlegt að þær séu langþreyttar á því að fá ekki menntun sína metna til launa. 

Katrín Jakobsdóttir vakti á því athygli á þingi í dag að hér væri kjörið tækifæri fyrir ríkisstjórn að standa við þann hluta stjórnarsáttmálans sem segir að bæta skuli laun kvenna ef færi gefst eða eitthvað í þá veru og ég get ekki annað en tekið undir með henni.

Sér stefnumark hefur stjórnin sett
og sterkt væri nú að  breyta rétt:
Að standa við orð;
berja í borð
og bæta launin hjá kvennastétt.


Heitasta parið

Heitasta parið í Hollywood þessa daga mun víst innhalda plastfólkið Michael Jackson og Pamelu Anderson.  Þau hafa sést stinga saman gervinefjum á kaffihúsum og hver veit hvað orðið getur úr því?

Halda um sinn ég þá vil í von
þau vogi‘ ekki að geta í bili son
því um er ég hrædd

að fljótlega fædd-
ist þá fölleitur krakki úr silikon.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Limruleikur

Höfundur

Jóna Guðmundsdóttir
Jóna Guðmundsdóttir
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband