Á helgarvakt

Áfram heldur farsinn sem þeir setja á svið fyrir okkur félagarnir Davíð og Geir.  Nú er aftur komin helgi og þá hittast þeir aftur á næturfundum með mógúlum úr íslensku efnahagslífi.

Á rúmhelgum dögum er frekar fátt
að frétta‘ en um helgar er mönnum brátt
vinnu að stunda
og vilja þá funda
frá morgunstund fram á miðja nátt.

Allt í lagi fyrir þá, en verra fyrir fréttamenn sem norpa fyrir utan og komast ekki einu sinni á klósettið af ótta við að missa af einhverju. Í RÚV var skelegg dama með rjóðar kinnar sem stóð sig vel undir álagi og henni tókst að ná tali af Geir:

Stúlkan sú nýja og netta
náði í Geir sem að þetta
gat ungmeynni tjáð:
„Ég engin kann ráð
svo alls ekki spyrja mig frétta“.

Hann sagði þetta nú reyndar með aðeins öðrum orðum en ég gat ekki betur heyrt en þetta væri innihaldið.


Óáran og óréttlæti

Það er óréttlátt, en passar auðvitað við allt annað, að þeir sem minnstan þátt tóku í góðærinu skulu finna mest fyrir því þegar því er lokið.  Hópuppsagnir verkamanna eru hafnar þó þeir hafa fæstir ekið um á tíu milljón króna jeppum eða verið áskrifendur að öðrum lúxus útrásarliðsins.  Þeir hafa samt margir smitast af velsældinni og sitja uppi með lán sem bara vaxa og vaxa eða krónur til elliáranna sem bara falla og falla.

Í skjólin nú flestöll er fokið
og frábærri gósentíð lokið
Lífskjörin hrapa
launamenn tapa
og fá kreppuna ofan í kokið.

Ekki er nóg með að það frysti á peningamörkuðum heldur hefur snjóað um land allt í dag og í gær.  Nú síðast í Reykjavík í kvöld.

Á Íslandi komin er kreppa stór,
klárast mun olía, hækka bjór.
Og ofan á allt
er allflestum kalt
því land hylur óvenju snemma snjór.

(Þetta með olíuna var haft eftir yfirmanni hjá olíufélaginu N1 meðan fjárlagafrumvarpið er með gömlum brag og þar á að hækka bjórinn til að mæta útgjöldum).


 

Orðvana og hissa.

Orðvana er dæmi um lýsingarorð sem stigbreytist ekki.  Í málfræðibókinni sem við notuðum í gagnfræðaskóla var listi yfir nokkur slík lýsingarorð.  Andvaka, ráðþrota, svefnvana, gjaldþrota og hissa voru önnur ef ég man rétt.  Þessi orð hafa mikið verið notuð í umræðu síðustu daga og þó ég sé hvorki svefnvana né gjaldþrota er ég bæði hugsi og hissa.  Og þar sem samsæriskenningar hafa alltaf átt upp á pallborðið hjá mér er ég ginkeypt fyrir þeirri nýjustu - sem reyndar er alls ekki ný:

Maðurinn grályndi, gretti
grimmur sér stefnuna setti.
Loforð var efnt;
þess harðlega hefnt
í Hæsta- sem tapaðist  -rétti.


Íþróttafréttir

Í dag var hlaupið hið árlega Berlínarmaraþon. Þar tóku þátt hlauparar alls staðar að úr heiminum og glímdu við þessa miklu hlaupaþraut. 

Ég fylgdist aðeins með, bæði af því að ég var þarna í fyrra og ekki síður af því að ég á vini sem voru í þátttakendahópnum í ár.  Ég lagði áhugasöm því við eyrun þegar íþróttafréttir voru sagðar í dag í RÚV.  En það var ekkert minnst á hlaup í hádeginu, ekkert klukkan fjögur og það var ekki fyrr en í kvöld að sagt var frá því að hlaupið hefði heppnast með ágætum og að Eþíópíumaðurinn Haile Gebreselassie hefði bætt metið sitt frá í fyrra um heila mínútu!  Hinsvegar var allt fullt af boltafréttum, fréttum af golfmótum út í heimi og aðstoðarökumönnum í einnhverri rallkeppni.

En sem sagt - Haile Gebreselassie sigraði annað árið í röð og sló eigið met frá því í fyrra eins og fyrr segir.

Hann er biksvartur – vafalaust bassi-
og bara‘ hægt að mynda‘ hann með flassi.
Marga hann kætti
er metið hann bætti
í maraþon;  Gebreselassie.

(Já ég veit um Gunnlaug Júlíusson sem var að hlaupa 250 km en kýs að láta það liggja milli hluta hér).




 


Hreppaflutningar

Skjálftarnir miklu á Suðurlandinu í sumar höfðu í för með sér meira en sprungur í malbiki og brotið leirtau.  Í ljós hefur komið að í hamaganginum færðist Selfoss um heila 17 centimetra til austurs. 

Selfoss með  fumi og flaustri
fluttist í áttina‘ að Klaustri.
Fagna þar menn
og  finnst vera enn
fegurstur roðinn í austri.

Guðni gæti lent í því að bjóða sig fram í Austurkjördæmi áður en hann gefst gefst upp.


Lögguhasar

Fátt veit ég um löggur og lögreglustörf suður með sjó.  Hitt tel ég mig vita, að ef Björn Bjarnason vill losna við sitjandi lögreglustjóra þar, þá sé töluvert í þann lögreglustjóra spunnið.  Enda kom í ljós að þegar Jóhann Benediktsson lögreglustjóri sagði starfinu lausu þá völdu þrír eða fjórir undirmenn hans að fylgja honum.  Einhverjum hefði slíkt vakið ugg en ekki Birni - hann talar bara um að nú þurfi að fylla í skörðin.

Fáránleg finnst mönnum gjörðin
að flæma burt lögregluvörðinn.
Brosir þó breitt
Björn út í eitt
og býst til að „fylla í skörðin“.


Gátur

Hvað er það sem hækkar ef af er tekið höfuðið?  Þetta var ein af þessum furðulegu íslensku gátum í lestrarbókunum barnaskólans í mínu ungdæmi.  Svarið við þessu var koddinn og þótti fyndið.

Gáta dagsins gæti verið:  Hvað er það sem eykst þegar einkunnin lækkar?  Og svarið er spillingin.  Ísland fær nú lægri spillingareinkunn en fyrr og það þýðir að hér hefur spilling aukist.  Merkilegt en ég marglas frétt um þetta á mbl. is og þetta er ekki misskilningur.

Það liggur auðvitað beinast við að tengja þetta kreppu, verðbólgu og vaxtaokri?  Og þá vonum við að með hagsældinni sem er handan við hornið fari allt til betri vegar og spillingareinkunnin hækki á ný.

Til framtíðar horfum í hillingu
með hagsæld er veita mun fyllingu.
Ætlum við þá
aftur að ná
ágætiseinkunn í spillingu.


Bankablús

Við Íslendingar vöknuðum upp við það í morgun að Kaupþing-banki er ekki lengur í eigu okkar eigin kapítalista.  Sjeik Mohammed Bin Khalifa Al-Thani frá konungsríkinu Quatar er orðinn þriðji stærsti hluthafi í bankanum á eftir vini sínum  og veiðifélaga Ólafi Ólafssyni.  Frábært.

Ég hélt það í fyrstunni feik
eða  fjölmiðlar komnir í leik
en sannlega rétt
reyndist sú frétt:
Að Kaupþing var keypt upp af sjeik.

Ekki eru þetta þó einu fréttirnar úr bankaheimum í dag.  Það fréttist nefninlega líka að nú ætti loks að sameina Glitni og Byr.  Samnngaviðræður standa að vísu enn yfir en ég vænt þess að þeim ljúki með því að lögð verði niður fjölmörg útibú og þeim lægst settu sagt upp samkvæmt kennslubókum í hagræðingu.

Um útibú standa mun styr
og stapp eins og oftsinnis fyr
Missa nú  vinnur
miðaldra kvinnur
er Glitnir hann gleypa mun Byr.



Uppgjafartónn

Uppgjafartónn?  Já kannski í mér en ekki í Geir.  Hann sagði í dag að krónan myndi styrkjast en þá var hún búin að falla um 2% tvo daga í röð - að minnsta kosti.  Ég veit ekkert í minn haus en frasinn góði um "skammvinna verðbólguskotið" er orðinn lúinn.  Skammvinnt?  Já svona miðað við jarðsöguna.

Á Íslandi er ýmislegt rotið
eyðilagt,  gallað og brotið.
Endist það eitt
sem hata menn heitt;
„skammvinna verðbólguskotið“.


Flökkusögn rætist

Ein af frægari flökkusögnum síðari tíma virðist hafa ræst í Hollandi ef treysta má mbl.is.  Þar segir frá náunga sem fann kyrkislöngu í klóinu á hótelinu þar sem hann dvaldist.  Þær útgáfur sem ég hef hingað til heyrt af þessari sögu fjalla um krókódíla og klósettin eru yfirleitt í NY.  Holland er hinsvegar svo miklu nær ....

Hann sálaðist  nánast  á nóinu
og náfölur greindi frá  showinu:
„Sprengfullri blöðru
ég sprændi á  nöðru
er spræk var og gægðist úr  klóinu.“

- næst verður það Hafnarfjörður.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Limruleikur

Höfundur

Jóna Guðmundsdóttir
Jóna Guðmundsdóttir
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband