Erlendar fréttir

Góðar fréttir voru í dag frá henni Ameríku fyrir vestan.  Þar fór betur en á horfðist þegar fellibylurinn Gústav stefndi á borgina New Orleans.  Minnugir atburðanna þegar Kata fór þar yfir fyrir þremur árum létu ráðamenn rýma borgina.  En sem betur fór var Gústi kraftminni en Kata og allt mun í góðu lagi vestur þar.

Loksins fær liðið að pústa
því ljóst er hann varla mun rústa
Orleans borg
þó blási um torg:
Það er burt allur vindur úr Gústa.

Það blása líka frískir vindar um rebúblikana þessa dagana því nú er fundið varaforsetaefni.  McCain tilkynnti að hann hefði valið Söru Palin ríkisstjóra í Alaska til að vera sér við hlið. 

Gæinn er alls ekki galinn
hin geðþekka Sara var valin
Með skolleita lokka
skvísa með þokka
og skelegg er trúi ég Palin.

Greinilega hörkukvendi því hún eignaðist fimmta barn sitt í apríl og var mætt til vinnu þremur dögum síðar! 

Í erlendum fréttum er það einnig helst að Formúlukappinn Michael Schumacher var tekinn fyrir of hraðan akstur.  Hann var ekki á braut heldur á götu og fór víst vel yfir leyfileg mörk.  Nú fara fyrir lítið rök þeirra sem vilja koma upp kvartmílubrautum fyrir hraðakstursmenn svo þeir geti fengið útrás á þess að valda vegfarendum hættu.  Þessi gaur ætti að fá nóga útrás í vinnunni og þess vegna að geta ekið sómasamlega heim.

Í kollinum megið þér klór‘ yður
því hvimleiður er þessi ósiður;
að aka of hratt
og yfir mig datt
að iðki slíkt Mikael Skósmiður.


Stórasti dagurinn

Þá eru landsliðsmennirnir komnir heim og Þorgerður Katrín líka.  Ég sá hana reyndar ekki í sjónvarpinu í dag en það er ekkert að marka.  Ég verð að viðurkenna að þolinmæði mín við að horfa á beina útsendingu frá landsliðinu í Reykjavík er litlu meiri en þegar þeir voru í boltaleik í Bejing. 

En þar eins og víða annarsstaðar er ég ein á báti.  Fjölmiðlar segja að 30 þús. manns hafi hyllt sína menn í dag þrátt fyrir að hann gengi á með kröftugum rigningaskúrum.

Í borginni streymdu  um stræti
stuðningsmenn ærir af kæti.
Frá öllu var greint
í fjölmiðlum beint:
 - og allt út af öðru sæti!

Hvað hefði gerst ef þeir hefðu fengið gull?


Lendingar og vendingar

Enn ein hátíðin verður haldin í miðborg Reykjavíkur á morgun.  Þá koma handboltahetjurnar heim og landsmenn munu vafalaust flykkjast á strætin til að hylla sína menn.  Ég held nú að ég fari frekar út að skokka en það er þó aldrei að vita - ég fór í bæinn þann 17. júní, á Menningarnótt og að sjálfsögðu á Gay Pride.  Þetta verður reyndar svipað upplegg og á Gay Pride; flottir strákar á bílpalli, Páll Óskar að syngja og allir í stuði nema þá örgustu fýlupokar.

Einhverjum hugnast það eigi
ég ykkur í trúnaði segi:
Að lýðurinn fagni
liði á vagni
sem hommum á hinsegin degi.

Ég las viðtal við nýja borgarstjórann í einhverju sunnudagsblaðanna.  Það lýsti hún þeirri skoðun sinni að flugvöllurinn ætti að fara fljótlega því þar væri besta byggingarlandið (ef ég las rétt).  Í morgun vaknaði ég svo við að sami borgarstjóri var í útvarpinu að lýsa því yfir að flugvöllurinn væri ekki að fara neitt - að minnsta kosti ekki fyrr en eftir 2024. 

Nú les ég hinsvegar á mbl. að silfurverðlaunahafarnir eigi að lenda í Vatnsmýrinni á morgun.  Þar með hefur flugvöllurinn í eitt skipti fyrir öll sannað tilverurétt sinn meðal okkar óbreyttra og má alls ekki fara; það gætu fleiri verðlaunahafar þurft að nota hann í framtíðinni.

Nú vísum við bulli á bug öll
og baráttu-  fyllumst -hug öll:
Fyrir handboltalið
verndum sko við
í Vatnsmýri‘ að eilífu flugvöll.



Loksins, loksins

Ég leyni því ekki að þrátt fyrir bjartsýna daga með boltaleik hef ég áhyggjur af þjóðmálum.  Ég hef haft áhyggjur af vaxtaokri, verðbólgu og aðgerðaleysi í efnahagsmálum yfirleitt. 

En ekki lengur.  Fjölmiðlar greina nefninlega frá því að sjálfur Guðni Ágústsson hyggist taka á þessum málum.  Það var vonum seinna eftir stjórnarsetu í tugi ára en þá var vísast ekki lag.  Nú er lag og hann hyggur á gríðarlega fundaherferð um landið.  Hann verður í Borgarnes, Skagafirði og meira segja í Hraungerðishreppi og þá þarf nú ekki lengi að bíða eftir því að ástandið batni og velmegun aukist á ný.
 
É
g róleg á beð mínum blunda
uns bjartsýn til vinnu ég skunda
Allt mun nú blessast
og Eyjólfur hressast
því hann Guðni er farinn að funda.

Þetta og svo silfrið - betra verður það varla.


Gull og gersemar

Ég var svolítið dómhörð í limru gærdagsins.  Auðvitað finnst mér árangur landsliðsins frábær og gaman að því að  við skulum í það minnsta vera silfurverðlaunahafar á Ólympíuleikum.  Sama hvernig fer hefur þessi keppni verið mikil upplifun fyrir alla sem fylgst hafa með og henni og ekki spillir fyrir að möguleikar á gulli eru til staðar - að minnsta kosti í nokkra klukkutíma til viðbótar.

Við hógvær til morgunsins hlökkum
og handboltaveisluna þökkum.
En það er ekki bull
nú getum við gull
úr greipunum hrifsað af Frökkum.


Brauð og leikar

Enginn ræðir verðbólgu, vexti eða stöðnun á fasteignamarkaði á Íslandi í dag því í dag er boðskapurinn:  Hér erum við og við erum best!  Reyndar er ég nú ein örfárra sem ekki horfði á leikinn en vissi svo sem af gangi mála af og til.  Ég kom svo að skjánum þegar leikurinn var búinn og leikmenn voru farnir að skiptast á munnvatni og tárum.  Heldur væmið fyrir minn smekk:

Ég er hörkutól, frekja og frenja
og finnst þetta hvimleið venja:
Þegar lokið er leik
fer liðið í sleik
og Ólafur greyið að grenja.

En auðvitað óska ég þess eins og aðrir að þeir taki frakkana á sunnudagsmorguninn milli mjalta og messu.




Mannaval

Í dag rættist langþráður draumur ungrar íhaldskonu í Reykjavík.  Hún var gerð að borgarstjóra eftir mikið japl og jaml og fuður.  Skrípaleikurinn náði svo hámarki þegar framsóknarmenn voru að innheimta launin fyrir meðleikinn.  Þeir eru svo fáir að það lá við að þeim tækist ekki að manna þau embætti sem þeir fengu í sinn hlut:

Í framsókn menn leituðu lon og don
og loksins fannst Guðlaugur Sverrison
í fjórtánda sæti
seggurinn mæti
er telst núna B - listans björtust von.

Þetta var nú samt ekki það hallærislegasta sem gerðist í dag.  Enn verra er að hlusta á glókollinn Gísla Martein útskýra að það sé ástæðulaust að mæta á alla fundi borgarstjórnar - það geri enginn.  Ekki mikið þó árangurinn sé ekki upp á marga fiska ef borgarfulltrúar líta á starfið sem einhverja aukastærð sem hægt sé að sinna í hjáverkum.

Í söfnuði Hönnu‘  upp til hópa
helbera finna má glópa:
Sig þessir stæra,
kollótta kæra
og kjósa á fundum að skrópa.


Erfiðar ákvarðanir

Nú eru skólar að byrja og mikið að gera hjá þeim stóra hluta þjóðarinnar sem kemur að skólamálum; nemendum og foreldrum þeirra fyrst og fremst en auðvitað líka kennurum og öðrum starfsmönnum menntakerfisins. 

Einn er þó stikkfrí:  Meðan kennarar velta fyrir sér stundatöflum og námsefni og foreldrar og nemendur fara með greiðslukortin og innkaupalistana í búðir hefur menntamálaráðherra þær áhyggjur helstar að hún þurfi aftur að fara til Kína að góla á handboltastrákana okkar.  "Sem yfirmaður íþróttamála finnst mér eðlilegt að maður fylgi þeim eftir, og það er bara hlutur sem ég er að skoða,“ segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra. 

Ég tel líklegt að litlu það breyti
um lognmollu í ráðuneyti
þó hún stormi til Kína
stuðning að sýna
í stað þess að senda þeim skeyti.


Á morgun verður haldinn mikill fundur í borgarstjórn.  Þá verður einu sinni enn skipt um borgarstjóra og einu sinni enn eru borgarbúar fúlir og argir yfir ruglinu.  Síðast mættu ungliðar stjórnmálaflokkanna (nema auðvitað íhaldsins) á pallana og bauluðu. Nú hefur hinsvegar Óskar frammari sýnt hvað hann er snjall.  Í útvarpsauglýsingu skorar hann á framsóknarmenn að mæta á pallana og tryggir þar með að aðrir láta ekki sjá sig þar.  Hver vill svo sem eiga það á hættu að vera álitinn framsóknarmaður?  Þetta verður því mikil hallelúja samkunda með Hönnu Birnu, Villa, Óskari og öllum framsóknarflokknum.

Þar ríkja mun kjarkurinn, kætin
og hverfandi verða þar lætin;
því framsókn mun alla
fylla þar palla;
já þeir taka öll  sextíu sætin.

Það verður ekki baulað á Hönnu Birnu í þetta sinn - ónei.




Hitnar í kolunum - fyrir alvöru

Í dag tók þinghúsið í Kaíró að brenna.  Það varð sem betur fer ekki manntjón en einhverjir hlutu reykskaða.  Ekki er getið um eldsupptök en nærtækt er að ætla að hitnað hafi í kolunum.  Í framhaldi af því er svo hægt að gleðjast yfir góðum brunavörnum í ráðhúsi okkar Reykvíkinga og ekki síður því hve duglegir borgarfulltrúar hafa verið að æfa sig í brunastigunum upp á síðkastið.

Í ráðhúsi fylgjumst með rolunum
rífast um aðgang að molunum.
En í Egyptalandi
er allmeiri vandi
því þar hefur kviknað í kolunum.

Samstaða sjálfstæðismanna í borginni er ekki upp á marga fiska frekar en endranær.  Nú skamma þeir Gísla Martein - ekki fyrir að yfirgefa sökkvandi skip heldur fyrir að ætla sér að koma til baka af og til og hjálpa til við austurinn.  Sveinn Andri er hneykslaður í einhverju blaðinu í dag en það er nú maður sem enginn vill fá á móti sér og því á Gísli á samúð mína alla.

Nú Gísli er greyið í klandri
því grimmur er Sveinn við hann Andri.
Sig tjáir í frétt
og telur ei rétt
að vera á flakki og flandri.


Fjórðungsdómur

Það beið blaðabunki þegar ég kom heim úr helgarferð í sólina (norður).  Ég leit á bunkann og efst var Fréttablaðið með mynd af Hönnu Birnu og Skara og fyrirsögninni:  Meiri steypa.

Þau samninginn  tjasla og teipa
og telja‘ okkur við því gleypa.
En býsna var rétt
forsíðufrétt;
með  fyrirsögn  „Meiri steypa“

Þegar nánar var að gáð var þetta ekki fréttaskýring við myndina heldur óskyld frásögn af því að þrátt fyrir samdrátt í þjóðfélaginu hefði selst meiri steypa í ár en í fyrra. 

En það breytir því ekki að þrautaganga þeirra skötuhjúa er rétt að byrja.  Fréttablaðið í dag sagði frá skoðanakönnun sem ekki er beinlínis hægt að segja að hafi verið þeim uppörvandi:  25% stuðningur.

Þau byggja á  óskhyggju og órum,
oflæti og metnaði stórum
En manið það ljósa
og karlangann kjósa
ætlar sér  einn af  fjórum.




« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Limruleikur

Höfundur

Jóna Guðmundsdóttir
Jóna Guðmundsdóttir
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband