16.8.2008 | 23:46
Lok í roki
Í dag vann Óli F. að líkindum sitt síðasta verk sem borgarstjóri. Hann mætti fölur og fár og klippti á borða við enduropnun Skólavörðustígs sem hefur verið lokaður vegna viðgerða í allt sumar. Það var rok og rigning á myndum sjónvarpsins og ekki virtust margir mættir að fylgjast með borgarstjóra sínum.
Í skjólin er flest öll fokið
og ferlinum telst nú lokið.
Á borðann hann klippti
öxlum svo yppti
og hvarf út í regnið og rokið.
Ég tek mér hér skáldaleyfi og læt hann rölta út í rigninguna sem er svona íslenskt tilbrigði við lokaatriði kúrekamynda þar sem hetjan ríður inn í sólarlagið.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.8.2008 | 23:38
Bull, þvæla og vitleysa
Veraldargengi er valt
og veit nú hvað mest um það allt
Óli, hvern særðu
þau sömu og hann mærðu
og í sárin nú láta þau salt.
Þjóðin fylgdist agndofa með bullinu í dag en það kom mönnum svo sem ekki á óvart að Framsókn skyldi selja sig eina ferðina enn.
Megn er af málinu stækja;
maddaman kemur sem hækja
íhaldsins enn
og aftur sjá menn
að Framsókn er drusla og dækja.
Nú er bara spennandi að sjá hvað þeir selja sig dýrt. Eitt virðist þó augljóst: Alfreð kemst til valda að nýju í orkuveitunni. Hann var kampakátur í sjónvarpinu í kvöld enda sigurvegari dagsins.
Klárlega augljóst vér ötlum
að æst sínum fleygi nú pjötlum
Framsókn til þess
að frískur og hress
Alfredo kjöt- ráði -kötlum.
Í þessari síðustu limru er endarímið tekið ófrjálsri hendi - að ég held frá Kristmanni Guðmundssyni en það getur verið misminni mitt?
Ég er annars komin norður á Akureyri og ætti kannski að heilsa upp á bæjarstjórann hér, Sigrúnu, og sækja um pólitískt hæli?
Það er ekki langt frá ég æli
en ógeðið niður ég bæli:
Sæmst mér nú væri
til Sigrúnar færi
og sækti um pólitískt hæli.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.8.2008 | 23:23
Einu sinni á ágústkvöldi...
Síðasti laugardagur var mikill brúðkaupsdagur. Pör gengu unnvörpum saman í hjónaband (hjónabönd?) en aðdragandinn var þó mislangur. Þannig var fólk í tjaldi á Tálknafirði sem ákvað að það vildi ekki lifa lengur í synd og skelltu sér til prestsins. Þau voru í lopapeysum og gúmmískóm en ég spái því að hjónabandið eigi eftir að endast betur en mörg önnur. Hjónin eiga örugglega oft eftir að flissa yfir dagsetningunni og uppátækinu:
Síðar ef þrasa og þrátta
þeirra mun leiðin til sátta
dagsetning sú
er fröken varð frú:
08 08 08
Borgarstjórnarmeirihlutinn hefur verið í fjölmiðlum dagsins. Sjálfstæðismenn leita nú leiða til að losna við Óla sem er í banastuði daga og ekki síður nætur ef marka skal Fréttablaðið. Gísli Marteinn virðist búinn að fá nóg og ætlar að hafa vetursetu í Skotlandi.
Eitthvað þarf efalaust að sýsla
þó illgjarna heyri ég hvísla
að Hanna hin firna
fúllynda Birna
á flótta hafi rekið hann Gísla.
En svo féttist að hann ætlaði í nám. Hann er búinn að vera í 10 ár (?) að klára BA ritgerð en ætlar sér svo ár í MA - með hléum því hann ætlar að fljúga heim á fundi borgarstjórnar - hræddur um sætið að sjálfsögðu.
Menn segja hann Gísla geyst fara
að glíma við nám til meistara
því með titilinn B
A tæplega sé
en líklegast verður það leyst bara.
Auðvitað fer drengurinn létt með að klára BA ritgerðina fyrir haustið....
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.8.2008 | 23:09
Lasinn, veikur, dauður.
Nú held ég að ég sé komin í bloggheima að nýju og það verður bara að koma í ljós hvert úthaldið er. Þegar ég bloggaði síðast hélt ég mig vera með fuglaflensu eða bráðaberkla en sem betur fer er heilsufarið gott. Ég fór meira að segja út í garð í dag og tíndi ber sem nú eru orðin rifsberjahlaup í krukkum.
Ég er ekki allskostar dauð
en andlega galtóm og snauð
Þó aðeins ég rétt
áðan tók sprett
er rifsberja-sultu ég sauð.
Ég er auðvitað jafn bjartsýn og aðrir landsmenn eftir sigur "strákanna okkar" í Bejing, þó ég hafi nú ekki haft rænu á að kveikja á sjónvarpinu í dag. En þetta er glæsilegt - ennþá að minnsta kosti, þó ég efist nú einhvern veginn um að gullið sé í höfn.
Nú ljósið tók loksins að skína
og liðsheild þeir mynduðu fína
Snorri og hinir
handboltavinir
sem kasta nú bolta í Kína.
Það er ekki alveg eins gaman að fylgjast með sundfólkinu: 49. sæti af 64 keppendum, 38 sæti af 52 keppendum og svo framvegis.
Með kínverjum eitt sinn ég undi
(án þess að bragða á hundi).
En lagin komst hjá
að láta þá sjá
hve léleg við erum í sundi.
Það gladdi mig þegar ég var stödd í fjarlægri heimsálfu hér um daginn að fá fyrirspurn frá bloggvini um hvað hefði orðið af mér. Ég gat ekki svarað því tölvarn sem ég var í bauð ekki upp á það en mér hlýnaði um hjartarætur.
Ég framtíð tel síst vera svarta
ef svoddan höfðingjar kvarta
er fer ég í frí
og fagna ég því
af auðmjúku og einlægu hjarta.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.6.2008 | 00:40
Heilsufar aldraðra
Heilsufars- hrjáir mig -vandi
ég er hás og í lélegu standi.
Úr þarf að skera
en ég ætla það vera
einkenni á miltisbrandi.
Ég var að sjálfsögðu of veik til að geta bloggað um þessi sjúkdómseinkenni í gær. En í morgun leið mér betur og er eiginlega viss um að þetta sé frekar kvef en berklar eða miltisbrandur.
Víkur þá sögum að gamlingjanum Hugh Hefner. Hann heldur sem kunnugt er lítið kvennabúr með ungpíum til að leika sér að/við. Nú kvartar hann yfir bakverk - eins og svo margir aðrir á hans aldri.
Með þrjár er hann telpur í takinu
að tuskast og kela á lakinu:
Ekkert þó fær
fyrir æfingar þær
nema endemis verki í bakinu.
Hann ætti kannski að fara að minnka við sig.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.6.2008 | 23:31
Þjónar, rónar og dónar
Í krampakenndum ákafa Óla F við að reyna að öðlast fylgi meðal borgarbúa vekur athygli tilvera hinna nýju "miðborgarþjóna". Þeirra hlutverk er mér ekki alveg ljóst en af fréttum helgarinnar virðast þeir eiga að ganga um með vatnsbirgðir og plástra. Það hefur reyndar ekki verið á margra vitorði að ólætin í miðborginni stafi einkum af skorti á heftiplástri en ef svo er ætti málið að vera auðleysanlegt.
Þeim ribböldum, fautum og rónum,
rustum, þrjótum og dónum,
er æða um stræti
með öskur og læti,
finnst Ólafi þörf að við þjónum.
Ég er hinsvegar ósátt við að kalla plástramennina þjóna. Mér finnst eitthvað svo undirlægjulegt við það heiti. "Hei, þjónn - komdu með vatn og plástur hér inn í sundið eins og skot" eða "Þjónn - hálfan lítra af vatni með klaka".
Hvað með að kalla þá Sukkliða? Djammstoðir? Svallsveitarmenn? Eða er kannski best að þeir heiti bara Stuðmenn?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.6.2008 | 00:20
Fitubollublogg
Í dag hef ég verið að lesa mér til um óperusöngkonuna Deborah Voigt. Hún söng hlutverk Ariadne of Naxos í Covent Garden í fyrrakvöld, fjórum árum eftir að henni var neitað um hlutverkið vegna þess að hún þótti of feit. Í dag er hún fín í laginu enda sagt að hún hafi misst fjörutíu kíló á þessum fjórum árum. Myndasafn á netinu staðfestir að hún hafi verið orðin ansi þétt og því er gaman að hún skuli hafa náð þessum árangri.
Stöðugt hún þyngdist og þéttist
þar til að uppsögnin fréttist.
Nú fljótt maður sér
að hún flottari er
því um fjörutíu kíló hún léttist.
Mér finnst hinsvegar merkilegt að lesa blogg fólks um fréttina á mbl. í dag. Þar eru allir hneykslaðir á að hún skuli hafa verið látin róa á sínum tíma og jafn hissa á því að hún skuli kæra sig um að syngja aftur í London. Mér finnst það hinsvegar lýsa þroska og vona að listakonunni takist að halda sér í formi sem lengst.
Man annars enginn eftir Guðrúnu Á Símonar og Sigulaugu Rósinkrans?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.6.2008 | 23:24
Björn Skagan
Fréttir dagsins voru endurtekið efni; hvítabjörn kominn á land á Skaga. Nú eru allir að reyna að bregðast rétt við - jafnt löggur, bændur, blaðamenn og ráðherrar. Fyrsta sem mér datt í hug var að allt færi sem fyrr og forvitnin í Skagfirðingum dræpi þennann bangsa eins og bróður hans um daginn.
Umferðin úti á Skaga
aukast mun komandi daga
uns aumingjans björn-
inn asnast í vörn
og menn drepann án dóms og laga.
En þá fóru að berast fréttir af því að íslenskir bankamenn sem enn eiga aura hefðu ákveðið að koma bangsa til bjargar. Það er lítil og sæt auglýsing og örugglega betra en aðrar og hefðbundnari auglýsingar.
Í hendingu leita hófa fór
enda hagkvæm auglýsing, lófastór.
Án þess að hangsa
bjargar nú bangsa
Bjöggi og félag hans Novatór.
Gott þegar vextirnir og þjónustugjöldin fara í eitthvað af viti.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.6.2008 | 23:50
Bíladagar
Fyrir norðan er alþýðan ill
því ónæði gerir þar skríll
Það sóðalegt er
saman þá fer;
pyttla og plebbi og bíll.
Það hljóta að vera aðfluttir Akureyringar sem standa fyrir þessu bulli?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.6.2008 | 23:36
Réttdræpur
Hafi einhver verið í vafa um að bangsinn í Skagafirði hafi verið réttdræpur taka fréttir í dag af allan vafa: Hann var grænmetisæta! Krufningin sýndi að í maga hans vorut tómar plöntuleifar. Þetta er klárlega móðgun við skagfirska fjárbændur og skagfirsk hross og skiljanlegt að við viljum ekki sjá svona ferðalanga.
Við þurfum að gefa því gætur
svo getum við sofið um nætur
að lögreglulið
losi okkur við
grænslenskar grænmetisætur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Limruleikur
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar