11.6.2008 | 23:13
Erlendar fréttir
Í erlendum fréttum er það helst að leikarinn Georg Clooney (hjartaknúsari úr ER í gamla daga) sagði upp vinkonu sinni til tveggja ára í vikunni. Ástæðan mun vera sú að hún fór í brjóstastækkun að honum forspurðum. Ekki veit ég hvað hann hefur á móti stórum brjóstum en maður getur þó látið sér detta ýmislegt ú hug:
Það sást þegar fötum hún fækkaði
hvað hún fríkkaði er barmurinn stækkaði
en ekki fannst gaman
Gogga að þeim saman-
burði því böllurinn smækkaði.
Annað sem ég las í dag i mbl. er að það er "auðveldara að skjóta í útlöndum". Kemur mér ekki á óvart. Ég er þeirrar skoðunar að það sé allt betra í útlöndum; veðrið, verðið, maturinn og að ekki sé talað um evruna sem er víða að finna erlendis.
Ef villibráð helst viltu hljóta
og hennar á jólunum njóta
þá farðu úr landi
því lítill er vandi
í útlöndum skepnur að skjóta.
Það stóð reyndar ekkert um að það væri auðveldara að hitta - sennilega væri ég jafn óhittin þar og hér.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.6.2008 | 23:31
Skattalöggan
Mér sýnist að í Ungverjalandi glími menn við mál sem tekur öðrum fram, meira að segja Baugsmálinu. Skattheimtumenn þarlendir eru að taka út klámmyndaframleiðanda og þurfa af því tilefni að horfa á gífurlegt magn af framleiðsluvöru hans til að meta hvort rétt hafi verið talið fram. Auðvitað kvarta þeir.
Í vinnunni stöðugt menn stríða
og stressi það veldur og kvíða.
Af auðmjúku hjarta
ungverskir kvarta
því skatturinn skyggnast þarf víða.
Stöðugt þeim stendur - til boða
strípaða leikara að skoða,
en þó að í bráð
það reynst geti ráð
í lengd veldur deyfð bæði og doða.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.6.2008 | 23:13
Leikir og fléttur
Það var fámennt á stígum borgarinnar þegar við hjónin fórum í hjóltúr um kvöldmatarleytið. Ástæðan mun hafa verið sú að menn sátu inni við og horfðu á Makedóníumenn busta handboltaliðið sem við í síðustu viku kölluðum "strákana okkar" en köllum nú skussa.
Þeir reimuðu í skyndingu skóna
er á skjáinn menn tóku að góna.
Ekki var félegt,
ástand og lélegt
og þeir unnu ekki Makedóna.
Í gær dró hinsvegar til tíðinda í borginni. Enn einu sinni kallaði borgarstjórnarhópur Sjálfstæðisflokksins á ljósmyndara til að mynda fjall með jóðsótt. Nú var það trúðurinn Villi sem sagði það sem allir vissu: "Ok - ég gefst upp, Hanna Birna má vera borgarstjóri mín vegna". Hún brosti þakklát enda búin að þrauka lengi. Og svo gaf Vífill öllum kampavínið sem hann var búinn að kaupa í þeirri von að Villi ætlaði honum stólinn.
Þorrann og góuna þreyði hlín
þó oft henni byrgði reiði sýn.
Nú uppskar með fífli
veislu hjá Vífli
sem veitt af rausnarskap freyðivín.
En nú þarf frúin ekki að byrgja reiðina inni lengur og getur farið að gelta á sitt fólk og okkur öll.
Bloggar | Breytt 9.6.2008 kl. 08:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.6.2008 | 23:30
EM á íslenskum heimilum
Ná kallinn í sófanum situr
sérdeilis fróður og vitur;
sig tjáir um spörk
og spáir í mörk
meðan frúin er fúllynd og bitur.
Reyndar er þetta ekki algilt. Á mínu heimili er bóndinn jafnvel enn áhugalausari um fótbolta en ég er og sömuleiðis hef ég frétt að á sumum heimilum séu það konurnar sem sitji yfir öllum boltaleikjum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.6.2008 | 23:58
Fastir liðir að venju
Það er ýmislegt nýtt í fréttum þessa dagana en að bangsa frátöldum er samt eins og við höfum heyrt allar fréttirnar áður.
Hér er fjöld hinna föstu liða:
Það er fundin í sauðfé riða.
Svo er rigningarspá
og verðbólgu vá
og fyrir austan er skilnaðaskriða.
Skilnaðir fyrir austan eru þó nýtilkomnir og munu fylgifiskar álvers og umsvifa ef marka má fréttir Sjónvarpsins í kvöld.
Þó er fréttin um viðbyggingu við geimstöðina stóru ekki alveg fastur liður. Ég skannaði fréttina í hvelli og sá mér til gleði að með viðbyggingarpakkanum komu varahlutir í klósettið sem er búið að vera bilað hjá þeim í margar vikur. Það var ekki skrítið þó að geimfarinn Hoshide væri glaður þegar hann talaði til jarðar í dag.
Úr helju er Hoshide sloppinn
og fer hamingjustraumur um kroppinn;
viðgerð er frá
og fljótlega þá
langþreyttur kemst hann á koppinn.
Ég veit ekkert um geimferðir og veit ekki og vil ekki vita hvernig málin hafa verið leyst þessar klósettlausu vikur en samgleðst bara Hoshide blessuðum.
Bloggar | Breytt 5.6.2008 kl. 13:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.6.2008 | 23:34
Dýravinir
Heldur eru hallærislegar fréttirnar úr Skagafirðinum í dag. Skagfirðingar fundu hvítabjörn en voru svo hræddir um að týna honum aftur að þeir flýttu sér að drepa hann. Engin tilraun var gerð til að ná dýrinu lifandi en ekki er nú á hreinu hver fyrirskipaði drápið - sennilega yfirlögregluþjónninn sagði einhver óbreyttur. Mér segja hinsvegar skyldmenni Þórarins bónda í Keldudal að það sé af og frá að hann hafi átt þátt í að kála bangsa þó hann hafi fundið hann fyrstur manna:
Hann Þórarinn fyrstur fann hann;
þó fráleitt á skepnunni vann hann.
En löggur ei hangsa
þær bönuðu bangsa
og bendir nú hver þar á annan.
Myndir af þessu voru heldur ógeðfelldar; ringlað dýr og soltið, fjórir byssumenn í ham og hundrað bíla strolla að reyna að sjá eitthvað eða að minnsta kosti að heyra skothvellina.
Það bjánaskap sýnir og bresti
er með byssur í skotfæravesti
menn æddu um sveitir
æstir og heitir
og erlendum sálguðu gesti.
Hefði ekki bara mátt gefa honum að éta hrefnukjöt?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.6.2008 | 23:29
Fyrsti júní
Nú er einstæður kallinn hann Clooney
og hvassviðri borginni núna´ í
en samt er ég sátt
í suðvestan átt
því um síðir er kominn hér júní.
Svo gleður auðvitað alla andstæðinga íhaldsins að fylgi þeirra er í sögulegu lágmarki í borginni.
Skoðanakannanir kynna
að hverfandi sé; aldrei minna
fylgið við í
hald, fagna ég því
og fer út í garðinn að vinna.
Eða nei annars - það var of hvasst svo ég hætti við það og fór að lesa mbl.is. Þar er vitnað í dómsmálaráðherra sem mér skilst að haldi því fram að varalið hefði komið að gagni í jarðskjálftunum?
Guð mér að hjálpa ég bara bið
frá Birni og þessháttar skara. Við
þurfum ei löggur
þó komumst í kröggur
og viljum því alls ekkert varalið.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
31.5.2008 | 00:20
Skjálfandi - en ekki úr kulda
Ég var ber þegar landskjálftinn mikli reið yfir í gær. Ekki er það nú vegna þess að ég sé vön að svala strípiþörf minni klukkan 15:45 virka daga - heldur var ég búin að sinna garðverkum um stund og fór úr skítagallanum og var á leið í hreint þegar veggirnir tóku að hristast.
Í mínútu meira en hálfa
ég minnti á algeran bjálfa:
Hoppaði um ber
heima hjá mér
og horfði á veggina skjálfa.
Svo gerði ég auðvitað eins og allir vita að þeir eiga að gera - forðaði mér út. Stendur það ekki í símaskránni? Það stendur ekki að maður eigi að klæða sig fyrst svo ég klæddi mig bara úti og sem betur fer var veðrið gott - ég skalf að minnsta kosti ekki úr kulda.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
28.5.2008 | 23:05
Líf og fjör á lokametrunum.
Eins og alltaf er heilmikið um að vera á Alþingi síðustu dagana fyrir sumarfrí. Allt í einu mæta allir og vilja láta taka eftir sér. Ég verð nú að viðurkenna að ég fylgist ekki stíft með en ég las þó í blaði að utanríkismálanefnd hefði samþykkt tillögu Katrínar Jakobsdóttur um aðbúnað fanga í Guantanamó. Það var bara of mikil áskorun að fá þetta í rím - og þrátt fyrir það sem kemur fram í limrunni held ég að þetta sé þörf ályktun:
Ég tel ekki að vitið vantana þó
hún verði að slípaf sér kantana. Nóg
er búin að rausa
um að láta þá lausa
sem í lúxusnum dvelja í Guantanamó.
Annað mál sem vekur óskipta athygli allra eru símhleranirnar sem komið hefur á daginn að stundaðar voru hér á dögum kalda stríðsins. Björn dómsmála á aldrei eftir að biðjast afsökunar enda væri hann vafalaust til í smáhleranir núna - það gæti lífgað upp á gráa tilveruna. Helgi Hjörvar spurðist fyrir um málið á þingi og báðum er málið skylt, pabbi Björns var að hlera símann hjá pabba Helga.
Björn ekki hænufet hörfar
þó honum á skelli nú örvar:
Kórrétt mun vera
kommana að hlera
einkum ef heita þeir Hjörvar.
Og svo fara þingmenn út í sumarið með eftirlaunafrumvarpið óafgreitt. Lélegt.
Þingið sér kom undan þungri raun
og þráan af málinu leggur daun:
Frestuðu enn
að fást eins og menn
við frumvarp um ósóma eftirlaun.
Enda stóð það kannski ekkert til?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.5.2008 | 23:48
Nýr og betri maður?
Ég varð vitni að skemmtilegu atviki í kvöld. Það var verið að sýna frá Alþingi í sjónvarpinu (áður en hinar drepleiðinlegu eldhúsdagsumræður byrjuðu) og einhver stjórnarandstöðuþingmaður kvartaði yfir því að í landinu sætu tvær ríkisstjórnir; með og á móti hvalveiðum, með og á móti evrunni, með og á móti álverum og virkjunum og svona taldi hann áfram. Þetta sagði hann óþolandi ástand. Geir kom þá í pontu og sagði að viðkomandi þingmaður gæti nú ekki kvartað; hann þyrfti bara að velja hvorri stjórninn hann ætlaði að vera á móti. Þetta kætti mig og þingheim og allir flissuðu.
Í kvöld varð ég heilmikið hissa
en heppin að skyldi ekki missa
af atviki því
þinginu í
er þingmenn að Geir tóku að flissa.
Ég man ekki til þess að ég hafi heyrt Geir sýna á sér spaugsama hlið fyrr - en ég man nú reyndar ekki margt og hlusta sjaldan á hann.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Limruleikur
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar