Verðbólguskot

Það er merkilegt að nú á dögum heitir verðbólga ekki verðbólga heldur verðbólguskot.   Eins gott að þetta skot lendi ekki í  ráðherra - það getur komið fyrir bestu menn að skjóta sig í fótinn....

Þótt stýrið sé beyglað og brotið
og brátt geti skútan ei flotið
furðu Geir vekur
er fjasa hann tekur
um skammvinnt verðbólguskotið.




Við vinnum næst

Ég ætla ekki að skrifa um Evróvision en bara að fullyrða að við sækjum gull í greipar Rússa að ári - ekki satt.


Ég er hinsvegar miður mín yfir miðborgarstjóranum nýja sem samkvæmt einhverju blaði sem ég las í gær skuldar fjóra og hálfa milljón í skatta.  Getur þetta verið?  Hvernig fara menn að því að gleyma að borga svona upphæðir....?

Ég er ekki finnst mér að fatta
hvað fyrir vakir þeim skratta
og óreiðupésa
en ég var að lesa
að milljónir skuld‘ann í  skatta.

Sigur í höfn...

Er ekki bara formsatriði að keppa á morgun?  Fimmtudagurinn er vísir þess sem koma skal.  Loksins féllu dómar Evrópu okkur í hag og vonandi að svo verði aftur í kvöld.

Réttlátir reyndust nú dómar

er Regína‘ og Friðrik Ómar
„This is my life“
kyrjuðu kræf
og í kvöld það á sviðinu hljómar.

Mér skilst á Mbl. að þegar séu menn farnir að gera áætlanir um framkvæmd keppninnar hérlendis ef og þegar við vinnum.

Ef ánetjast Evrópa smellinum
er auðvelt að redda í hvellinum
stað fyrir keppni;
fyrir helbera heppni
eigum herstöðva-góssið á Vellinum.

Enn og aftur kemur Kaninn okkur til bjargar.


Það sem helst hann varast vann...

...varð þó að koma yfir hann - sagði Hallgrímur sálugi um Pílatus.

Eða var það um Einar Guðfinnsson?  Hvað á maður að halda þegar hann segir að honum hafi ekki verið stætt á öðru en að gefa út hrefnuveiðikvóta!  Skítt og laggott með það þó enginn vilji hrefnuna og skítt og laggott með þessa milljónir sem er verið að ausa í framboð til Öryggisráðs SÞ.

Hann Einar á ræfillinn
ekkert val
yfir hann þetta koma skal:
Hann verður sem fyrr
þó standi‘ um það styr
staffírugur að veiða hval.

Svo var frábært að heyra í kvöldfréttum að verð á matvörum er 64% hærra hérlendis en í ESB.  Passar vel í kjölfarið á Valhallarumræðunni sem segir "Ég tel að okkur sé betur borgið utan ESB" ... og svo framvegis.

„Það ábati er ekki nokkur
af  ESB“ Sjálfstæðisflokkur-
inn sannfærir menn
og mælist því enn
matvaran dýrust hjá okkur.

En hvað eru svo sem 64% milli vina?


Í helgarlok

Heldur er nú fyndið að fylgjast með fundaröðinni sem er haldin í Valhöll um helgar nú í vor.  Fyrir viku mætti BB og sagði að ESB væri kjaftæði og nú ákvað Haarde að jarma með honum:  Ég vil alls ekki heldur ganga í þetta ljóta bandalag var hans boðskapur. 

Konan í flokknum, Þorgerður Katrín (eru þær annars fleiri?)  ákvað að stríða strákunum aðeins og sagðist vilja umræður og jafnvel þjóðaratkvæði.  Uss og fuss. 

Hol- okkur skellur á –skefla
er í skelfingu íhaldsmenn tefla:
Meðan Haarde og Björn
eru báðir í vörn
vill  Þorgerður umræður efla.

Nú hamast hún reyndar við að draga í land og fær sennilega að predika um næstu helgi og segja okkur að hún vilji ekki heldur þennan ósóma.

Annars er það gott að frétta úr Guðs eigin landi að þar er Barrak vinur okkar O-Bama farinn að beina spjótum sínum að þeim sem eiga að vera andstæðingarnir - nefninlega repúblikanar og hættur að sparka í Hilary.  Sennilega er hann oriðn svo viss um útnefningu að hann telur þetta óhætt.

Greinilega er brautin bein
í blaðinu mátti lesa grein:
Nú komin er stundin,
stefnan er fundin:
„Barack hjólar í Bush og Cain“

Og nú er bara að fara að telja niður í júróvísjón!

 

Góðar fréttir

Það voru mest góðar fréttir í fjölmiðlum í dag - svona af innanlandsvettvangi að minnsta kosti.  Ingibjörg Sólrún ætlar að taka á eftirlaunaósómanum og vonandi tekst henni það.  Það var nú reyndar rifjað upp að þingmenn allra flokka stóðu að þessum ósóma en breytir svo sem engu:  Batnandi mönnum er best að lifa var sagt í mínu ungdæmi. 

Hvort Dabbi er einn af þessum batnandi mönnum skal ósagt látið en gaman væri ef hann neyðist til að hætta í bankanum til að verða ríkur ellibelgur.

Það gæti við Davíðs komið kaun
og karlinum valdið sárri raun
Ef felld verða‘ úr gildi
- fyrir guðsnáð og mildi-
lögin  um ósóma – eftirlaun.

Önnur góð frétt var af skoðanakönnun sem fellir sitjandi meirihluta í borginni með skelli - Ólafur komst ekki einu sinni á blað.  Verst að aldrei er kosið á réttum tíma......

Í borginni línan er býsna sterk
og bloggari laus er við hjartaverk
þó íhaldið  tapi
og Ólafur hrapi
það tíðindi verða‘ að teljast merk.


Allt í plati

Bústaðarbloggið hér á undan var allt í plati.  Jú ég fór í bústað og jú, ég var tölvutengd en bloggsendingin tókst ekki þrátt fyrir margar tilraunir.  Pistillinn var því sendur þegar aftur var komið til byggða.

En í framhaldi af pælingunum um æskulýðshöllina sem breyttist í Flugleiðahótel þá heyrði ég að þetta væri allt runnið undan rifjum Finns Ingólfssonar.  Ég gat ekki sagt að mér væri brugðið - einhvern veginn passar það alveg við annað í þessum farsa.n

B
rugðið mér er ekki‘ í sinni‘ um sinn
en samt er óþarft að kynna minn
heimildarmann
er herma það kann
að bak þessu megi finna Finn.

 


Bústaðarblogg

Þetta er tilraun. Ég er stödd í bústað og við erum í fyrsta skipti nettengd þar - í gegnum gsm síma. Því miður er kerfið hægvirkt og allt með heldur fornum blæ - minnir á þegar maður tengdist í gegnum fyrstu modemin hér á árum áður.

Það er auðvitað við hæfi að hlutir séu með forneskjulegum hætti í bústað - enda er húsið yfir 100 ára gamalt og brakar og brestur í hverri fjöl. Það var þess vegna alveg í takt við umhverfið að hlusta á fréttir RÚV í gærkvöld um æskulýðshöllina sem ungmennafélög landsins ætluðu að byggja við Tryggvagötu. Ég gat ekki betur heyrt en að þarna væri loks komin höllin hennar Uglu í Atómstöðinni og ekki seinna vænna:

Hugmyndin finnst mönnum firna snjöll
og fabúlera um víðan völl:
Vert er að tryggja
velsæld og byggja
ungmennum landsins undrahöll.

Í fréttinni sem ég er að vitna í var líka sagt að þarna væri gert ráð fyrir að fólk gæti komið að loknum vinnudegi - farið í bað og átt notalega kvöldstund? Mér hlýtur að hafa misheyrst?

Fréttinni hlessa ég hleypi að
en hugsa að alls enginn gleypi það
né þörf sjái ríka
fyrir ráðagerð slíka
að reisa alþýðu steypibað.

En sem betur fer virðast alvöru kapítalistar komnir í málið og á þessari lóð (sem borgin gefur ungmennafélögunum) mun verða reist enn eitt hótelið merkt New Icelandair eða hvað það er sem Flugleiðir heita þessa stundina.....


Úps - I did it again....

... sleppti því að blogga heilmarga daga þrátt fyrir góðan ásetning. 

En við svo búið má ekki standa - og ekki liggur Óli á liði sínu - alltaf eitthvað nýtt af honum.   Honum er enda ekki stætt á öðru en að halda sig í sviðsljósinu áður en Sjálfstæðismenn valta yfir hann og flytja upp á Hólmsheiði eða út í Löngusker.

Það líður hjá Láfa á  tímann
og ljóst er að harðnar nú glíman.
En hjálpin er næst
þá  neyðin er stærst:
Hann krækti í Kobba Frímann.

Borgarstarfsmönnum finnst þessi ráðning samt argasta bull og mótmæla hástöfum - ekki síst vegna launanna sem Frímann á að fá; hann toppar víst flesta sem þar hafa stritað árum saman.

Nú Óli á Æra-Tobba
einna helst minnir - og bobba
hann kemur sér í
með klúðrinu því
að ráða í Ráðhúsið Kobba.




Lundúnafréttir

Lundúnafréttir voru fastur liður á dagskrá útvarpsins á síðustu öld.  Það var Axel Thorsteinsson sem sagði þær um helgar að mig minnir.  Þær hafa ekki heyrst lengi og hann er líklegast allur blessaður?

En það var Lundúnafrétt  mbl. í dag:  "Keyptu gamalt bakarí".  Þarna var um að ræða meðlimi hljómsveitarinnar Coldplay sem keyptu (eða leigðu) hús í London sem fram kemur í fréttinni að þeim þykir alveg sérlega ljótt.  Skrýtið - afhverju skyldu frægir hljómsveitagaurar vera að leigja forljót hús þegar þeir geta verið að kaupa sportbíla og leigja svítur?

Fasteignir ljótar og lakar í
London eru og makar því
krókinn sá Breti
sem liggur í leti
og leigir hljómsveitum bakarí.

Önnur frétt frá Lundúnum er að þar hafa rannsóknir sýnt að tölvulyklaborðin eru skítugri en klósettsetur.  Bakteríur eru sagðar fleiri á lyklaborðunum og líklegast er ærin ástæða til að þvo sér um hendurnar áður en farið er á salernið á skrifstofunni.

Lyklaborðin hjá Bretunum

hafa bakteríur í metunum:
Sagt er að fleiri
sýklar og meiri
þar kúri‘ en á klósettsetunum.

Fleira var ekki í Lundúnafréttum i dag.



« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Limruleikur

Höfundur

Jóna Guðmundsdóttir
Jóna Guðmundsdóttir
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband