"Hálka og krapi um land allt"

Vegagerðin varar við ófærð og hálku á fjallvegum.  Og ég sem hélt um liðna helgi að það væri komið sumar og ætlaði að fara að finna til sandala (háhælaða!) og sóltoppa.

Í
vikunni glöddust hér gumar
jafnt gellur sem trukka-rumar.
Nú hálka og krapi
menn kvelur í skapi
þó komið sé langt fram á sumar.

En þetta er auðvitað ekki byggilegt land og klúður að við vorum ekki öll flutt suður á Jótlandsheiðar þarna um árið.


Gas, gas gas - gargandi snilld?

Nei ég veit það nú ekki.  En það var víst ungur maður í Mosfellsbænum sem fann hvöt hjá sér til að nota gargandi löggur sem hringitón í símann sinn.  Ekki bara það, heldur mun hann hafa sett þetta eyrnakonfekt á netið til þess að fleiri gætu sótt sér þessa ljúfu hringitóna.  Þetta er greinilega athafnaskáld.

Í dreng þeim er talsverður töggur
er tækifærið greip snöggur:
Upp ermarnar bretti
og eldsnöggur setti
í gemsana gargandi löggur.

Reyndar væri ekki slæmt að kunna að breyta um hringitón - hingað til hef ég bara keypt nýjan síma þegar ég hef orðið leið á gamla vælinu.


Leti og löglegar afsakanir....

Það hefur ekki verið mikið um bloggfærslur upp á síðkastið.  Ég fór í liðinni viku í góðum hópi til Boston þar sem stefnan var tekin á maraþonið mikla sem kennt er við borgina.  Til að gera langa sögu stutta þá náðist markmiðið og því fylgir auðvitað bara gleði.

Meðan á hlaupinu stóð hugsaði ég auðvitað allra mest um hvaða vitleysa þetta væri og hvort mér tækist yfirleitt að klára:

Þ
að ólgaði í brjósti mér bara von
um að bjartsýna norður hjara kon-
an örmagna‘ af þreytu
þjökuð af streitu
í þriðja sinn kláraði maraþon.

Og já - það tókst.  Nú á ég þrjú maraþon og eins og er reikna ég með að láta það nægja!

Eftir maraþonið beið Bostonborg með sólbjört stræti, útiveitingahús og tískubúðir....

Er ég var búin í Boston að hlaupa
og á barnum mig  aðeins að staupa
tók landið að rísa;
ég rölti með Vísa
í mollin að máta og kaupa.

Og í viðbót við þrjú maraþon á ég líka nýjar buxur og kápu (og íþróttaskó ef ég skyldi ekki vera alveg hætt að hlaupa).


Gluggagægir

Í bókmenntaþættinum Kiljunni í gær hafði stjórnandinn skemmtilega sögu eftir Matthíasi Johannesen.  Matti hafði átt að hljóta þá virðingu þegar ráðhús var byggt í Reykjavík að fá ljóð eftir sig sandblásið á glugga.  Hann gerði sig hinsvegar sekan um að skrifa leiðara í Moggann sem þáverandi borgarstjóra líkaði ekki og sá hafði handtök hröð - glugganum var snarlega skipt út fyrir annan úr glæru gleri.

V
ið stórmenni ei mátti stugga
þá strax fór hann launráð að brugga:
Reiður og sár
hann reytti sitt hár
og á haugana henti svo glugga.

Nú situr stórmennið og stýrir stýrivöxtum og berst með kjafti og klóm á móti Evrunni sem við launþegar vildum svo gjarnan sjá í launaumslaginu okkar í staðinn fyir biskupsdótturina falleruðu.

Úr herbúðum Óla F kom nýtt Rei útspil í dag.  Gísli Marteinn rankaði við sér og mundi af hverju meirihlutinn féll.  Hann lagði til að Orkuveitan losaði sig út úr Rei-ævintýrinu og einbeitti sér að því að selja okkur borgarbúum heitt vatn.  Útvarpshlustendur vissu ekki hvaðan á sig stóð veðrið - en ólíkt er þó heilbrigðari tónn í Gísla en Kjartani í gær.  Gaman samt að sjá einingu sexmenninganna í Sjálfstæðisflokknum - nú fer að líða að þeir þurfi að ákveða hver tekur við af Villa.

Nú heyra má kjósendur hvísla
er hvarvetna puða og sýsla:
„Þetta er frétt
ef reynist það rétt
að leynist smá glóra í Gísla“.





 


Tímaleysi

Það er búið að vera svo mikið að gera hjá mér að eitthvað hefur þurft undan að láta.  Og þá að sjálfsögðu blogg og limrusmíð.  Betri tímar fara vonandi í hönd þegar sumar gengur í garð.

Fréttir í blöðunum hafa verið af ýmsu tagi en í fyrradag sagði frá búlgörskum bónda sem skipti á konu sinni og geit.  Hvort það er brot á lögum og þá hvaða lögum veit ég ekki, en sennilega hafa allir grætt nema geitin.

Það var bóndi í búlgaskri sveit
sem í basli á markaðinn leit.

Með hraði þar rifti
hjúskap og skipti
á frúnni og fullvaxta geit.

Það var heldur dapurlegt að horfa á Kjartan Magnússon borgarfulltrúa (í meirihlutanum hans Óla F) í kvöld.  Hann sat fyrir svörum í Kastljósi um Rei og útrásina sem nú er hafin á ný.  Það á að fara að bora í Diboutí en mun reyndar aðeins kosta okkur Reykvíkinga nokkur hundruð millur.  Sporðreistist ekki stóllinn undir Villa þarna í haust vegna þess að samflokksmenn hans vildu ekki að verið væri að spila með fé Orkuveitunnar í gæluverkefni út um allan heim?  Eða er það ég sem er minnislaus? 

Hann var kostulegur hann Kjartan
er í Kastljósi röflaði margt hann
um útrás og annað
sem áður var bannað
og víst er að skarpur er  vart hann.


Hvað stýrir hverju?

Ég skil ekki stýrivexti.  Þeir hljóta að vera ætlaðir til að stýra einhverju?  Genginu?  Það hélt ég þangað til í dag þegar Seðalbankinn hækkaði stýrivexti og gengið - féll.

S
eðla-bankinn til bragða tók
í bráðlæti stýrivexti jók.
Krónan samt hneig
hrapaði‘ og seig
svo þetta varð alls ekki barn í brók.

En þetta segi ég bara eins og fávís kona - stýrivextir eiga örugglega frekar að stjórna umferðinni um Bankastrætið.


 


Fjör á Bessastöðum

Það var ekki lítið um að vera á Bessastöðum í gær.  Ekki bara kom Al Gore góðvinur forsetans í kjötsúpu um kvöldmatarleytið heldur mætti indverski sendiherrann fyrr um daginn með gleðifréttir:  Indverjar hafa ákveðið að veita forsetanum heiðursverðlaun fyrir störf hans að friðar- og orkumálum.

Þjóð okkar fregn þeirri fagnar
sem á forseta aðdáun magnar:
Við heyrðum í gær
að heiðurslaun fær
frá Indverjum Ólafur Ragnar.

Skyldi Ástþór enn vera að huga að mótframboði?


Einkaþotubissness

Meðan ég var að hlaupa í kuldanum hér í Reykjavík í liðinni viku skruppu nokkrir ráðherrar niður til Búkarest og náðu sér í kvef  A.m.k. Ingibjörg Sólrún - það mátti heyra á mæli hennar í útvarpi í gær. 

Fararmátinn var mikið til umræðu og leiguvélin sem hóf sig á loft með liðið frá Reykjavík lenti sem gullskreytt einkaþota niðrí Búkarest nokkrum tímum seinna.  Mikill æsingur var í fólki og fjölmiðlar loguðu um stund.

Í hitanum létu menn fjúka flest

(úr forinni volgri mun rjúka best)
uns flestum var ljóst
að leiguvél bjóst
til lendingar niðri í Búkarest.

En nú er búið að sá einkaþotufræjum og aldrei að vita nema Geir skelli sér á eina við tækifæri.

Í Mogganum í dag er sagt frá því að offita sé orðin faraldur á Íslandi.  Mér finnst faraldur ekki gott orð - ég held að mataræði okkar sé slæmt en ég held fyrst og fremst að við hreyfum okkur ekki nóg.  Það er ekki nóg hreyfing að færa sig bara á milli stóla.

Það er meira hvað menn geta étið

og í makindum endalaust setið
uns silast í fáti
saddir af áti
úr sófanum yfir í fletið.

Og þá er best að fikra sig yfir í fletið.


Litlu verður Vöggur feginn

Síðustu dagar hafa verið litaðir af mótmælum atvinnubílstjóra.  Þeir mótmæla hækkuðu eldsneytisverði með því að stöðva umferð og hafa gert mörgum gramt í geði.  Þeir virðast þó eiga nokkur stuðning og menn almennt eru til í að fara í hart yfir dýrum dropum.

Merkilegt að þó að matur sé dýrari hér en víðast annarsstaðar, þó að þjónusta við almenning sé ýmist skorin niður eða hækkuð þá gerist aldrei neitt nema að einhverjar kellingar þusa á kaffistofum  Niðurskurður á þjónustu leikskóla eða í heilbrigðiskerfinu vekur lítil viðbrögð en bensínhækkun; vá nú gerum við eitthvað!

Það varð því mikil gleði þegar einhver olíufélög auglýstu í morgun að veittur yrði afsláttur í dag.  Það voru víst 25 kr á lítrann ef ég hef skilið þetta rétt.  Menn voru glaðir og þakklátir og alveg búnir að gleyma samráði og svikum.  Mér skilst að það hafi verið hálfgerð þjóðhátíðarstemming við sumar dælurnar - eða kannski öllu heldur svona stuð eins og á síldarplönunum forðum  Margir mættu með brúsa og nú er eins gott að þeir séu vel geymdir í kjöllurum og bílskúrum landsmanna.

Íslenska þjóðin varð ósköp glöð,
við olíudælurnar beið í röð.
Þar alsælu naut,
afsláttinn hlaut
og brosandi kvaddi svo bensínstöð.

Ég var því miður með hálfan tank - minn bíll eyðir svo litlu að það dugir mér fram í miðjan mánuð og hver veit nema að trukkabílstjórarnir verði búnir að lækka verðið þá.


Sektaðir á vakt?

Í Mbl í dag var merk frétt um löggur.  Nú er Stefán súperlögga búinn að gera samning við World Class um að undirmenn hans stundi æfingar þar til að halda sér í formi.  Ef þeir mæta ekki í heila viku þá greiða þeir sekt.
Gott og vel, en hverjum?  Ekki veit ég, en í fréttinni stóð að lögregluembættið ætlaði að greiða í byrjun fyrir menn sem yrðu sekir um að mæta ekki en að í framtíðinni yrðu þeir hýrudregnir.  Getur verið að World Class muni hagnast ef löggurnar skrópa?  Skrýtið?

Á afbrotum taka þeir ekki vægt
og illu þeir geta frá lýðnum bægt
nema þann tíma
sem tekur að glíma
við lóð og við tæki í líkamsrækt.

Eins gott að gæjarnir í Mannaveiðum geta alltaf stokkið strax af stað um leið og einhver er drepinn - en þurfa ekki fyrst að skreppa í ræktina til að sleppa við sektina.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Limruleikur

Höfundur

Jóna Guðmundsdóttir
Jóna Guðmundsdóttir
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband