Alltaf í boltanum?

Það fer lítið fyrir bloggi hjá mér þessa dagana.  Ástæðan er einföld - ég er alltaf á hlaupum!  En það stendur til bóta, vonandi.

Það er hinsvega enginn skortur á bloggtilfefnum.  Ég nefni ekki efnahagsmálin enda ekki með jafnmikla stýrivaxtarverki eins og Ingibjörg Sólrún sem var svartsýn á samfylkingarfundi í dag og kvað fast að orði.  Best fannst mér að hún sló af álver í Helguvík og lofaði afnámi tolla á matvöru!

I
ngibjörg hefur í hótunum;
var  heldur á þyngri nótunum
upp er hún stundi
staðreynd á fundi:
Valt er nú flestallt á fótunum.

Aðrir sem eru þungir á brún þessa dagana eru stuttbuxnadrengir sem hafa hafið söfnun fyrir lærimeistara sinn sem gerðist sekur um að hnupla orðum og gera að sínum.  Það er skrýtin frjálshyggja þetta - en svo sem gott að þessir gaurar  virðast skilja hugtakið samhjálp og eiga til vænan skammt af umhyggju þegar á reynir.

Frjáls- er það háðuleg –hyggja
að hnupla og móðga og styggja
og þegar allt fer
til fjandans og verr
þá ölmusu þegjandi að þiggja.

En kannski að gæsalappalausi seðlabankastjórnarmaðurinn þiggi ekki aurana heldur gefið þá til götubarna í Ríó?


Upprisusaga

Þessa dagana þegar Dabbi fer á kostum og ásakar mann og annan um að tala niður gengið (eða var það upp?) er gaman að lesa um manninn í Ameríku sem lenti í því að vera úrskurðaður látinn.   Þegar átti að fara að nota úr honum varahluti kom í ljós að hann var sprelllifandi eða eins og segir í fréttinni:

"Læknar lýstu Dunlap látinn 19. nóvember á sjúkrahúsi í Wichita Falls í Texas, og fjölskylda hans veitti heimild fyrir því að líffæri yrðu tekin úr honum til ígræðslu.  Þegar fjölskyldan var að kveðja hann hinsta sinni hreyfði hann annan fótinn og höndina. Hann sýndi viðbrögð þegar annar fótleggur hans var rispaður með vasahníf og stungið undir nögl á fingri."

Mér finnst þetta merkilegt með vasahnífinn.  Eru virkilega ekki notaðar aðrar og þróaðri aðferðir til að úrskurða menn látna á sjúkrahúsum þarna í Guðs eigin landi?  Ættingjarnir virðast minnsta kosti ekki hafa treyst læknunum og tekið til sinna ráða:

Þeir vissu' ei hvort væri hann dáinn
svo þeir vasahníf ráku á ská inn
í lærið á kauða
að kveðja þann dauða
en kippir þá fóru um náinn.

Ekki nema að ættingjarnir hafi ætlað að nota einhverja varahluti sjálfir og komið með hnífinn í þeim tilgangi?

Er dauður á líkbörum lá hann
liðið hans kom til að sjá hann
og sundur að hluta
með svolitlum kuta
eða ætluðu fíflin að flá hann?

Sama hvort er - sagan er góð og ekki verra að segja hana um páska.


Heim í heiðardalinn....

Fyrsta lagið sem ég lærði að syngja sem barn var lagið "Ég er komin heim í heiðardalinn" sem var vinsælt um þær mundir sem ég var að læra að pissa í kopp.  Mér er sagt að ég hafi sungið það seint og snemma og enn raula ég það þegar ég nálgast heimaslóðir eftir útiveru.

Núna var heimkoman eftir vikudvöl í útlöndum blandin Vísakvíða því Evrurnar sem notaðar voru á ferðalaginu verða víst eitthvað fleiri krónur en ráð var fyrir gert þegar ferðin var skipulögð. Þannig var gengi Evrunnar 90 kr. þegar hóteldvöl var pöntuð en rúmar 120 kr. þegar hún var greidd.

Víst eru upplyfting andans
utanlandsferðalög landans:
Þar Evrurnar nýta
en núna það sýta
því gengið er farið  til fjandans.

Á páskum rifjar maður upp helstu örnefni Píslarsögunnar.  Helsta kennileiti þar er hæðin Golgata sem kölluð hefur verið Hauskúpuhæð (eða Hausaskeljastaður hjá Davíð).  Í ljós kom svo að hér finnst slík hæð innan borgarmarkanna eða að minnsta kosti fannst hauskúpa á Kjalarnesi á páskadag.  Þetta verður ekki toppað fyrr en hinn heilagi gral finnst á Kili, sem vonandi verður í sumar.

Frónbúum hleypur nú kapp í kinn
þó krónan sé töluvert veik um sinn:
Þrátt fyrir smæð
eigum Hauskúpuhæð
og helgan á Kjalvegi bikarinn.




Gleðilega páska!

Með gætni ég sýni‘ af mér gáska því
ég gæti‘ annars lent slæmum háska í.
Nú yfirgef  sker

og til útlanda fer
og ætla að taka mér páskafrí.

Fallinn engill

Spitzer ríkisstjóri New York ríkis sagði loks af sér í gær en hann, sem áður hafði verið dyggðin uppmáluð varð vís af því að hafa eytt nótt með rándýrri lúxushóru hér fyrir skömmu.   Þetta vakti mikla athygli ekki síst fyrir það að hann hefur verið siðgæðispostuli mikill í sínum störfum og sveiflað refsivendi ótt og títt yfir þeim sem ekki uppfylltu gæðastaðla hans.  Út á þetta hlaut hann allmikla athygli og vinsældir.

Siðprýðin fjölmörgum fellur
og fannst sumum erfiður skellur
er trúboðinn knár
sýnir kenndir og þrár
sem mestmegnis snúast um mellur.


Lífsþreyttur páfi?

Í gær endursagði Mogginn sunnudagspredikun páfa niðrí Vatikani.  Honum var mikið niðri fyrir þennan dag og ræddi um ódauðleikann og hvernig færi ef fundin yrðu lyf sem lengdu ævi manna svo um munaði.  Að mati páfa myndi slíkt leiða til þess að heimurinn yrði fullur af gömlu fólki og ekkert pláss yrði fyrir hina yngri. Páfi, sem er áttræður, sagði að vonandi kæmi aldrei til þess að hægt yrði að framlengja líf að eilífu.

Í máli var Benedikt bara vís
og bersýnilegt að hann fara kýs
burtu sem fyrst
enda bíður hans vist
í páfasvítunni í Paradís.

Þetta hljómar skynsamlega og ekki síst þegar það er áttræður gamlingi sem lætur í sér heyra - páfi eða ekki.

Apótekaralakkrís!

Það var frétt á mbl.is að nú ætluðu sænsk apótek að fara að selja hjálpartæki ástarlífisins og var sérlega til þess tekið að þar yrðu titrarar á boðstólum í vor.  Sænskar konur eru því greinilega hjálparþurfi en af hverju þessi vara eigi að fara í apótekin en ekki bakaríin stóð ekki í fréttinni.  Nema að það þurfi lyfseðil?

Nú léttast mun brún þeirra bitrari
þær bjartsýnni gerast og vitrari.
Losna við alla
leiðindakalla
með lyfseðli er á stendur titrari.




Svartur, svartari, svartastur....

Ég las hjá landskunnum Moggabloggara að Hilary Clinton (eða hennar fólk) hefði dekkt húðlit Obama í auglýsingamyndbandi.  Ég fletti þessu upp og sá að það eru greinilega einhverjir þarna vesturfrá sem trúa þessu.  Ég veit nú ekki hvort ég kaupi þetta, en hvað veit maður?  Baráttan harðnar að minnsta kosti dag frá degi.

N
ú virðist sem heldur í hart fari
og Hilary gerist nú smartari:
Almenning blekkir,
og yfirbragð dekkir
Baraks er sýnist þá svartari.

Til hamingju Hafnfirðingar

Í barnæsku minni norður á Akureyri voru íbúar þar fleiri en Hafnfirðingar.  Það er nú liðin tíð og ég held að Akureyringum hafi ekki fjölgað mikið síðan þá en Hafnarfjörður þenst hinsvegar út í allar áttir.  Í dag fagna þeir því að vera orðnir 25000.  Sá íbúi sem er númer 25000 er ungur og fallegur gutti, Kristófer Máni Sveinsson sem flutti nýlega úr Garðabænum í Fjörðinn.

Í Firðinum blaktir nú fáni
og fagnað er velsæld og láni:
Þar bættist við einn
barnungur sveinn
hinn broshýri Kristófer Máni.


Borgarstjórinn klónaður

Það fór um mig hrollur þegar ég las þessa fyrirsögn í mbl. í dag.  Ekki vissi ég að leiðtogakrísan í Sjálfstæðisflokknum væri svona slæm.  En auðvitað er það ekki málið heldur var hér um að ræða naut í Andalúsíu sem heitir Borgarstjóri og hefur víst gert það gott í nautaati þar suðurfrá síðustu 16 árin.

En það þarf örugglega ekki að klóna Óla - jafnvel þó Villi taki ótal áskorunum og pakki saman.

Í borgarstjórn fjöldi er flóna
sem í fötin mun passa og skóna
hans Óla að ári
svo alls ekki Kári
hjá DeCode þarf karlinn að klóna.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Limruleikur

Höfundur

Jóna Guðmundsdóttir
Jóna Guðmundsdóttir
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband