Þröng á þingi

Það verður þörf fyrir aukinn mannafla í ítölsku löggunni ef fleiri borgir fara að dæmi borgarinnar Como en þar eru menn sektaðir fyrir að grípa um pung sér á almannafæri ef marka má frétt á mbl.is í dag. 

Það fýkur nú skilst mér í skjólin

og skín ei við ítölskum sólin
ef á  nú að grípa
alla sem klípa
með annarri hendi um tólin.

Sá sem sektina hlaut sagðist hafa verið í of þröngum vinnugalla en það var ekki tekið gilt.


What goes up - must come down

Við vissum það innst inni:  Þetta var of gott til að vera satt.  Útrásin gladdi okkur og sérlega það að okkar menn væru að gera það gott í höfuðborginni okkar gömlu; Kaupmannahöfn.  Þessvegna erum við líka leið þegar það nú fréttist að Glitinr ætlar að loka skrifstofum sínum þar niðurfrá og senda fólk heim.

Í
kolum hygg ég að hitni
og um hörku á markaði vitni
ef reynist sú frétt
í fjölmiðlum rétt
að flóttinn sé hafinn hjá Glitni.

En við getum lítið gert - nema ef til vill boðist til að greiða aðeins hærri þjónustugjöld?


Á flótta til Kírgistan.

Í dag var frétt á mbl.is um samkeppni um baráttusöng sem háð er í Kírgistan.  Fréttin birtist undir fyrirsögninni "Hvað rímar við Kírgistan?".  Ég gat auðvitað ekki á mér setið.  Hér er ort um einhvern Tristan - alls ekki þennan sem fór á fjörurnar við Ísold um árið.  Þessi er bara venjulegur bóndi eða jafnvel búskussi.

Kindurnar bæði og kýr misst‘ann
og konan hún reyndist of dýr Tristan
sem lagði á flótta
fullur af ótta

og fékk loksins hæli í Kírgistan.

Skv. þjóðskrá ber 121 maður hér á landi nafnið Tristan sem fyrsta nafn.  Fæstir þeirra eru samt nógu gamlir til að geta verið farnir að búa.


Handlaginn kærasti

Ekki er alltaf tekið út með sitjandi sældinni að búa vestur í henni Hollywood. Þannig virðist hárgreiðslufólk ekki liggja á lausu þar í bæ.  Eða hvað á maður að halda þegar maður hefur lesið frétt um að hjartaknúsarinn George Clooney hafi mætt með sambýliskonu sína á Óskarsverðlaunahátíðina eftir að hafa staðið í ströngu við að krulla á henni hárið! 

Hann mætti með frábæra frúna‘ í
filmstjörnuboð, enda  núna‘ í
formi og stuði
og stanslausu puði
því lokka‘ hennar krulla þarf Clooney.

Ég trúi nú samt ekki öðru en að það séu önnur tól en krullujárn og hárblásari sem hann noti til að krækja í svona dömur?

Klæðskiptingur eða múslimi?

Netmiðlar birtu í dag myndir af forsetaframbjóðandanum Obama í afrískum þjóðbúningi.  Myndirnar munu hafa verið teknar er hann heimsótti ættingja sína í Kenía og þeir færðu honum búninginn að gjöf. 

Einhverjir hafa látið að því liggja myndirnar séu sýndar í boði Hilary Clinton, sem þarna sé að reyna að höfða til hræðslu Kana við allt sem er framandi og jafnvel að reyna að gefa í skyn að hatturinn sem fylgir búningnum sé eins og vefjarhöttur sem terroristar setja upp þegar þeir vilja þekkjast úr fjöldanum.

En ef hún hefur dreift þessum myndum þá skil ég hana vel.  Mér finnast karlar í kjólum bara hallærislegir.

Hilary dönnuð er dama
og dagljóst að ekki er sama
ef í afrískri sól
sig klæðir í kjól

karlmennið Barak Obama.


Ræða mín skal vera já, já og nei, nei....

Jæja - þá er Vilhjálmur búinn að segja já, já og nei, nei, einu sinni enn og allir láta sér vel líka - á yfirborðinu að minnsta kosti.  Hanna Birna sór honum hollustu og fer nú líklegast í blóðugan slag við Gísla og Kjartan og Vífil og alla þá aðra sem gætu hugsað sér að hafa titilinn borgarstjóri í símaskránni á eftir nafni sínu.

Leitt að konukindin, sem menn segja skörung, skuli ekki hafa barið í borðið og heimtað allt eða ekkert.  En í Flokknum heimta menn ekki - þeir biðja og bíða.

Hanna Birna er hlýðin mey
og hún er búin að gleyma REI:
Sem odd- vill hún –viti
að Vilhjálmur sitji
meðan að slæst hún við Gísla grey.

(Grey er ekki illa meint og þýðir alls ekki sjálfdauður hestur).


Sagan endalausa

Nú er villti, spillti Villi endanlega búinn að gera upp hug sinn ef marka má Stöð 2 í kvöld og niðurstaðan er sú að hann er búinn að gleyma um hvað málið snerist og heldur að við hin séum búin að því líka.  Hann ætlar sem sagt að verða borgarstjóri og hana nú.

Undrun mér Vilhjálmur vekur
er vitgrannur, gleyminn og frekur
hann alls ekki víkja
vill, heldur ríkja
og stefnu á stólinn því tekur.

En fínt - flokkurinn hans heldur vonandi áfram að tapa fylgi og ekki kvarta ég yfir því - jafnvel þó ég þurfi að hafa hann fyrir borgarstjóra í nokkra mánuði.


Mannvitsbrekkur

Frábært að fylgjast með alþingismanni spila ólögleg fjárhættuspil í lokuðum klúbbi og verja það með þvi að segja að löggjafinn þurfi að sjálfsögðu að fylgja tíðarandanum. „Og í þessu máli tel ég að löggjafinn hafi ekki fylgt honum".    Hér er ég að tala um Norðlendinginn Birki Jón sem eyddi helginni við fjárhættuspil til að bæta þingfararkaupið.

Framsóknar staðfasti styrki þjón
á stundum mér finnst sem að virki flón.
Ef spila sú blók  fer
um peninga póker
sem bjána má dæma hann Birki Jón.


Jæja já - og svo er bara að fara að brjóta gamaldags lög eins og hver annar þingmaður.

Þarna tók ég stórt upp í mig og kalla sitjandi þingmann bjána.  Það er þó ekki mikið hjá því þegar ráðherrann Össur bloggaði um borgarstjórnarfulltrúann Gísla Martein og kallaði hann dauðan hest að því er mér skildist á Kastljósi í kvöld.  Össur var hvergi banginn og sagðist standa við bloggið en mér fannst þetta nú ekki sniðug færsla og get ekki neitað því að mér datt í hug að þingmaðurinn hefði ekki verið með sjálfum sér í bloggheimum þessa nótt.

Hann prúður og frjáls var í fasi
er fréttamanns svaraði masi
en ætti að læra
lexíu kæra
að ljótt er að  blogga í glasi.


 


Eldhúsdagsumræður

Undir fyrirsögninni "Áfram nekt á sunnudögum" greinir mbl. okkur frá því að þrátt fyrir að söngkonan Christina Aguilera sé búin að eignast barn ætli hún að halda áfram að vera nakin á sunnudögum með bónda sínum. Eða eins og hún segir í greininni: "Við eigum okkar stund saman sem við köllum sunnudagur án klæða. Á sunnudögum förum við ekki út heldur höfum það notalegt heima. Við gerum allt án klæða. Við eldum nakin".

Söngkonan mönnum vill melda
og mér fær hún hugmynd þá selda:
Ég spara mér föt,
splæsi í kjöt
og allsber um helgina elda.

Ætli sé samt ekki í lagi að vera í inniskóm? 


Saklausir sjónvarpsáhorfendur lentu í því að heyra upptöku frá tónleikum sem Bubbi Morthens hélt í kvöld en þar kom meðal annarra fram forsætisráðherra að syngja gegn fordómum.   Hann söng "Lóu litlu á Brún" þannig að hrollur fór um áheyrendur - og ekki sæluhrollur:

Óhljóðin bárust með aftanblæ
og ómuðu bæði um land og sæ
er Lóu hann píndi
og sjónvarpið sýndi
syngjandi ráðherra‘ í  Austurbæ.




Að sjálfsögðu sjálfstæði

Nýjar fréttir af Balkanskaganum eru vonandi góðar fréttir?  Norrænu ríkin ætla að minnsta kosti að klambra saman stuðningsyfirlýsingu og senda suðreftir og það ætla flestar vestrænar þjóðir að gera skilst manni.  Samt ekki Spánn heyrði ég einhversstaðar en er búin að gleyma af hverju. 

Nú þarf ekki‘ að ræða‘ undir rós og nóg
af ríkjum er komið í ljós – og þó
sem ætla að styðja
er stuðning um biðja
stjórnarherrar í Kósovó.

Jú alveg rétt, tregða Spánverja var út af Böskum - þeir gætu farið að láta sig dreyma....





« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Limruleikur

Höfundur

Jóna Guðmundsdóttir
Jóna Guðmundsdóttir
Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.4.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband