19.2.2008 | 11:17
Íslenskur kokkáll
Það var frétt í Mogganum í gær um reiðan Íslending sem sá svo á eftir sambýliskonunni í hendurnar á einhverjum Bauna að hann brá sér af bæ til að taka í lurginn á honum.
Það var ergelsi og gasaleg gremja
sem greyinu tókst ekki að hemja:
Hann keypti sér rör
og réðst svo í för
til Danmerkur delann að lemja.
Það fylgdi fréttinn að með í för var 18 ára sonur mannsins - lærdómsrík og gefandi feðgaferð.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
18.2.2008 | 00:29
Afskriftir
Nú ljósið svo grænt hefur Geir
gefið og stendur ei meir
en vika til boða
Villa að skoða
hvort ætli á Skjól eða Eir.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.2.2008 | 21:43
Limruleti
Hann trúir því stöðugt hann stýri
en stórt er nú hugsað í mýri:
Á vellinum byggja
vinir hans hyggja
og úti er brátt æfintýri.
Villi vinur hans er líka stöðugt í skotlínu fjölmiðlanna og ekki bara fjölmiðla. Nú spái ég því að hans eigin flokksmenn teknir að hamast gegn honum. Bjarni Benediktsson reið á vaðið í morgun og sagði sína skoðun. Reyndar ekki bara á honum heldur gungunum í kringum hann sem þora hvorki að segja af eða á og "styðja hann meðan hann er oddviti"...bla, bla....
Fátt er nú Villa til varna
og víst fer á dalnum að harðna
Friðurinn rofinn
og flokkurinn klofinn
fannst mér að heyra á Bjarna.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.2.2008 | 23:19
Vitlausari en við
Það er bagalegt segi ég bara
því blótsyrði kýs ég að spara.
En samt er ég hlessa,
ef sænskættuð lessa
í hundana fær ekki að fara.
Yfirvöld í Svíþjóð sektuðu reyndar hundasölukonuna. Við hefðum boðið henni að gerast borgarstjóri.
Bloggar | Breytt 12.2.2008 kl. 07:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.2.2008 | 00:15
Tíðindalaust af vesturvígstöðvunum
Slæmt GSM-samband hefur ríkt við borgarstjórnarflokk sjálfstæðismanna þessa síðustu daga. Allir með slökkt á símunum? Reyndar kom Júlíus Vífill fram í dagsljósið um síðir en gæti átt eftir að óska þess á morgun að hafa sleppt því ef í ljós kemur að hann hefur veðjað á rangan hest.
Yfirstjórn flokksins og agi
enn kann að vera í lagi
en líklegt þó er
það leikmaður sér
að til tíðinda í dögun þar dragi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.2.2008 | 23:06
Grátkonur
Skýrsla eða ekki - mistök eða ekki - umboð eða ekki - hann situr sem fastast. Villi reyndi að svara fyrir REI-skýrsluna í kvöld og varð einu sinni sem oftar margsaga. Þegar allt um þraut reyndi hann að bregða á ráð Björns Inga og bresta í grát en það var bara aumkunnarvert kjökur og honum varla til framdráttar.
Hann langdreginn lopann teygði
en í lokin svo af hann beygði.
Við hæfi nú væri
að Vilhjálmur færi
og af loksins sér hann segði.
Trikkið hjá Birni það tókst
og töluvert fylgi hans jókst
en einungis hlátur
uppsker nú grátur
Villa, er skalf bæði og skókst.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.2.2008 | 23:17
Rottur hér og þar
Þeir rottur með húð og hári
hesthúsa á þessu ári
austur í Taiwan
svo elti þá gæfan
og fríi þá trega og tári.
Rotturnar hér hjá okkur eru hinsvegar í pólitík. REI-skýrslan lak í fjölmiðla í kvöld og í úttekt Kastljóss á málinu kom skýrt fram að auðvitað vissi Villi allt, alltaf.
Allflestir segja nú svei
við sukkinu er kennt er við REI.
Nú stutt er til loka
og líklega poka
sinn Villi má grípa það grey.
Eða hvað - í staðinn fyrir að éta rotturnar hér gefum við þeim annan séns?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
3.2.2008 | 23:53
Ein sérsveitin enn?
Í auðmýkt nú þess ég bara bið
að Bjarnason þurfi að spara við
sig, og því plís
hann setji á ís
plön um hið vopnaða varalið.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.2.2008 | 22:58
Ruglað lið
Styðja hann innan við einn af sex
og augljóst að fylgi hans lítið vex:
Flestallir vilja
sem fyrst við hann skilja
því fýrinn mun -ruglaður vera kex-.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.1.2008 | 23:34
Lán í óláni
Ljóst mun að lífshættu skapaði
og lán er að þota´ekki hrapaði
á flugi í gær
er flugmaður ær
gerðist og glórunni tapaði.
En sem sagt. Þetta fór vel. Vélin sem var á leið frá Kanada til London lenti á Írlandi þar sem flugmaðurinn var settur af.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Limruleikur
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.4.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 3
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 3
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar