Allt með kyrrum kjörum

Í gær var birt skýrsla matsfyrirtækisins Moody á stöðu íslenska fjármálageirans.  Þá skildist mér að þeir vildu að við leggðum niður krónuna og eða flyttum bankana úr landi ef allt ætti ekki að fara norður og niður.  Ég svaf óvært í nótt en nú hef ég tekið gleði mína að nýju - þetta var allt misskilningur fávísrar konu eins og svo oft áður og við erum sem fyrr best og flottust.

Í pistli um fjármál og fleira
fróðlegt mér þótti  heyra
að allt er í gúddí
matið hjá Moody
ef marka skal Bjögga og Geira.


Átak í menntamálum?

Nú ætla Bretar að gera átak í menntamálum samkvæmt frétt mbl.is frá í kvöld:

Breska ríkisstjórnin ætlar að gefa skyndibitakeðjuni McDonalds leyfi til þess að veita ungum starfsmönnum prófskírteini sem samsvarar  gagnfræðiskólaskírteini.

Fréttina fjölmiðlar skráðu:
Þau færast nær markinu þráðu,
börnin svo kát
er borgaraát
skírteini gefur og gráðu.

En sennilega eiga ungmennin nú frekar að steikja borgarana en að borða þá.


Umhleypingar

Loksins er handboltaruglinu lokið.  Þetta fór nú ekki eins og við vildum - ekki bara töpuðum við öllu sem hægt var að tapa, heldur unnu Danir.  Gat varla verið verra - eða hvað?

Landinn fékk fréttirnar nýjar
og fjölmarga við þessu klígjar:
Bikar til Dana
við bölvum af vana;
en betra þó Danir en Svíar?

Eða er ég að misskilja eitthvað?

Spaugstofan í gærkvöld var heldur óvægin í meðferð sinni á veikum eða ekki veikum borgarstjóra.  Leikarinn sem lék borgarstjórann núverandi var hinsvegar ótrúlega líkur þeim rétta svo hér gæti verið kominn afleysingamaður Ólafs.

Hvernig sem framtíðin fara kann
með fölleitan Ólaf,  má spara þann
áhyggjupóst
því öllum er ljóst
að Spaugstofan veit nú um varamann.


Og það snjóar áfram

Norðmenn bregðast ekki.  Ég er nú ekki að tala um dómgæslu eða neitt sem hefur með handbolta að gera heldur frétt sem ég las í blaði í gær um verðbólgu í Noregi.  Hún mældist eitthvað smáræði í fyrra og - haldið ykkur fast - það segja þeir vera Harry Potter að kenna.  Þetta væri nú eitthvað fyrir íslenska bankamenn.

Í námsferð nú bráðum á brott fer
úr bönkunum hópur, því gott er

ef vaxandi hér
verðbólgan fer
skuldinni að skella á  Potter

Skýringin var reyndar hækkað verð á bókum og aukin bókasala þegar bókin kom á markað en ekki galdrabrögð.


Enginn var að hugsa um forseta kosningar í dag nema Ástþór Magnússon.  Hann leigði Háskólabíó undir blaðamannafund en honum hefði nú sennilega dugað að leigja húsvagn.  Hann var þó drjúgur með sig að vanda:

Í bíóið kátur inn keifaði
og kosningamálin þar reifaði
Ástþór um stund
og framan í fund
seðla- hann -vöndlunum veifaði.


Hann mætti sem sagt með 40 millur og bauðst til að greiða kostnaðinn af forsetakosningunum í sumar.




Endurtekið efni

Um daginn var ég að stinga upp á því að í stað þess að taka þátt í handknattleiksmótum færum við að senda strákana til að keppa í vasabilljard í Danaveldi.  Eftir handboltaleikinn í dag er ég þó orðin afhuga því.

Á
tapinu engan sé endi
og engin er von þó menn sendi
til Danmerkur lið
að dunda þar við
keppni með hangandi hendi.

Hann var hinsvegar ekki með hangandi hendi hann villti, spillti, Villi þegar hann fór á fjörurnar við Óla F.  Enda bar það árangur - að minnsta kosti um sinn.  Mér þóttu samt merkilegust viðbrögð samherja hans á blaðamannafundinum í gær.  Þau stóðu öll steinþegjandi að baki honum og voru óglöð á svip.  Sérstaklega þóttu mér konurnar vonlitlar enda kom á daginn í morgun að sem fyrr er byrjað á strákunum; Kjartan fær orkuveituna....


Vilhjálmur tók núna vænan sprett
en varla hann stöðuna metur rétt:
Kvenfólki gleymir

en konurnar dreymir
að hafi‘ ann í bakinu hnífasett.

Hann er kaldur að snúa í þær baki en hefur sennilega týnt minnisblaðinu þar sem stendur að hann ætti að passa sig.


Alltaf í boltanum?

Nú handboltann hættum að prófa
við hneisu þar uppskerum nóga:
En stórsigur fæst
ef strákarnir næst
í Danmörku flinkir sér fróa.

mbl.is Danmerkurmót í sjálfsfróun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lífs og liðnir

Lát Bobby Fisher hefur verið í öllum fjölmiðlum síðustu daga og æviferill hann rifjaður upp sem og framganga okkar í að veita honum skjól síðustu árin.  Við getum verið fullsæmd af þeim gjörningi og eiga þeir menn sem að því stóðu þakkir skildar.

Hinsvegar megum við ekki missa þetta í eitthvað bull og fara að grafa hann á Þingvöllum hjá Einari og danska slátraranum.  Það er bara fyndið og okkur til háðungar.

Ljóst er að skammarleg skyss´er
og skelfingar ósköp ég  hiss‘er
á einhverjum köllum
sem Þing- vilja á –völlum
varðveita beinin af Fisher.

Mikið írafár ríkir í framsókn þar sem bræður berjast sem aldrei fyrr.  Nú eru það Björn Ingi borgarfulltrúi og Guðjón Rúnar sem er sagður fyrrverandi alþingismaður.  Hann segist þekkja Binga betur en flestir enda mun umræddur Guðjón bera ábyrgð á því að hann kom til starfa fyrir flokkinn.  Mikið sem sá hefur á samviskunni.

Þeir voru bræður og banda-
menn Bingi og Gaui en vanda-
málin þá æra
og flokk munu færa
til glötunar og honum granda.


En flokkurinn hefur nú samt fleiri líf en kötturinn svo það er aldrei að vita.

Ég missti af bókmenntaþætti Egils Helgasonar í liðinni viku en hef fengið lýsingar á honum frá fúlum áhorfendum.  Þar var kynnt mikið bókmenntaverk skilst mér - ævisaga Davíðs Oddssonar í máli og myndum rituð af HH Gissurarsyni.  Fór höfundur víst allnákvæmlega yfir málið í löngu innslagi og sýndi myndir af foringjanum allt frá frumbernsku.

Ei fyrnast hin fornu kynni
og ferskur er Davíð inni:
Hjá Agli í þætti
ungur hann mætti
allsber á gæruskinni.


Veðurblogg

Það er gaman að veðrinu þessa dagana.  Snjór og frost - svona eins og veturnir voru áður en farið var að tala um bráðnun jökla og hlýnun jarðar.  Þetta minnir mig auðvitað bara á Akureyri.

Í Reykjavík allmikil ófærð er
og óneitanlega þá snjóar hér.
En einnig var þung-
fært er ég var ung
og „ í óveðrum skemmti ég mér“.

Eins og einhverjir sjá þá er síðasta línan í limrunni er stolin - mig minnir frá Kristjáni fjallaskáldi en hugsanlega er það misminni.



Ráðamenn þjóðarinnar

Alþekkt er máltæki sem segir að sérhver þjóð fái þá ráðamenn sem hún eigi skilið.  Ég hef reyndar aldrei verið sammála þessu máltæki og sjaldan minna en núna eftir að hafa fylgst með tilburðum ríkjandi forsætisráðherra á þingi í dag þegar hann varði veitingu setts dómsmálaráðherra á syni fyrrverandi forsætisráðherra embætti héraðsdómara.

Í þinginu menn voru‘ að þjarka
og þónokkur kom í ljós harka:

Geiri hann ver

Árna, hvers er

 „valdbeiting vel innan marka“

Nei það getur ekki verið að við eigum það skilið að  Geir Haarde og Árni Matt sitji í ráðherrastólum ár eftir ár? 

Fast þeir sóttu sjóinn...

Vandræði Vegagerðarinnar með Grímseyjarferjuna Sæfara virðast engan enda ætla að taka.  Henni var siglt norður um helgina og haldið ykkur fast - bilaði á leiðinni.  Engum fregnum fer enn af kostnaði við þá viðgerð en það munar víst ekki um kepp í sláturtíðinni.

Vandræða- lögðu í -lega ferð
og í limru ég atburðinn trega verð:
Aflvélin bilaði
engu hún skilaði
og að afsökun leitar nú Vegagerð.




« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Limruleikur

Höfundur

Jóna Guðmundsdóttir
Jóna Guðmundsdóttir
Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (16.7.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband