Lok, lok og læs

Suma daga eru blöðin einfaldlega full af áhugaverðu efni.  Í dag var til dæmis birt könnun sem slær því föstu að Þjóðverjar séu elskhuga lélegastir en Ítalir bestir.  Ég spyr bara; hvar vorum við Íslendingar?  Erum við ekki best í öllu nema lestri?´

Þessi stórfrétt hefur þó fallið í skuggann af annarri sem segir frá Skota nokkrum sem læstist inni á almenningssalerni í fjóra daga.  Eða eins og segir í frétt mbl:

"Breskur maður lokaðist inni á óhituðu almenningssalerni í fjóra daga. David Leggat, 55 ára kennari á eftirlaunum læstist inni á lítið notuðu almenningssalerni í grennd við Aberdeen þegar hurðarhúnarnir duttu af báðu megin á hurðinni er hún skelltist í lás."


Skotinn bað vættir að vægja sér
en vísast þá lætur hann nægja sér
að skríða‘ oní skurð
svo skellist ei hurð
er hyggst næst í skyndingu hægja sér.


Blóðugir viðskiptafræðingar!

Í útvarpinu var í dag sagt frá tveimur viðskiptafræðingum sem ásamt einum sálfræðingi hafa gert könnun á veikindum Íslendinga og fjarvistum frá vinnu af þeim sökum.  Niðurstaðan er menn mæta oft veikir til vinnu og sjalgæft er að menn segi sig veika ef þeir eru það ekki.

Vafalaust rétt en ályktanir viðskiptafræðinganna minntu heldur á blóðmeinafræði eða eins og segir á ruv.is 

"Ægir segir Íslendinga upptekna af því að sýna dugnað í starfi, mæta vel og standa sig.  Okkur sé þetta í blóð borið frá forfeðrum okkar sem unnu mikið og hlífðu sér hvergi."

Mér leikur forvitni á að vita hvernig hann kemst að þessu með blóðið. 

Í fjölbreyttu rannsókna – flóði
er fengur að þessu og gróði:
Í viðskiptafræði
voru í næði
tveir gæjar að gramsa í blóði.


 Ætli Kári sé annars ekki búin að ráða þessa snillinga?

Pöddufullur?

Það gerast misskemmtilegir hlutir á aðventunni samanber frétt á mbl. í gær:

"
Stefán Sigurðsson varð fyrir þeirri óskemmtilegu lífsreynslu í vikunni að finna tvö stærðarinnar skordýr í bjórflösku sinni. Um var að ræða Tuborg jólabjór".

Síðar í fréttinni kemur fram að Stefán var nýbúinn að koma sér fyrir í sófanummeð bjórflösku og uggði ekki að sér.  Fréttin getur þess ekki hvort hann hafi gubbað en hlýtur það ekki að vera?

Í sófanum gæi sá góla fór
og gubba uns full var skjóla stór.
Því pilturinn þessi
prúði og hressi
varð pöddufullur af jólabjór.

Hann lætur sér sennilega appelsín nægja næstu dagana......

 


Sóða-sveinkar

Í Fréttablaðinu í dag sagði frá því að foreldrar í Ungverjalandi krefðust þess að jólasveinar þar í landi væru með löggilt jólasveinaskírteini áður en þeim leyfðist að heimsækja unga Ungverja.  Þetta mun hafa verið að gefnu tilefni - sveinkar þar í landi eiga það víst til að vera lélegir.

Ekki bætir tölvutæknin úr því máli því mbl segir:
"Bandaríski hugbúnaðarframleiðandinn Microsoft Corp. hefur rekið tölvujólasvein sinn eftir að í ljós kom, að hann var dónalegur við börnin". 

Ei gera skal að því skóna neinn
þó skeggaðan sjái kóna einn
að fari þar ljúfur
og léttfættur Stúfur;
nei líklegra er það sé dóna-sveinn.


Svik og prettir

Mikið er um svikahrappa í fréttunum þessa daga.  Aldrei þessu vant eru það ekki pólitíkusar sem svíkja og svindla heldur venjulegir meðaljónar.  Eða þannig kemur hann fyrir kayakræðarinn breski sem sviðsetti eigið andlát, sennilega til að geta lifað í vellystingum fyrir andvirði líftryggingarinnar.  Eitthvað er þó enn óljóst í þeim málum og má vart á milli sjá hvor er meiri skúrkur, hann eða eiginkonan.

Á kayaknum karlinn hann réri

og klókur hann þóttist á skeri
farkostinn brjóta
og var búinn að njóta
bótanna er aftur hann sneri.

Annar svindlari og nær okkur var strákurinn af Skaganum sem hringdi í Bush.  Hann hafði komist yfir leynilegt númer í Hvíta húsinu og þóttist vera Ólafur Ragnar að bjóða Gogga í heimsókn.  Hann náði þó ekki sambandi við Georg sjálfan en var lofað að hann myndi hringja tilbaka.  Það gerðist reyndar ekki gerði heldur heimsótti Akraneslöggan drenginn og skammaði. 

Víst má það  kjánaskap kalla
en krakkar þeir ýmislegt bralla.
Nú skrautlegur fífill
af Skaganum; Vífill
þeim skákar og slær út þá alla.

En Vífill litli er frægur um allt Ísland og jafnvel víðar - í bili.

 


Menntamál í ólestri

Í dag var birt alþjóðleg skýrsla sem fjallar um menntunarstig þjóða byggð á svonefndri Pisa-könnun sem framkvæmd er reglulega.  Þar voru ófagrar niðurstöður.  Hamingjusömum og ríkum Íslendingum fer aftur á þessu sviði.  Fimmtán ára unglingar hér standa jafnöldrum sínum að baki í lestri, stærðfræði og náttúrufræði.  Ekki góðar fréttir og spurning hvar við erum að gera rangt - eitthvað hlýtur að vera hægt að gera.

Þessu ástandi er erfitt að lýsa
meðal unglinga‘ í skólum er krísa;
þá alls ekki leikna
að lesa og reikna
lýsir könnun sem birt var í Písa.






Annir á Alþingi?

Ég hef mikið að gera þessa dagana og limrusmíði situr á hakanum.  En ég ætti kannski að reyna fyrir mér á Alþingi?  Þar getur ekki verið mikið að gera því þar er hægt að eyða tíma í að ræða hvernig nýfædd börn skuli klædd þessa fáu klukkutíma eftir fæðingu sem þau dvelja í boði ríkisins inn á fæðingardeildum.

Mér þykir gaman það grátt
og gerast í þinginu fátt;
þar sem  menn ræða
um hvort skuli klæða
nýbura‘ í bleikt eða blátt.





Réttvísin sigrar

Frábært að heyra að sekir fá makleg málagjöld í þessu þjóðfélagi: 

Maður á Suðurlandi stal vodkapela í ríkinu í Hveragerði í gær.  Hann náðist strax, var dreginn fyrir dómara í dag og dæmdur til að sitja inni í mánuð.  Var nokkur að kvarta yfir seinagangi  í réttarkerfinu?

Hér er dálítil saga um dela
er dauðþyrstur hnuplaði pela.
Slíkt alvarlegt er
og auðvitað fer
hann í steininn því ljótt er að stela.

Einfaldur  reikningur segir að ef 375 ml. kosti mánuð þá þurfi menn að sitja 80 daga fyrir hvern lítra.
Hvað fá menn annars fyrir nauðgun?


Spenna

Mogginn greinir frá því að lokaþáttur danska spennumyndaflokksins Forbrydelsen hafi verið sýndur í gær.  Um 2 milljónir Dana sátu sveittir við skjáinn og nöguðu neglur meðan afhjúpaður var morðingi skólastúlkunnar Nönnu Birk Larsen.

Morðinginn mun vera fundinn
og mögnuð víst lokastundin:
Í tuttugu þáttum
menn töpuðu  áttum
í borginni suður við Sundin.

Og nú bíðum við hér á Fróni eitthvað fram á nýjárið eftir þessum uppljóstrunum og pössum okkur á að spyrja einskis þó við hittum einhverja danska námsmenn í jólaboðum.


Ráðið fundið

Frábær frétt í kvöld af Króötum að vinna boltaleik í Bretlandi.  Þegar breskur söngvari fór rangt með textann í þjóðsöng þeirra fyrir leik hýrnaði svo yfir þeim að þeir möluðu Bretana.  Samkvæmt fréttinni þá skipti textinn um meiningu við framburðarvillu og reist fjöll sem allir elska urðu að elskulegum reistum lim.

Eða til að hafa þetta aðeins nákvæmara:  "þegar hann ætlaði að syngja: Mila kuda si planina, sem þýðir: Þú veist mín elskaða hve við elskum fjöllin þín, þá söng hann: Mila kura si planina, sem mun þýða: Elskan mín, limur minn er fjall!"

Nú er spurning hvort við getum ekki líka sungið þetta - til dæmis næst þegar við spilum á móti Dönum?

Hóp söngvara þjóðlegra, þaninna
er þarflegt að nota á Danina.
Næst raulum við keik
í knattspyrnuleik:
Mila kura (ekki kuda) si planina.

Frábært tungumál króatíska og örugglega auðvelt að semja limrur á því máli.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Limruleikur

Höfundur

Jóna Guðmundsdóttir
Jóna Guðmundsdóttir
Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (17.7.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband