25.11.2007 | 00:11
Af Strandamönnum
Jólamaturinn í ár? Veit ekki en spennandi nýjungar af Ströndum voru kynntar í grein í mbl. í dag. Þar eru bændur farnir að meðhöndla ærkjöt á sérstakan hátt og selja undir heitinu lostalengjur. Eða eins og segir í fréttinni:
"Á bænum Húsavík við Steingrímsfjörð hafa hjónin Hafdís Sturlaugsdóttir og Matthías Lýðsson hafið kynningarframleiðslu á svokölluðum Lostalengjum, sem eru unnar úr aðalbláberjalegnum og taðreyktum ærvöðvum".
Úr bláberjum kryddlög þar blanda menn
og til boða mun landsmönnum standa senn
ærkjöt sem losta
kveikir því kosta-
ríkt kjötið þeir framleiða Strandamenn
Nú er bara að sjá hvort framleiðslan stendur undir væntingum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.11.2007 | 23:06
Það sem skiptir máli í boltanum
Höfðatölurökin voru ekki notuð til að réttlæta tapleik í fótbolta gegn Dönum í kvöld og er það nú vel. Hinsvegar sagði nýr þjálfari að þetta væri í lagi því hugarfarið hefði verið gott. Loksins kom maður sem skilur að það skiptir máli að vera með - ekki að vinna.
Hann Óli er líklegast lúinn
enda leikurinn nokkuð snúinn:
Þó heldur sé veikt
holdið og steikt
er hugurinn reiðubúinn.
Bloggar | Breytt 22.11.2007 kl. 08:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.11.2007 | 23:51
Gott mál
Það er gott mál að kalla hlutina sínum réttu nöfnum. Nú vill Steinunn Valdís að ráðherrar hætti að heita ráðherrar og fari að heita eitthvað sem er ekki eins kynbundið. Spennandi verður að sjá hvaða viðtökur sú tillaga fær í meðförum alþingis og ráðherra.
Hlustirnar spennt við ég sperrti
er spekingsleg Steinunn sig herti:
Alþingis-kallar
og konurnar allar
eru kostuleg merkikerti.
Er ekki bara merkikerti ágætt orð yfir ráðherra: "Hæstvirt menntamálamerkikerti" hljómar ekki illa.
Annað merkikerti sem kveður að þessa dagana er Kári Stefánsson sem nú ætlar að plokka af þjóðinni aura fyrir að segja fólki að það geti fengið snert af fótaóeirð einhverntíma á lífsleiðinni. Þeir sem ekki studdu DeCode með hlutabréfakaupum hér um árið geta nú látið sitt af hendi rakna við málstaðinn.
Um ágóðann almenning svíkur
og enginn af bréfum varð ríkur
samt aura af trú-
gjörnum innheimtir nú
já engum hann er Kári líkur.
En reyndar má nú minna á að það voru verðbréfaguttar sem töluðu hlutabréf inná fólk - ekki Kári.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
19.11.2007 | 23:50
Dómadags vitleysa
Ef lífinu líkur með hvelli
mun ljóst vera að halda þá velli
þeir kláru sem hafa
sig kosið að grafa
í dimman og daunillan helli.
Eiginlega er bara eitt á hreinu. Ef dómsdagur verður í apríl vil ég frekar farast með ykkur hinum en verða eftir með Rússunum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.11.2007 | 23:55
Saga handa börnum
Þeir bjuggust við röfli og rexi
yfir rándýru sælgæti´ og kexi
og höfðu til vara
ef í hart skyldi fara
tvær kylfur og ágætis exi.
Í frétt frá Kína segir frá konu sem er bara með hálfan heila en spjarar sig samt ekkert síður en við hin. Mér datt strax í hug fræg saga Svövu Jakobsdóttur sem mig minnir að heiti "Saga handa börnum" en þar kemur einmitt heilalaus kona við sögu.
Nú kemur hún við engum vörnum
menn vilja hana rannsaka í törnum.
En ljóst þykir mér
að mætt sé nú hér
mamman úr Sögu handa börnum
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.11.2007 | 23:50
Enginn er eyland
Þó Grímsey í nepjunni norpi
rétt norður af Glerárþorpi
líklega verður
varla þó gerður
sáttmáli um hirðingu á sorpi.
En þetta er örstutt - aðeins fimm tíma sigling eða svo.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.11.2007 | 23:38
Fláttskapur
Í veðurstöð flærða og flátta
fólkið er stöðugt að þrátta.
Í einelti lagðir
eru menn sagðir
enda napurt og norðvestan átta*.
*Vindstig en ekki m/sek.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.11.2007 | 22:26
Hnípin þjóð í vanda
Mér fannst þetta nú ekki sérlega merkileg ræða og hlustaði bara með öðru eyranu. Hinsvegar hef ég komist að því í dag að það eru ótrúlega margir sem taka hann alvarlega. Vinnufélagi blessaði lánið að hafa ekki fengið íbúðina sem hún bauð í fyrir viku og maður í ræktinni lýsti fjálglega fyrir einkaþjálfara sínum hvernig hann ætlaði að brúa bilið fram á mitt næsta ár þegar vextir ættu að lækka aftur.
Þó vaxtakjör valdi hér hryggð
og verðbólgan æði um byggð
blómstra þó enn
alþingismenn
enda eftirlaun þingmanna tryggð.
Gott að einhverjir horfa fram á bjartari tíma!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.11.2007 | 23:47
Suðurnesjamenn
Gaman að fylgjast með Suðurnesjamönnum þessa dagana. Þeir hafa í hótunum við Landsvirkjun og landsmenn og vilja ekki að orkan sem beisluð er í þeirra umdæmi fari úr héraði. Ný og skemmtileg stefna og verður gaman að fylgjast með þeim meina okkur aðgang að Bláa lóninu og hætta að senda krakkana sína til Reykjavíkur í skóla.
Af stöðugri áfergju ota
menn ótrauðir fram sínum tota:
Suður með sjó
segja þeir nóg
af orku til einkanota.
Ég vaknaði annars við útvarpið í morgun. Eða vaknaði er nú ofsagt. Ég mókti undir löngu og áhugaverðu viðtali við mann sem var vel máli farinn þangað til hann sagði "ég aldist upp úti á landi". Ég sem líka ólst upp úti á landi hrökk svo illa upp að um meiri svefn var ekki að ræða - ég dreif mig í spjarirnar.
Viðmælandinn hann valdist
vel , en hlustandinn kvaldist
þegar hann sagði
þungur í bragði:
Í þorpinu upp ég aldist.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.11.2007 | 00:10
Í skessuleik
Ef konur eru skeleggar og skörulegar er það notað á móti þeim. Orð um röggsamar konur eru öllu ljótari en þau sem höfð eru um karla með svipaða eiginleika. Þær eru frekjur, breddur, nornir og skessur meðan karlarnir eru ákveðnir og láta engan eiga neitt hjá sér.
Ort um mann sem kallaði kvenkyns andstæðing sinn skessu fyrr í dag:
Hann langar að kalla hana lessu
og lemja helst vill í klessu
en hálfum með huga
hann lætur duga
að kalla skörunginn skessu.
Ljót orð um konur eru ófá og hér er vísa um það. Þetta er reyndar ekki limra en ég læt hana flakka - hún er ekki ný:
Tæfa, mella, drusla, drós
dula, hóra, skækja.
Flenna, gæra, frekjudós,
frilla, gála, dækja.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Limruleikur
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (19.7.): 1
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 3
- Frá upphafi: 1524
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 3
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar