7.11.2007 | 23:18
Ný útrás
Ef Danirnir ganga af göflunum
þá gott er að lækna með töflunum
sem að þeir fá
að sjálfsögðu hjá
íslensku útrásaröflunum.
Bloggar | Breytt 8.11.2007 kl. 21:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.11.2007 | 23:42
Reglufesta
Í Mogganum voru í dag birtar upplýsingar um hvað ferðamönnum er heimilt að koma með til landsins af vörum án þess að greiða af þeim toll. Fyrirsögn greinarinnar var "Jólafötin tekin í tolli" og í henni mátti lesa eftirfarandi upplýsingar:
"Einstakur hlutur má ekki kosta meira en 23 þúsund krónur og ekki má kaupa inn fyrir meira en 46 þúsund krónur samtals".
Almannarómur heldur því fram að það ríki mikill metnaður meðal tollvarða að fylgja þessum kjánareglum út í æsar og ég heyrði sögu af þjóðþekktum skemmtikrafti sem þurfti að standa í stappi við að fá að koma með vinnufötin - smóking - heim að lokinni tónleikaferð.
Fyrirsögn Moggans gefur líka til kynna að tollverðir stefni að því að klæða landann úr á næstu vikum - svona til að koma í veg fyrir að einhver komi heim í nýjum kjól.
Um það ég hugsa með hrolli
hvað hrærist í þeirra kolli
sem ánægju fá
af því að sjá
almenning hátta í tolli.
Án þess að hafa sérstaklega dýran smekk þá veitist mér létt að fara yfir þessi mörk - svona ef ég dett inn í flotta skóbúð í útlöndum. Kannski búðir í London og Kaupmannahöfn fari að bjóða Íslendingum að kaupa hægri skóinn núna og taka þann vinstri frá þangað til kaupandinn kemur aftur?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.11.2007 | 23:38
Glæsileiki?
Í mbl. í dag segir frá því að Elísabet Bretadrottning hafi verið valin ein af 50 glæsilegust konum heims af tímaritinu Vouge. Halló? Er ekki verið að gera grín að kóngafólkinu? Hún er rík, hún heldur sér vel, hún á dýr föt og hún er alltaf snyrtileg og í vel straujuðum fötum - en glæsileg - er það nú ekki fullmikið sagt?
Fjölmiðlar frá því nú greina
og fréttnæmt það er, vil ég meina:
Ef Beta er flott
þá hún gerir það gott
glæsileik sínum að leyna.
Það var annars fleira merkilegt við þessa frétt.
Í þessum mánuði verður hún fyrsti meðlimur bresku konungsfjölskyldunnar sem fagnar demantsbrúðkaupsafmæli og í næsta mánuði verður hún elsti meðlimur bresku konungsfjölskyldunnar sem enn er við völd, bætti talskonan við.
Skemmtilegt að hún skuli fagna demantsbrúðkaupi en hver ætli drepist í þessum mánuði þannig að hún verði sú elsta enn við völd í þeim næsta?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.11.2007 | 00:16
Hættan liðin hjá?
Í Flugleiðavélina fóru' inn
fúlir þó hefðu með bjórinn
englar úr Víti
uppá þau býti
að lag tæki lögreglukórinn.
Það vakti athygli margra að með í för þessara Vítisengla voru eiginkonur þeirra. Þær teljast því greinlega ekki til Vítisengla og vekur það upp spurningar hvort hér sé um að ræða kallaklúbb á borð við Lions og Rótarý?
Konurnar þær fara fljótar í
félög og margskonar dótarí
en víst er að ekki
verma þær bekki
hjá Vítisenglum og Rótarý.
En sem ég er að skrifa þetta rifjast upp fyrir mér konur eru víst orðnar fullgildir eða að minnsta kosti hálfgildir meðlimir í Rótarý hérlendi þannig að það eru líklegast bara Vítisenglarnir sem eftir sitja í karlrembugírnum? En þetta er nú samt ekki alslæmt séð frá bæjardyrum okkar kvennanna:
Við konur með kostum og göllum
klækjóttar ýmislegt bröllum
en óttumst þó eigi
dómsins á degi
því Víti er kjaftfullt af köllum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.11.2007 | 23:24
Neyðarkelling og vítisenglar
Landsbjargarfólkið fer sniðuga leið í fjáröflun sinni þetta árið. Í staðinn fyrir að keppast um flugeldasöluna við íþróttafélög og skáta hafa þeir ákveðið að selja lyklakippur til ágóða fyrir starfsemi sína. Forsetinn lagði þeim lið í dag í Smáralind. Þar seldi hann heilan helling af neyðarköllum. Þessir neyðarkallar eru litlar björgunarsveitarfígúrur sem eru mótaðar sem konur. Ég er vissulega á þeirri skoðun að konur séu menn - en eru þær kallar?
Gott var hinsvegar að sjá hvað forsetinn varliðtækur við söluna. Einkum meðan ekki er ljóst hvort hann fer aftur í framboð. Ef ekki getur hann haft í sig og á Dorrit með götusölu.
Ef fer undan fæti að halla
finnur hann lausnina snjalla:
Í Smáralind mætir,
múginn þar kætir
og selur þar konur sem kalla.
Mikið gekk á suðrá velli í dag þegar Vítisenglar reyndu að brjótast inn í landið. Löggan mætti grá fyrir járnum og sendi þá víst beint heim til föðurhúsanna sem munu nú vera í Osló en ekki Víti sem betur fer.
Við löggur þó lengi þeir kýti
og lögfræðingsaðstoð sér nýti
Augljóst má vera
að hér ekkert að gera
hafa englar sem koma úr Víti.
Loks varð mikil dramatík í morgun þegar Garðbæingar fundu hræ af beljum á fína, nýja byggingarlandinu sínu. Grunur lék á að hér væri skepna sem hefði verið sýkt af miltisbrandi og það er víst ekki par skemmtilegt viðureignar. Allt fór þó vel, eins langt og það nær, því enginn vill hræin svo þau eru geymd ti að byrja með í bala þangað til lausn finnst á því hvar þau eiga heima.
Það steðjaði um stund að þeim vandi
er á steikdýru byggingarlandi
Garða- í -bæ
grafa fann hræ
gegnsýrt af miltisbrandi
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
2.11.2007 | 00:01
Ekki er (sam)ráð nema í tíma sé tekið
Það er fátt meira rætt þessa dagana en samráð á matvörumarkaði. Menn hafa haldið því fram að aðalkeppinautarnir hafi samráð um verðbreytingar og hittist til að ræða málin. Ekki veit ég nú hvað til er í því en samráð hefur reyndar sést fyrr hér á landi ef út í það er farið....
Þá skoðun veit gamla og gróna
og gera nú menn að því skóna:
Að sé í það spáð
þá sam- hafi ráð
sjoppurnar Bónus og Króna.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.10.2007 | 23:40
Í hers höndum
Ekki er margt að frétta úr Keflavíkinni nú um stundir, Reykjanesbæ ætlaði ég að segja. Þar þrífst nú samt líf eftir herinn þvert ofan í hrakspár hermangaranna og það jafnvel án álvers.
Hinsvegar verða þeir ekki herlausir öllu lengur. Í mbl.is í dag segir "Í fréttatilkynningu kemur fram að kafteinarnir Ester Daníelsdóttir og Wouter van Gooswilligen eru flutt til Reykjanesbæjar frá Noregi þar sem þau hafa fengið í verkefni að hefja starf Hjálpræðishersins".
Í Keflavík úrskeiðis flest fer
en fjarvera hersins þó verst er.
En Hjálpræðisher-
inn boðskap þeim ber
er birtist þar kapteininn Ester.
Mér er kannski ekki málið skylt, en kapteinninn er það, svo ég trúi ekki öðru en að við taki önnur 50 ár með her suðrí Keflavík.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.10.2007 | 23:09
Kátt í höllinni?
Las frétt um misheppnaða tilraun til fjárkúgunar í mbl.is í dag. Tveir menn sögðust hafa undir höndum myndband sem sýndi einn úr bresku konungsfjölskyldunni hafa munnmök. Til viðbótar sögðust þeir líka hafa upplýsingar um að sami aðili "hefði látið aðstoðarmanni í té kókaín".
Sá allmikið upp í sig tók
sem alls ekki hróður hans jók
og hafði svo gefið
hirðsveini í nefið
rándýrt og konunglegt kók.
Ekki mikið þó að Scotland Yard hafi brugðist skjótt við og handtekið myndbandamennina með hraði til að koma í veg fyrir að myndir af þessum sómasveini kæmu fyrir augu almennings.
Varðandi hina handteknu mun annar þeirra vera af íslenskum ættum; Paul Aðalsteinsson sem sýnir okkur hvað okkar hugmyndaríku útrásarmenn leggja víða hönd á plóg.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.10.2007 | 22:42
Barnagælur eða kellingavæl
Ég hef sungið vísurnar um negrastrákana tíu eins lengi og ég man eftir mér. Ég hef hinsvegar aldrei átt bókina heldur sá ég hana í fyrsta skipti í liðinni viku. Þá komst ég að því að ég hef misskilið söguna herfilega allt til þessa dags.
Ég söng eins og aðrir krakkar um strákana sem týndu tölunni; einn drakk ólyfjan, annar sprakk á limminu og enn einn át yfir sig en þegar aðeins einn var eftir hitti hann dömu og þau fóru í bíó. Og þá kom rúsínan í pylsuendanu; ekki leið á löngu þar til þeir voru aftur tíu. Hér sá ég alltaf fyrir mér að strákarnir hefðu sprottið upp, einn af öðrum þegar bíóferð var í boði og skellt sér með.
Ég átti ekkert bágt með að láta þá lifna við; ég var alin upp í sunnudagaskóla þar sem Lazarus reis frá dauðum með reglulegu millibili, lamaðir fengu mátt og blindir sýn fyrir nú utan upprisu páskanna sem við lifðum okkur inn í á hverju ári.
Þessi misskilningur minn leiðréttist hinsvegar þegar ég skoðaði myndirnar í endurútgefinni barnabókinni. Dauðu strákarnir eru dauðir en það gerir lítið því bíóparið er búið að eignast heilan hóp af litlum svörtum negrastrákum sem fylla síðustu síðuna og negri kemur í negra stað, eða hvað? Fyrirgefið mér, en mér finnst það ekki fallegur boðskapur og ég get ekki tekið undir með Kolbrúnu Bergþórsdóttur sem skrifar í blaðið sem nú heitir 24 stundir að "sagan endi vel".
Ef ég skildi hana rétt þá var sú sama Kolbrún í bókmenntaþætti að lýsa yfir velþóknun sinni á nýrri Biblíuþýðingu þar sem "bræður" verða "systkin" til að konum líði betur í kirkju. Hefði þá ekki eins mátt breyta orðinu "negrastrákar" í "apaketti" í barnabókunum svo að lituðum börnum liði betur þegar bókin verður á vegi þeirra. Lituð börn eru nefninlega orðin hluti af okkar veruleika ólíkt því sem var þegar þessi bók var skrifuð. Og orðið apakettir passar alls ekki illa við myndirnar því þær minna ekkert sérstaklega á drengi - öllu frekar á apa.
Allt er með kjörunum kyrrum
þó kellingum valdi það pirrum:
Menn ritningu fegra
en raula um negra
sem forheimskir drepast sem fyrrum.
Já, sennilega er þetta bara kellingavæl og ég kann ekki að taka gríni....
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.10.2007 | 00:14
Slæðukona
Það var mynd sem vakti athygli mína í einu af helgarblöðunum. Hún sýndi Geir Haarde að afhenda páfanum biblíuna. Með honum á myndinni voru nokkrir karlmenn og ein skrýtin vera með svartan renning eða slæðu yfir höfði sér. Við nánari aðgát tel ég að þetta muni hafa verið eiginkona forsætisráðherra. Slæðan virtist vera sett til að páfi þyrfti ekki að skaðast á því að renna augunum yfir höfuð konunnar.
Sennilega hefur Inga Jóna líka stillt sig um að segja nokkuð við þetta tækifæri. Það er nefninlega ekki víst að það sé búið að laga orð Páls postula í útgáfu Vatikansins um að konur skuli þegja á samkomum þó að það sé víst búið að taka broddinn úr orðum hans í okkar þýðingu.
Geir á náði vissulega ekki í sætustu stelpuna eins og hann sagði sjálfur, en þó er konan hans langt í frá svo slæm að hann þurfi að breiða yfir hausinn á henni þegar hann fer með hana úr landi.
Það finnst mér ei flókið að skilja
að þær flottustu hann ekki vilja.
Að lokum þó hlaut
hann lífsförunaut
sem nú virðist nauðsyn að hylja.
Mér finnst reyndar alveg sjálfsagt að við virðum trú og menningu þeirra sem við heimsækjum en hér hefði Geir skorað feitt ef hann hefði breitt yfir sig líka - konunni til samlætis.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Limruleikur
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.7.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar