Er á meðan er...

... að heimurinn hossar mér.

Þegar ég byrjaði að blogga í vetur kom það fyrir af og til að umsjónarmaður vísnahornsins hjá Mogganum, Pétur Blöndal, las síðuna mína og birti af henni limru og limru.  Ég væri að skrökva ef ég segði að mér hefði leiðst það, en ég bar mig vel og lét á engu bera.  Sem var eins gott því allt í einu datt ég út af vinsældarlistanum og nú eru það bara alvöruskáld sem þar sjást á prenti.

Margoft í Moggann ég glugga
þar margt finn sem bloggarann hugga
í limrur það set
er glöð ef það get
og í sætinu roggin mér rugga.

Er ég byrjaði bloggið í vetur
og bullið það færði í letur
mitt hýrnaði geð
er hafði mig með
í horninu af og til, Pétur.



 


Iðrun og yfirbót?

Í Fréttablaðinu í dag vakti athygli mína smáklausa um fyrirhugaða utanlandsferð forsætisráðherra.  Hann ætlar að bregða sér til Rómar á næstu dögum og gott ef hann er ekki þegar lagður af stað. 

Hver tilgangurinn með ferðinn er kom ekki fram í fréttinni (eða ég hef ekki lesið nógu vel) en þó skilst mér að hann hafi ætlað að færa Páfanum Biblíu - eitthvað sem ég hélt að væri öruggt að ekki væri skortur á þarna suðrí Páfagarði.

En gæti verði að ferðin verði í anda fyrri tíma ferðalanga sem klæddu sig í sekk og ösku og töltu þetta berfættir og þóttust með því vera að gera upp fyrir syndir sínar? 

A
thygli Geir mína gómar
og gott vil ég segja að hljómar:
Hann býr sig af stað
og brátt ætlar að
arka berfættur suður til Rómar.


Refskák

Nýlega vorum við nokkur að ræða refarækt.  Hvort mikið væri enn um refabú og hvernig sá búskapur gengi.  Eins og svar við þessum pælingum kom frétt í mbl. í dag þar sem segir frá síðasta refabúi landsins.  Það mun vera austur á Jökuldal og bóndinn þar (frændi Bjarts?) segir "að ekkert hafi verið upp úr refaræktinni að hafa í 4-5 ár" og að hann sé farinn að huga að því að bregða búi.

Svona fór um sjóferð þá.  Í æsku minni áttu refabú að bjarga, ef ekki öllu þá flestu.  Ekki veit ég hvenær þetta hætti að vera bjartasta framtíðarsýn hins íslenska bónda en þessi er að líkum búinn að fá nóg.

Hann bráðlega hættir með búskapinn
ég býst við að leggi‘ hann kvótann inn.
Flytji  í bæinn,
búi við sæinn
og í rökkrinu skríði‘ undir refaskinn.

En sennilega er þessi bóndi 37 ára, snjósleðagæi sem flytur á Reyðarfjörð og fer í stjórnunarstöðu hjá Fjarðaráli?


 


Öfundsýki?

Í fréttum sjónvarpsins heyrði ég eitthvað utan að mér um óréttláta kosningu knattspyrnukonu ársins án þess að ég fengi samt nokkurn botn í málið.  Ég fór því að spyrjast fyrir. 

Fréttaskýrendur mínir segja að öfund og ólund muni hafa ráðið því að stelpurnar, sem eiga að kjósa þá bestu úr sínum hópi, fóru að senda hver annarri SMS um að kjósa ekki markahæstu og glæsilegustu fótboltakonu landsins Margréti Láru Viðarsdóttur.

Þær fréttir mér  fjölmiðlar báru
að fótboltastelpurnar kláru
áttu harma að hefna
og hétu að nefna
ekki á miðanum  Margréti Láru.

Slíkt er heldur betur vatn á myllu þeirra sem hafa þá kenningu að konur séu konum verstar og geti ekki staðið saman um nokkurt málefni.

Og sjónvarpið flutti þá frétt
að í fótbolta muni það rétt:
Konurnar flestar
eru konunum verstar.
Slíkt  kalla má biksvartan blett.

Eða er kannski einhver önnur skýring?


Dýrt er drottins orðið

Ég kíkti í bókabúð í dag og rak þá augun í Biblíuna í nýrri þýðingu sem taka á í notkun á morgun í kirkjum landsins.  Nýju útgáfuna mátti finna í harðspjöldum eða kilju og eins var hægt að velja um tvo eða þrjá liti á kápu.   Áður en ég tók að velja mér lit kíkti ég samt á verðið og ákvað að láta gömlu þýðinguna duga:  Kiljan kostaði hátt á sjötta þúsund og harðspjaldabókin var eitthvað á áttunda þúsundið.

Ég ætla ekki innihald rýrt
og eflaust er málfarið skýrt
en upplýsi hér
að ofbýður mér
hve Drottins orðið er dýrt.

Ég alls ekki botnað fæ baun
í hve Biblían dýr er í raun:
Ég get ekki séð,
eða getur það skeð
að greidd séu höfundarlaun?

Þessa dagana eru Alþingismenn eina ferðina enn að fjalla um það þjóðþrifamál að leyfa börnunum sem afrgreiða í Bónus og 10-11 að selja vín og bjór með ostinum og skyrinu.  Mér finnst þetta nú mesti óþarfi enda vínbúðir víða með góðu úrvali og góðri þjónustu en veit að mörgum finnst þetta mikið réttlætismál.  Meðal þeirra er frjálshygginn heilbrigðisráðherra sem hefur greinilega ekki áhyggjur af því að aukið aðgengi að áfengi auki neysluna.

Það eykur heilbrigði og heilsufar
ef hægt er að kaupa allstaðar
gos, vín og bjór
segir Guðlaugur Þór
og galvaskir frjálshyggjupostular.




Frá toppi til táar

Nú verð ég að játa að síðustu tapleikir landsliðsins okkar í knattspyrnu hafa farið fyrir ofan minn garð og neðan.  Ég hef heldur ekki lagt mig eftir mræðum á öldum ljósvakans um þessar ófarir en heyrði haft eftir einhverjum spekingi í dag að nú yrðum við að fara í "naflaskoðun frá toppi til táar".  Sem er auðvitað alveg rétt.

Knattspyrnulandsliðið veldur 
og vilja það spekingar líta á:
Telja gegn voða
vænlegt að skoða
naflann frá toppi oní tá.

Enn og aftur berast fréttir að vestan sem skipta okkur miklu.  Nú var það hún Britney Spears sem ók yfir löpp á ljósmyndara - hvað með það?  Væri það ekki frekar frétt ef hún kæmist hjá því að verða sér til skammar svo sem eins og einn dag?

Hún er ekki sómakær svanni
heldur svarkur, bytta og glanni:
Blindfull og slöpp
ók Britney á löpp
á blá- vita -saklausum manni.

Fer nú sennilega að verða fokið í flest skjól fyrir þessari konukind.


Að vestan

Í gær las ég frábæra frétt úr Borgarbyggð.  Þar fundaði landbúnaðarnefnd og ályktaði um að banna skyldi nektardans í gjörvallri sveitinni.   Ekki veit ég hvort þetta var að gefnu tilefni en hver veit?   

En viðbúið er að nefndin hafi þurft að fara í vettvangsferðir í aðrar sveitir (Kópavog?) til að kynna sér fyrirbærið áður en bannið var samþykkt.

Borgarfirði er bændafans
sem bara vill polka og óla-skans:
Því strengdu þess heit
að sinni í sveit
væri nauðsyn að banna nektardans.


Lokasprettur

Það eru margir gefnir fyrir að stunda spádóma þessa dagana.  Ég er ein þeirra og spái því hér með að Villi verði settur af sem oddviti íhaldsins fyrir helgi - til vara á mánudag í næstu viku.

Í málininu er heilmikill hiti
og hans mun það banabiti.
Fljótlega frétt
fram verður sett:
Odd-  lengur er Villi‘ ekki -viti.

Og nú er bara að sjá hvort spáin rætist.




Nú er komið nóg

Þá nú er okkur sko nóg boðið.  Okkur borgarbúum?  Vegna orkuveitunnar?  Vegna þess að við losnum ekki við borgarstjórann þó að hann sé um það bil að verða fyrrverandi?

Nei okkur konungshollum Íslendingum.  Sú frétt barst nefninlega út um heimsbyggðina í dag að Viktoría Gústafsdóttir hefði hætt við að gifta sig í sumar þar sem granni hennar og frændi Jóakim Henriksson væri búinn að skáka henni með því að bóka salinn og bjóða öllum gestunum - eða eins og segir á mbl.is:

Brúðkaupin myndu skyggja hvort á annað auk þess sem dagskrá hirðanna er svo þétt að það væri hreint ómögulegt að koma tveimur brúðkaupum fyrir á henni.”

Þetta finnst mér með ólíkindum - er það ekki vinnan þeirra hjá hirðinni að vera alltaf í veislum? Og hvað munar um eina í viðbót?  Alveg er ég viss um að Óli og Dorrit væru til í að skella sér út með litlum fyrirvara.  En nei, ekki til Stokkhólms - þar er sú stutta bara hætt við allt.

Það gefst ekki færi‘ á að gift´ana
enda gestirnir ekki til skiptanna:
Þeim Jóakim rændi
sá ráðríki frændi
og ráðahag þannig mun  svipt´ana.



Til í allt?

Enn hamast fjölmiðlar á því hver sagði hvað og hver vissi hvað, hvenær og hver felldi borgarstjórnarmeirihlutann.   Síðustu pælingar ganga út á SMS svohljóðandi:  "til í allt, án villa".  Heimildamaðurinn er Björn Ingi en óljóst er hver sendi og hver móttók. 

Í skyndingu birtust á  skjá

þessi skilaboð, einhverjum hjá:

„Til er í allt

og ýmislegt falt

og Villa nú vill enginn  sjá“.





« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Limruleikur

Höfundur

Jóna Guðmundsdóttir
Jóna Guðmundsdóttir
Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.7.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband