Alvörufréttir og ekkifréttir

Hafnfirskur maður komst á blað þegar hann hringdi í lögregluna um nótt vegna óláta í eigin rúmi.  Villtir bólfélagar hans reyndust kettir sem fyrir rest neyddu eigandann út á svalir (þar sem hann læsti sig reyndar úti í þokkabót).  Er hægt að vera meiri Hafnfirðingur? 

Löngum er lítið til varnar
í lífinu‘ er  baráttan harðnar:
Í lögguna fljótt
skalt ná ef um nótt
er köttur í bóli bjarnar.

Fyrirsögn í mbl. í dag: Ekki ekið á mann við Hraunberg í byrjun ágúst.  Það er greinilega orðið svo slæmt ástand í umferðinni að það er frétt að einhver sé ekki keyrður niður.  Merkilegt að þetta hafi ekki komið í ljós fyrr - það eru nú bráðum tveir mánuðir síðan maðurinn varð ekki fyrir bíl.

Það er skrýtið oss hafi‘  ekki skekið
og ég skil vart að hafi‘ ekki lekið
í blöðin sú frétt
sem
 reynist nú rétt;
á manninn var alls ekki ekið.


Fróðleiksmolar

Nú um stundir er forseti Írans, Ahmadinejad að heimsækja BNA og Bush.  Hann hafði það helst að segja þegar hann ávarpaði stúdenta í NY að samkynhneigðir væru ekki til í Íran - ekki frekar en kjarnavopn.

Hann sagði þeim sannleikann dýran
um sæluríkið,  hvar býr hann:
„Heima hjá mér
homma‘ enginn sér;
þeir finnast engir í Íran.“ 

Það sagði‘ hann með þunga og þótta
en þessháttar vekur samt ótta:
Allir á braut
því einhver þá skaut
eða lögðu þeir flestir á flótta?

Hvað veit maður? 

Sjaldan lýgur almannarómur

Mikið er rætt um dópskútuna frá Noregi, bæði í fjölmiðlum og meðal almennings.  Almenningur telur að þetta sé einungis eitt fley af mörgum sem hingað sigli með dóp á markað.   Í sama streng taka þeir hjá SÁÁ sem halda því fram að einungis um 10% af því dópi sem til landsins er flutt hafni hjá lögreglunni.

Fjöldamörg fley  hingað sigla
og firnum af dópi þau smygla.
Fyrir seðla‘ er það falt
og selst vísast allt
og nær ekki‘ að marki að mygla.

Reyndar heyrði ég sagt í útvarpinu á föstudagsmorgun að þetta væri mesta magn sem smyglað hefði verið til landsins í einu - en ég geri ráð fyrir að fréttamaðurinn hafi átt við að þetta væri mesta magn sem hefði verið gert upptækt í einu.

En í útvarpinu á laugardagsmorgun voru hinsvegar furðufréttir - ráðherra sem baðst afsökunar! Guð láti gott á vita.  Hvað gerist næst?  Einhver axlar ábyrgð?  Einhver segir af sér?  

Hér var það sem kunnugt er, Kristján Möller sem bað skipaverkfræðinginn Einar Hermannson afsökunar á því að hafa kennt honum og honum einum um ferjuklúður Vegagerðarinnar. 

Í góðviðri' á Akureyri
í útvarpi tíðindin heyri:
Einar hann bað
um afsökun, það
gerir Kristján að manni meiri.

Og hér verð ég sem sannur Akureyringur að koma því á framfæri að laugardagsveðrið á Akureyri var alveg frábært - einkum framan af degi:  Sól og logn og september eins og best gerðist hér áður fyrr.


Alvöru glæpamál

Mér var nær að grínast í gær með klaufalega þrjóta að stela útvarpstækjum.  Í dag var þjóðin nefninlega minnt á að alvöruglæponar stunda vinnu sína hér eins og annarsstaðar.  Já og meira að segja austur á Fáskrúðsfirði.  Eru þetta ef til vill margfeldisáhrifin af álverinu sem hvað mest var rætt um hér fyrir nokkrum misserum?

En í svona málum er gott að stóla á Stefán.  Á sjónvarpsskjánum, með öllum hinum löggunum, var hann svo atkvæðamikill og ábyrgur að ég slakaði á - fullviss um að þessi mál væru í góðum norðlenskum höndum.

S
egja má að honum sópi
hvar situr í lögregluhópi:
Búinn að góma
glæpona‘ og dóma-
dags birgðir af banvænu dópi.




Ekki frétt

Þegar lítið er að frétta fá fjölmiðlarnir að kíkja í dagbókina hjá löggunni. Þaðan kemur vafalaust fréttin sem ég las á mbl.is og meðan ég var að lesa hana var hún lesin orðrétt í tíufréttum útvarps.

"Þjófur spennti upp útidyrahurð hjá fyrirtæki í Reykjavík í nótt og hafði á brott með sér hársnyrtivörur, sokka og smáræði af skiptimynt. Í sama borgarhluta var farið inn í stigahús en þar stal þjófurinn nokkrum skópörum.  Í miðborginni tók karl á miðjum aldri útvarpstæki ófrjálsri hendi úr glugga í húsi í ónefndri götu. Til hans náðist og var honum gert að skila útvarpstækinu aftur á sinn stað.... "

Gaman að maður sem stelur útvarpstæki skuli koma í helstu fréttum og það eftir að hann er búinn að skila útvarpinu. Hinsvegar er arfaslæmt að sjampóþjófurinn ógurlegi skuli ekki hafa náðst.

Um þetta yrkja má drápu
og innbundna selja í kápu:
Hve skuggalegt er
ef skúrkarnir hér
skópörum stela og sápu.


Ferðalag

Það voru skrautlegar fréttir í dag af "verktökum" sem voru að flytja hús milli lóða í miðborginni.  Þeir virðast hafa skautað hratt í gegnum undirbúning verksins; gleymt að mæla breidd á farmi, halla á götu og ýmislegt þessháttar.  Þegar húsið var komið á áfangastað voru því göturnar sem ekið var eftir sem sviðin jörð og í fréttum sjónvarpsins mátti sjá brotnar rúður í  húsum, rifnar klæðningar og reiða húseigendur

Á Hverfisgötu stóð kofi einn,
keypti hann einhver jólasveinn.
Flutti með kurt
kumbaldann  burt
og stendur nú vart yfir steini steinn.

En þetta virðist nú samt hafa endað vel og nú verður gaman að sjá hvort þarna verði ekki innréttuð krá innan tíðar.


Margt er skrýtið í kýrhausnum

 

Ófarir Bosnískra hjóna eru tilefni smáfréttar í mbl.is í dag.  Þau voru greinilega bæði orðin leið á hjónabandinu og farin að leita fyrir sér á netinu eftir einhverju betra.  Ekki vildi þó betur til en svo að þegar þau fóru að mæla sér mót við netfélagann þá kom í ljós að þau höfðu verið að daðra hvort við annað í netheimum. 

„Mín kona er nöldursöm naðra“
var neikvæður kallinn að blaðra.
En fattaði þá
-
og feikn honum brá -
að við frúna var tekinn að daðra.

„Hann er vesæll sem vindlaus blaðra
og verður að finna sér aðra“
sagði frúin en fraus
er fékk í sinn haus
að við dónann var sjálfan að daðra.

Því miður endar sagan ekki eins vel og ég hefði viljað.  Þessi hjón smellpassa saman og eiga hvort annað skilið en þau munu þó samt hafa sótt um skilnað - á grundvelli þess að makinn var ótrúr!

Ný amerísk rannsókn segir að sóðaskapur aukist vestra.  Helmingur karla þvær sér ekki eftir klósettferðir ef marka má síðustu tölur.

Á klóinu segja menn Kanana
með krumlunum halda um ranana
en puttana svo
passa´ekki´að þvo
sem er OK ef borða menn banana.

Þá eru það gleðitíðindi héðan af Fróninu í haustrigningunum.  Loks hefur einn auðmaður ákveðið að spreða milljarði í annað en veislur og vélknúið dót og gefur pening til menntamála.  Hér er um að ræða fyrrverandi forstjóra Actavís sem gefur HR dágóða fúlgu.  Vonandi kemur nú skriða af öðrum sem ekki vilja vera minni menn og skreppa því með aura í skóla landsins.

Hér sést hvað milljarðar makta:  Kýs
menntun að efla og vakta.  Plís
skundi nú menn
í skólana senn
með aur eins og Róbert í Actavis.

 


Að utan

Það er alltaf gaman að fá fréttir af því sem til framfara horfir úti í hinum stóra heimi.  Þannig var í Mogganum frétt af andfætlingum vorum, Áströlum, sem munu hafa tekið þátt í að borga brjóstastækkunarkostnað hjá þeim sjóliðum sem þess óska.  Einhverjir öfundarmenn hafa auðvitað mótmælt - en ekki hvað.

Þar herinn á réttu róli var
þó rógtungur sumar góli þar
og vilji það stoppa
að stinnari kroppa
og stækkuð brjóst fái sjóliðar.

Önnur og ekki eins skemmtileg frétt var um teiknarann sænska sem teiknaði mynd af hundi í blað.  Ég sá þessa mynd og hún var ekki sérlega vel teiknuð og varla til að fórna sér fyrir, en sem kunnugt er hefur verið sett fé til höfuðs þessum drátthaga manni.  Hann segist þó vera rólegur enda kominn með lögregluvernd á kostnað sænskra skattgreiðenda.

Hann sagður er léttur í sinni  lund
en samt mun hann þurfa vernd um stund.
Ég á hér við þann
ágætismann
er spámannsins  setti haus á hund.


Vetrardagskráin

Vetrardagskrá ríkisfjölmiðlanna er byrjuð.  Þar er innifalið ótrúlegt úrval lélegra bíómynda og svo auðvitað Spaugstofan.   Hún hefur verið á allra vörum síðustu daga, eftir að í ljós kom að búið er að reka Randver.  Þjóðin virðist í uppnámi og bloggarar skoruðu á samherja hans að neita að koma fram án hans.  Samherjunum er hinsvegar nokk sama - og boða nýja tíma með gestaleikurum og þar stóð Hilmir Snær sig vel sem kynvillingur og skokkandi auðmaður.

Spaugstofan bærilegt bland er
af bulli og ádeilu og grand er
Hilmir þar Snær
en hlegið ei fær
þjóðin fyrst rekinn var Randver.


Íþróttaandinn

Einu sinni var talað um "hinn sanna íþróttaanda".  Hugtakið "heilbrigð sál í hraustum líkama" hefur sennilega orðið til um þær mundir.  Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar og mikið sterablóð um æðar íþróttamannanna.

E
nga skýringu haldbæra hef um
hóp þann af knattspyrnu - refum,
sem beygðir af tapi
skiptu mjög skapi
og börðust með hnúum og hnefum.

En eins og kunnugt er voru N-Írarnir sem hjálpuðu Íslendingum að vinna fótboltaleik í gær, ekki komnir nema suður í Leifsstöð þegar þeir fóru að gera upp málin.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Limruleikur

Höfundur

Jóna Guðmundsdóttir
Jóna Guðmundsdóttir
Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.7.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband