12.9.2007 | 23:39
Fótbolti
Alveg er það segin saga að ég á ekki að horfa á íþróttir. Þarna munu okkar menn hafa verið á góðri siglingu gegn Norður-Írum þegar ég kem að skjánum. Mínútu seinna fengu Íslendingar á sig víti og staðan varð eitt - eitt.
Ég hætti strax að horfa og það rættist úr þessu. Sigurinn getur þó varla verið sérlega sætur því mér skilst að Írarnir hafi gert út um leikinn með sjálfsmarki?
Það voru hefðbundin læti og hark,
hrindingar, pústrar og þjark:
Okkar sigur: Tvö-eitt,
en samt er það leitt
því sjálfs- gerðu Írarnir mark.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.9.2007 | 23:20
Orkubolti
Ég geri ráð fyrir að í dag sé mörgum farið eins og mér; létt yfir því að vofu atvinnuleysis hefur verið bægt frá að minnsta kosti einu heimili hér í borg: Hann Bjarni Ármanns er kominn með fasta vinnu. Látum vera að hann hafi þurft að kaupa stólinn undir sig fyrir litlar 500 millur - hann situr vonandi tryggt um stund og við óbreyttar konur öndum léttara.
Ég er bæði röggsöm og raunasmá
og reyni á marga að bauna, já
en býsn var mér létt
er barst mér sú frétt:
Hann Bjarni er kominn á launaskrá.
Ég var reyndar að vona að hann réði sig frekar á leikskóla (Bjarnaborg?) en það er nú ekki á allt kosið og vonandi nýtist hann vel hjá því alíslenska fyrirtæki Reykjavik Energy Invest.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.9.2007 | 23:16
Úr háloftum
Í dag var svo framhald þegar flugþjónar (freyjur?) mættu á fund til að mótmæla - ekki of mikilli vinnu heldur of lítilli skilst mér. En sá fundur mun þó ekki hafa komið að ráði niður á farþegum.
Flugþjónar sitja og funda
og flugstjórar heima við blunda.
Frá þessu greinir
og farþegar einir
því flugið af alvöru stunda.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
9.9.2007 | 23:45
Gleðifréttir
Það hefur verið helst í fréttum þessa helgi að lögreglan er farin að sinna löggæslu. Nú eru menn sektaðir fyrir að brjóta lögreglusamþykkt og eins og til dæmis að kasta af sér þvagi á almannafæri og að henda bjórdósum og flöskum í miðbænum á nóttunni.
Í hlýðni mun stöðugur stígandi
en stjórnleysi og þessháttar hnígandi
ef löggan af mekt
lætur fá sekt
það lið sem á strætum er mígandi.
En ætli lögreglan gæti lent í þvi að þurfa að veita afslátt - einskonar "tveir fyrir einn" tilboð?
En hvað myndu verðirnir vösku,
víðsýnu, hugdjörfu, rösku,
gera við sál
sem væri mál
og migi í og fleygði svo flösku?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.9.2007 | 22:55
Fréttir að austan
Allir miðlar hafa verið uppteknir af hermanninum okkar í Írak síðustu daga. Enginn vissi reyndar að hann var þar, en flestir eru glaðir að hann skuli vera kallaður heim.
Frá Írak nú kemur hinn káti
karl, þó ég fúslega játi
að vissum við fæst
að sú von hefði ræst
að væri þar íslenskur dáti.
Hann er nú reyndar kallaður friðargæsluliði sem ég skil ekki alveg því það virðist nú ekki vera stundarfriður til að gæta þarna austurfrá.
Aðrar fréttir af austan eru af myndbandi sem sýnt var í sjónvarpi þar um slóðir. Hér fyrir vestan eru menn að spá í útlitsbreytingar þularins, sem er bæði unglegri og hressari en hann var síðast þegar hann sagði okkur fréttir.
Sjónvarpið tíðindin sagði klár
og sannlega fréttina stærstu í ár:
Alþýðu vin-
urinn Ósama Bin
Laden er kominn með litað hár.
... og reyndar skegg líka.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.9.2007 | 23:14
Snilldarlausn
Bygginga- leysir nú brýnust mál
hún Birna sem vísast er gæðasál:
Í safnið hún fer
sem í Árbænum er
og sækir þar eldsmat í annað bál.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.9.2007 | 22:47
Matseðill glamúrpíu
Skelfing langt síðan nokkuð hefur heyrst af París Hilton. Seinast þegar ég man, var hún nýkomin úr steininum á leið á djammið í Hawaii með hárkollu.
En nú eru breyttir tímar. Stúlkan mun hafa sagt í blaðaviðtali að hún væri sérdeilis lagin við að elda lasagna og nú þyrfti hún að finna sér mann að elda fyrir.
Ég hélt hana grunna og gelda
en nú galvösk er búin að melda:
Mig vantar mann
og vita skal hann
að lasagna ágætt ég elda.
Og víst er það segin saga
að sælt er að fylla maga
en líst mér þó varla
að lokki það karla
að éta lasagna um ókomna daga.
En einhversstaðar hlýtur að finnast maður með lasagna sem uppáhaldsmat.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.9.2007 | 23:07
Af hugðarefnum mínum og annarra
Fréttir af Reðursafninu (Reðasafninu/Reðrasafninu) á Húsavík halda áfram að gleðja áhugafólk um efnið. Nú síðast var í Fréttablaðinu (?) viðtal við eldhressan safnstjórann sem kvartar ekki yfir skorti á athygli þó að hann hefði getað annað fleiri gestum úr hópi heimamanna á afmælisdegi safnsins: Þeir mættu alls fjórir.
Að skoða skaufana stóra
og skeleggan reðursafnsstjóra
heillaði víst
húsvíska síst:
Í afmælið fengu þeir fjóra.
Útlendingar eru hinsvegar alltaf jafn spenntir og einhver næstum því frægur skrifaði um safnið og Ísland í spænsk blöð og sagði að ekkert á Íslandi hefði jafnast á við þetta stórkostlega safn.
Hann sótti heim fold vorra feðra
og fjölbreytni kannaði veðra,
en kunni sig best
er komst fyrir rest
í helgidóm húsvískra reðra.
Og talandi um helgidóm og heilagleika. Mér finnst auglýsingin um Símann og Júdas ekki sérlega vel heppnuð; eru þeir ekki að segja að þetta sé svo gamaldags dót að það hefði passað vel á dögum postulanna?
Græðgis- í blossandi -brímanum
þeir bjartsýnir eru hjá Símanum:
Segja þeir fína
framleiðslu sína
en tvöþúsund ár eftir tímanum.
Reyndar hefði verið gagnlegt ef það hefði komið fram hvort slíkur sími fáist fyrir þrjátíu silfurpeninga?
Bloggar | Breytt 5.9.2007 kl. 09:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.9.2007 | 23:25
Málblóm
Mogginn er henni eftir hafandi
og af hlutunum alls ekki skafandi:
Elín er hér,
ótrauð sú er;
í ættingjum konan er kafandi.
Og hvað þýðir að það þurfi að "taka Lækjargötu 2 niður" eins og segir í sama blaði? Húsið brann og Bastiansen bæjarstjóri sagði í beinni útsendingu að það yrði endurbyggt. Mér skilst þó að um það sé ekki samkomulag en kannski er betra samkomulag um að "taka það niður".
Um málið er fjarri því friður
en furðu mér vekur nýr siður.
Húsið er brunnið
en áfram skal unnið:
Nú þarf að taka það niður.
Það er þó að minnsta kosti gott að heyra að það verður ekki rifið!
Bloggar | Breytt 4.9.2007 kl. 07:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.8.2007 | 22:22
Klúður á klúður ofan
Mitt í öllu þessu kann að virðast sem Sturla eigi sér formælendur fáa. Þó var hagyrðingur í vísnahorni Moggans í dag eða gær sem tók upp fyrir hann hanskann og hældi á hvert reipi.
Menn ýmist lasta eða lofa hann
en ljóst er að Grímseyjar vofan
fylgja mun sterk
Sturlu, hvers verk
eru klúður á klúður ofan.
Mbl greindi frá því í dag að dómari í knattspyrnuleik hefði verið fluttur á sjúkrahús með þrjú brotin rifbein eftir að ósáttur leikmaður gekk í skrokk á honum.
Í knattspyrnu veldur það vanda
að vilja menn dómurum granda
kolóðir þá
kýla og slá
í ósviknum íþróttaanda.
Alltaf gaman í boltanum!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Limruleikur
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.7.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar