28.8.2007 | 23:27
Grímseyjarfréttir
Gott að heyra að Grímseyingar komast í burtu jafnvel þótt ferjuskortur þar sé viðvarandi.
Úr Grímseynni horfinn er hópur stór
menn héldu til Spánar að þamba bjór.
Ég veit ekki af hverju
þá vantar svo ferju
því söfnuður þessi með flugi fór.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
27.8.2007 | 22:58
Hagnýt stærðfræði
Loksins kom eitthvað af viti frá heimi vísindanna. Frétt mbl.is í gær segir það sem segja þarf:
"Tveir stærðfræðiprófessorar við Cambridge-háskóla hafa fundið einfalda stærðfræðiformúlu til að reikna út kvenlega fegurð. Það er hlutfallið á milli ummáls mittisins og mjaðmanna sem öllu skiptir um hversu aðlaðandi konur eru og göngulag þeirra kynþokkafullt".
Fyrir fólk sem hefur lifibrauð sitt af því að kenna öðrum stærðfræði er þetta ekkert minna en kraftaverk - loksins er gagnsemi fagsins borðleggjandi. Húrra fyrir þessum gagnmerku vísindamönnum:
Til jar það má telja teikna
og Tjallana fjandi leikna
sem horfa á brjóst
og hvar mittið er mjóst
og mjaðmanna hlutfall svo reikna.
Fyrir áhugasama kemur formúlan hér:
Ummál mittis = Ummál mjaðma x 0,7 eða Ummál mjaðma = Ummál mittis x 1,43
Og nú er bara að finna málbandið og leggjast í vísindarannsóknir.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.8.2007 | 22:43
Enn af næturlífi
Fréttirnar þungar mér þóttu
frá þessari síðustu nóttu:
Víða um stræti
stríðs- voru læti
og á Stuðmannaballi hjá Gróttu.
Góðu fréttirnar eru þær að það er vika í næstu helgi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.8.2007 | 22:41
Meiri eða minni drykkjulæti
Fréttir í dag greindu frá því að lögreglan hefði fengið liðsauka á næturvakt í miðbænum. Það voru borgarfulltrúar Samfylkingarinnar Dagur Eggertsson og Oddný Sturludóttir sem stóðu vaktina með laganna vörðum í nótt.
Menn bjartsýnir telja að bætur
í borginni verði, ef gætur
lýðnum þar gefur
löggan og hefur
Dag þar um dimmar nætur.
Vonandi að þetta verði til bóta.
Annars var í dag haldinn hátíðlegur afmælisdagur hjá vinsælu safni fyrir norðan.
Víst menn í geði það gleður safn
þótt ég geti' ekki farið þess meður nafn.
Afmælisdag
mun eiga í dag
hið reista og vinsæla reðursafn.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
23.8.2007 | 22:42
Drykkjulæti í borg
Það er gaman að fylgjast með Vilhjálmi borgarstjóra þessa dagana. Hann vill svo gjarnan láta að sér kveða í borgarmálum en ekkert gengur. Hann hélt þó reyndar að hann hefði fundið skotheldan málstað hér um daginn þegar hann ákvað að bregðast við skrílslátum í miðborginni á nóttunni með því að banna sölu á köldum bjór í verslun ÁTVR í Austurstræti á daginn:
Bráðgreindur borgarstjórinn
best veit hvar kreppir skórinn:
Draga mun fljótt
úr drykkju um nótt
ef á daginn er volgur bjórinn.
Frjálshyggjusinnaðir menn bentu honum á að slík forræðishyggja væri ekki líkleg til vinsælda og þá snerist vinurinn eins og þeytispjald í vindi:
Fyrst vildi hann bjórkælinn burt
og bauð svo með pí og með kurt.
En dagskipan nú
er svei mér þá sú:
Kælirinn verði um kjurt
Nú er bara að sjá hvert vindurinn blæs næstu dagana.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.8.2007 | 22:31
"Það er engin leið að hætta"
"Það er engin leið að hætta" sungu Stuðmenn í laginu Popplag í G-dúr sem vinsælt var hér um árið. Nú kemur í ljós að þetta eru orð að sönnu. Þeir geta ekki hætt þó að það fækki bæði í þeirra eigin röðum og ekki síður áhangendanna.
Mörgum fannst samt nóg komið þegar þeir komu fram á Kaupþingstónleikunum á Laugardalsvelli um síðustu helgi. Ég sá þetta reyndar bara með öðru auganu á sjónvarpsskjá en þótti smekklaust þegar Bjöggi (sem ég hafði mikið dálæti í æsku) var uppnefndur - ekki bara Bó, heldur Gestabó.
Ég lít á hann Björgvin sem besta hró
og býst við að svo sé um flesta þó
tónleikagestir
flissuðu flestir
er Stuðmenn hann gerðu að GestaBó.
En sennilega á það bara við hér að ég er "það fífl að fatta ekki djókið" eins og mig minnir að Megas hafi sungið einhverntíma.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.8.2007 | 23:50
Orð eru til alls fyrst
Í Vestmannaeyjum er ekki lítillætinu fyrir að fara. Þarlendir menn hafa sótt til Einkaleyfastofu um að fá að banna öðrum að nota orðin þjóðhátíð, brekkusöngur og húkkaraball. Gott ef einkaleyfi fékkst ekki fyrir því síðarnefnda og þess vegna er þetta sjálfsagt ólögleg limra:
Þó um Eyjamenn þindarlaust þvöðrum,
þusum og skömmust og blöðrum:
Heilmikið skrall
er húkkaraball
sem haldið seint verður af öðrum.
En þeir mega eiga sitt húkkarball (úps - hér braut ég aftur lög) fyrir mér.
Rétt áður en ég fór að skrifa þessa færslu kíkti ég á mbl.is. Þar gaf að líta svohljóðandi setningu: "Ef kjarnorkusprengja spryngi yfir Reykjavík dæju allir bæjarbúar". Þetta var þó hvorki völvuspá eða hryðjuverkahótun heldur sérdeilis smekkleg auglýsing fyrir stafsetningarorðabók sem sögð var "ómissandi í skólann".
Það skólanna sjálfsagt er skærust von
ef skellur á sprengjumaraþon
að nemendur kunni
nánast frá grunni
reglur um ng og yfsilon.
Eins gott að vera við öllu búin.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.8.2007 | 22:34
Menningarveður
Nú er víst spáð roki og rigningu í Reykjavík en hvað með það.....
Það var gaman í borginni' í gærkvöld
og golan var íbúum fjær, köld.
En nú er því lokið
og ljóst er að rokið
í Reykjavík fljótlega fær völd.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.8.2007 | 23:19
Bankafjör
Gleymum bara ekki að kostnaður bankanna við þessa menningarhelgi er tekinn af okkur almennum viðskiptavinum í þjónustugjöldum og FIT-gjöldum alla hina daga ársins.
Við kætumst á túnum og torgum,
við tvistum og hlaupum frá sorgum.
En ljóst okkur gerum
að á endanum erum
það við sem að brúsann borgum.
Bloggar | Breytt 18.8.2007 kl. 07:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.8.2007 | 23:17
A town called Alice
Bærinn Alice Springs í Ástralíu er ekki stór. Íbúafjöldi er eitthvað um 25 þúsund og þar gerist sjaldan nokkuð spennandi. Nei, ég hef ekki komið þangað en ég á heimboð þar hjá David, áströlskum vini, sem flutti þangað í janúar og var strax farinn að sjá eftir því - áður en hann flutti.
Í dag var samt þessi eyðimerkurbær í fréttum:
Í ástralska bænum Alice Springs
oftast er lífið hangs og vings
uns maður sást pota
með penna og krota
í pocketbækur hans Stephen Kings.
Þegar bókarbúðareigandinn hafði upp á þessum krotara þá kom í ljós að þetta var hryllingsbókahöfundurinn sjálfur - að árita eigin framleiðslu. Bækurnar verða að sjálfsögðu boðnar upp og ágóðanum varið til góðgerðarmála.
Annars hafa þessir síðust dagar verið dagar stóriðjunnar. Þar er fyrst að telja olíuhreinsistöðina sem nú virðist eiga að rísa við Arnarfjörð. Ef fer sem horfir verður henni dritað niður inni í miðjum firði, í svonefndum Hvestudal, þar sem áður stóð bærinn Hvesta.
Það er skömm enda skelfir það flesta
að skynsemi virðist þá bresta
sem olíu vilja
á Vestfjörðum skilja
þar sem fyrrum stóð kotbýlið Hvesta.
Reyndar getur vel verið að Hvesta hafi verið höfuðból en ekki kot - en það mun í öllu falli vera í eyði í dag og því í lagi að menga að vild.
Stóriðjudraumur Akureyringa gæti líka ræst á næstunni. Nú er það aflþynnuverksmiðja sem á að bjarga öllu, enda mun ekki af veita þegar útgerðin flyst úr bænum. Mogginn birtir í dag mynd af kampakátum íhaldsmönnum að gera áætlanir og bar þar mest á þingmanni þeirra Akureyringa ásamt Selfyssingnum Eyþóri Arnalds sem mun verða í forsvari fyrir þessa fabrikku.
Fyrir norðan er merkast og mætast
að munu nú draumarnir rætast:
Arnalds hann sér
um aflþynnuver
og Akureyringar kætast.
Og við getum öll verið kát. Þó að hlutabréf lækki og krónan liggi á líkbörunum, þá er á hverjum degi fundinn nýr viðmælandi í útvarp og sjónvarp sem segir okkur öllum að þetta sé allt í góðu:
Allt er víst með kyrrum kjörum
og kokhraustir menn í svörum
þó verðbréfin lækki
og vextirnir hækki
og veik liggi krónan á börum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Limruleikur
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (24.7.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar