14.8.2007 | 23:14
Mikið fyrir lítið
Læknum tókst sóttina' að linna
því af lipurð þeir störfin sín vinna
Hann þakkaði þeim
en þorir ei heim
því konunni er krefjandi að sinna.
Honum var nær að yngja svona rækilega upp hjá sér, en hann er 72 og þar með tvöfalt eldri en daman sem er 36.
Þeir sem ekki vilja skipta um konu heldur flikka upp á þá gömlu ættu að taka þátt í keppni sem ástralskt karlatímarit efnir til. Verðlaunin þar eru nefninlega aurar sem sérmerktir eru til brjóstatækkunar. Í frétt um þetta á mbl. kom reyndar ekki fram í hverju keppnin væri fólgin en það getur varla skipt máli - allir hljóta að skella sér í hana í von um þennan glæsta vinning.
Þeir keppnina frábæra kynna
fyrir karla og ef að þeir vinna
aura þeir fá
og fyrir þá má
brjóst bæði stækka og stinna.
Bloggar | Breytt 16.8.2007 kl. 22:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.8.2007 | 22:44
Langt líf og gott
Samkvæmt fréttum mbl.is andaðist 114 ára gömul kona að nafni Jóna (Yone) í Japan í gær. Hún hafði hampað titlinum "elsta kona heims" síðan í janúar svo það var nú alveg kominn tími á hana.
Hún golunni geispaði í hvelli
og glyrnum lauk aftur með skelli.
Lífinu skjótt
var lokið um nótt
og líklegast dó hún úr elli.
Ég ætla nú að vona að ég verði ekki alveg eins lengi að koma mér héðan eins og þessi japanska nafna mín.
Hún má hinsvegar vera fegin ef hún verður ekki dauð úr hjartabanki fyrir tvítugt, breska sautján ára stúlkan, sem fékk svo sterk eitrunanareinkenni af expressó að hún var flutt á bráðamóttöku:
Hún fann hvorki streitu né stress þó
hún sturtaði í sig expressó
en sjöundi boll-
inn kom henni í koll
og kvaðst hún þá alls ekki hress nóg.
Hún kvaðst reyndar líka ætla að láta þetta sér að kenningu verða, svo hún gæti kannski átt eftir að verða 114 ára - hver veit? Hún á jafnvel eftir að taka þátt í ástarviku í Bolungarvík en þar er þátttakan svo góð að meira að segja Síminn ákvað að veita íbúum næði til ásta og því verður símasambandslaust þar í nótt ef marka má fréttir sjónvarps. Reyndar var það nú vegna tenginga en vafalaust hafa þeir reynt að velja tíma sem hentaði....
Ástar- nú blindar þá -bríminn
til bólfara nýttur er tíminn.
Og þá er sko fínt,
já beinlínis brýnt
að bansettur hringi ekki síminn.
Bloggar | Breytt 16.8.2007 kl. 22:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
10.8.2007 | 22:39
Hinsegin dagar
Það ríkir glaumur og gleði um torg
og gleymast mun leiði og sorg.
Nú hinsegin daga
hefst aftur saga
og því hátíðarstemming í borg.
Hér geri ég bara ráð fyrir því að þetta verði sama stuðið og undanfarin ár - en ekki hvað? Mér sýnist sólin meira að segja vera að búa sig undir að taka þátt - hún sýndi lit hér rétt áðan.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.8.2007 | 00:04
Sagan endalausa
Á hamborgara í haugum
horfa þeir tárvotum augum.
Nú kjósa að reka
konuna freka
og reyna að takana á taugum.
Í Mogganum í dag var sagt frá því að Pavarotti væri kominn á sjúkrahús með lungnabólgu. Hann syngur þá varla á næstunni og ætti því að vera meira að gera fyrir aðra tenóra. Eftirfarandi limra gæti verið um einhvern sem á hagsmuna að gæta en varð samt aðallega til rímsins vegna:
Hann treður án tafar gotti
í túlann og stafar glotti
af honum um sinn
því settur var inn
á sjúkrahús Pavarotti.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.8.2007 | 23:26
Þeir fiska sem róa
Það hafa verið skemmtilegar fréttir af íslenska bankakerfinu í fréttum síðustu dagana. Nánar tiltekið hefur komið í ljós að svokallað FIT gjald sem bankarnir innheimta af þeim sem fara yfir á reikningum sínum er hvergi í hinum vestræna heimi. hærra en hérlendis.
Merkilegt er að þetta gjald er nákvæmlega jafnhátt hjá öllum bönkum (samráð - ónei) og eins að röksemdafærslan fyrir því er sú að verið sé að refsa mönnum fyrir saknæmt athæfi því það að fara yfir á reikningi jafngildir því að nota peninga sem maður á ekki. Vissulega satt, en þá á að kæra, rannsaka og ef til vill að sekta en það er ekki bankans heldur ákæruvaldsins. Og sú sekt ætti að fara í ríkissjóð en ekki sjóði bankans. Eða hvað?
Mig skortir vafalaust vit
en víst er að fleiri eru bit:
Úr miklu er að moða
en mál er að skoða
það fjárnám sem kallað er FIT.
Vonandi að fulltrúi neytanda fylgi þessu eftir og ef grannt er skoðað gætu fundist fleiri svona gullnámur sem bankarnir hafa komið sér upp og leyfa alþýðu að fjármagna.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.8.2007 | 23:41
Kveikjum eld, kveikjum eld kátt hann brennur
Þá er verslunarmannahelgin endanlega komin og farin. Ég fékk væga morgunógleði þegar ég vaknaði við það í morgun að akureyrskir kaupmenn voru enn að barma sér í Ríkisútvarpi allra landsmanna (?) yfir aurunum sem þeim tókst ekki að plokka af ungmennum um helgina.
Gestir í Vestmannaeyjum kvöddu Eyjar með stæl. Þei kveiktu í öllu sem hönd á festi - ekki bara eigin tjöldum heldur líka annarra ef enginn var inni. Flott þjóðhátíðarstemming það.
Þar var gaman og gleðin við völd
glampandi sól fram á kvöld
en eftir það varmi
ylur og bjarmi
fékkst þegar fuðruðu' upp tjöld.
Í Mogganum í dag las ég að dóttir Rudolphs Giulianis fyrrum borgarstjóra NY hefði lýst yfir stuðning við Obama í væntanlegum forkosningum demókrata fyrir Westan. Pabbi hennar er eins og kunnugt er að reyna að fá tilnefningu sem forsetaefni repúblikana. Þeim feðginum mun ekki semja sérlega vel og eru greinilega ekki sammála í pólitík.
Hún er demókrat þessi dama
og drullu- um pabbann er -sama
Ótrauð hún styður
um atkvæði biður
fyrir Barak Hussein Obama.
Þess verður að geta að millinafnið Hussein er ekki að finna á heimasíðu frambjóðandans - ég þurfti að leita lengi til að finna það.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.8.2007 | 23:34
Á ferð og flugi
Flott fyrirsögn á vef Rúv-ohf: Kaupmenn á Akureyri ósáttir - Flestir í Eyjum. Auðvitað, þeir eru búnir að vola í hverjum fréttatíma helgarinnar um milljónatap sem þeir telja sig hafa orðið fyrir vegna þess að unglingar fengu ekki að tjalda þar í rigningunni. Nú hafa þeir greinilega brugðið undir sig betri fætinum:
Fyrst reyndu menn þorrann að þreyja
þarna, en fréttir nú segja:
Þeir ósáttir vóru
og flestir því fóru
kaupmenn í hvelli til Eyja.
Forsetahjónin brugðu líka undir sig betri fætinum og fóru á skátamót í Englandi. Gaman var að sjá Dorrit fara salíbunu í sérútbúinni skátarólu - ekki allir í hennar stöðu sem leika það eftir.
Hún er fín og á fallega kjóla
og ferðast um heiminn með Óla.
Ég sá hana káta
komna á skáta-
mót og þar röggsama róla.
Bloggar | Breytt 6.8.2007 kl. 09:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.8.2007 | 01:10
Rólegheitahelgi
Verslunarmannahelgin er með rólegasta móti í ár og fagna því allir. Eða flestir. Mér finnst reyndar næstum eins og fjölmiðlamenn séu óhressir með skort á ólátum á landsbyggðinni. Allir fréttatímar byrja á því að segja okkur að fáir hafi gist fangageymslur hingað til og manni finnst sem að þeir séu að vona að þetta standi til bóta.
Aðrir sem ekki fagna rólegri helgi eru Akureyringar. Þar er rólegasta verslunarmanna-helgin í áratugi.
Vist er að munar þar mest um
-þó mislíka virðist það flestum-
að auð eru stræti
hvorki ami né læti
af barnungum, blindfullum gestum.
En Akureyringar leyfðu sem kunnugt er ekki gistingar ungs fólks þessa helgi á tjaldstæðum bæjarins.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.8.2007 | 23:54
Glasaglaumur
En ónei. Þau voru að rífast um pólitík! Guð láti gott á vita.
Hún kvaðst vera mædd á masi
og margbað hann hætta þrasi:
Þau deildu um póli-
tík, Pitt og Jolie,
og hún skvetti á gaurinn úr glasi.
Þetta finnast mér alveg sérlega góðar fréttir. Og ekki voru þau að rífast um hvor væri betri Bush eldri eða yngri. Nei þessi hjú eru greinilega demókratar og þau voru að deila um frambjóðendur til forsetaembættisins þar vestra.
Brad hana gerði svo grama,
henni geðvonsku vakti og ama
svo víninu gusaði
vinan og þusaði:
"Þú ert vitlaus að kjósa Obama"
Þetta er nú mál sem er upplagt að gera út um með því að skvetta smá rauðvíni.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.8.2007 | 23:43
Meiri íþróttir
Í útvarpinu í dag gat ég ekki betur skilið en Kristinn R. Ólafsson væri að segja okkur að Barcelónabúar sem hann kallar Börsunga væru orðnir leiðir á að kosta setur Eiðs Smára á varamannabekk hjá fótboltaliðinu í plássinu og vildu helst losna við hann. Reyndar talar KRÓ svo uppskrúfað mál að ég átti bágt með að halda þræði en samt held ég að þetta hafi verið það sem hann var að reyna að segja.
Í kvöld les ég svo í mbl. um enn meiri geðvonsku Börsunga. Nú vilja þeir ekki hafa að skattpeningarnir séu notaðir til að styrkja kvikmyndagerð. Woody Allen mun hafa fengið aura úr sjóðum borgarinnar og hefur það valdið borgarbúum ama.
Börsungar bölva þeim fjára
að borga hinum ríka og klára
Woody og eins
finnst ekki til neins
Eiði að halda uppi Smára.
Aðrar íþróttir sem lesa mátti um á netinu í dag er pelakast. Það er víst ný grein og hefur Britney Spears verið að ná góðum árangri í henni ef marka má ljósmyndarann sem fyrir pelanum varð.
Fyrst hélt ég auðvitað að um væri að ræða brennivínspela og að konan hefði verið á leið í meðferð eða eitthvað. En þegar ég las betur var sagt að hún hefði verið að koma með börnin sín úr ræktinni svo að ég geri ráð fyrir að hér hafi frekar verið um barnapela að ræða - eða hvað? Hvað gerir ekki móðir til að vernda börn sín? Og hvað gerir ekki fræga fólkið til að forðast ljósmyndarana?
Myndunum stöðugt þeir stela
og stanslaust þeir konuna véla.
En Britney með börn
sín, bjóst þó í vörn
og kastaði í kauðana pela.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Limruleikur
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (25.7.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar