Nýjar hættur

Alltaf verða á vegi manns nýjar og nýjar hættur.  Ég eignaðist nefninlega nýjan leyserprentara í dag.  Gamli prentarinn fór í verkfall og ákvað að skella mér á nýjan og nettan geislaprentara. 

Sem ég er að prófa gripinn les útvarpið frétt um hættur sem stafa af leyserprenturum!  Rannsóknir frá Ástralíu sýna þetta með óyggjandi hætti og nú er ég með hjartabank og strax komin með verk fyrir brjóstið.

Víst er það vart fyrir gungu
og veldur mér angrinu þungu:
Að prenta út skjöl
er pína og kvöl
því leyserinn skemmt getur lungu.

Reyndar fylgdi fréttinni að þetta ætti við um stórar skrifstofur á álagstímum svo ég held ég sofi alveg róleg að minnsta kosti í nótt.

Árinni kennir illur ræðari

Íþróttir er eitthvað sem ég veit mest lítið um.  Jafnvel þó ég sé að myndast við að stunda langhlaup þá veit ég mest lítið um það efni og man bara í svipinn eftir þremur alvöru hlaupurum þeim Gretu Waitz, Mörtu Ernst og Paulu Radcliff sem eru hér taldar í þeirri röð sem þær urðu á vegi mínum.

Um fótbolta veit ég enn minna en í sjónvarpinu í kvöld var þó sagt frá þjálfaraskiptum í KR.  Meira að segja fávísri konu eins og mér hefur skilist að gengi þeirra Vesturbæinga hafi ekki verið neitt sérlega gott í boltaleikjum sumarsins.  Hvað gerist nú, veit enginn en einhverjar vonir munu bundnar við að þetta standi til bóta.

Í Vesturbæ menn sér nú voga
að vona að lánist að toga
KR úr spori
og kannski þeir skori
mark eftir leiðsögn frá Loga.

Helgarannáll

Eftir helgi í sumarbústað kemur margt upp í hugann þegar sest er við blogg.  Bústaðurinn er ekki nettengdur og án sjónvarps en þar er gamalt útvarp - stillt á gufuna.  Þaðan fær maður helstu fréttir en lítið þó af París Hilton og Britney Spears.

Þar var hinsvegar feikifróðlegt innslag frá Artúri Björgvini Bollasyni um átök meðal afkomenda tónskáldsins Wagners um hver ætti að stjórna árlegri Wagnerhátíð einhversstaðar í Þýskalandi.  Þegar frásögninni lauk var ég orðin mjög spennt:  Verður það eftirlætisdóttir gamla stjórnandans, Katharina?  Verður það dóttir hans af fyrra hjónabandi Eva?  Eða hreppir frænkan hnossið en ég var farin að halda með henni.  Nú er það verst að síðan á föstudag hefur ekkert verið minnst á málið og ég er alveg að farast úr spenningi.

Í fjölmiðlum feikilegt magn er
af fróðleik en lítið þó gagn er
ef ekki fæ meira
um átök að heyra
og endalok mála hjá Wagner.

Getur ríkisútvarpið verði þekkt fyrir að skilja mig eftir í þessari óvissu?

Um helgina komu upp átök í röð fyrir utan skemmtistað.  Ung kona sem var orðin leið á að bíða í röðinni reyndi að grípa til sinna ráða og réðst á aðra og beit hana í eyrað. 

Röðin er löng bæði‘ og breið
og blessunin pirruð og reið:
Með hárbeittar tennur
á röðina rennur
og reynir að éta sér leið.

Eyrbíturinn mun þó sem betur fer hafa verið tekin úr umferð áður en hún réðst á fleiri.



Bjór og meiri bjór

Frægt er orðið að framkvæmdaglöð hjón á Árskógssandi stofnuðu litla bjórgerð í vetur sem leið.  Í kosningabaráttunni sá Steingrímur Sigfússon um að auglýsa þennan bjór þegar hann tók þessa framkvæmd sem dæmi um að fleira mætti framleiða á landsbyggðinni en ál.  Síðan skilst mér að bjórinn auglýsi sig sjálfur en bjórunnendur segja þar vera um afbragðsvöru að ræða.

Nú er sem fyrr að allir vildu Lilju kveðið hafa.  Í dag var sagt frá því að Vestmanneyingar ætluðu að fara að brugga og um helgina var auglýst eftir bruggara til að vinna við brugghús á Suðurlandi sem "mun verða leiðandi á sínu sviði" minnir mig að hógvært orðalagið hafi verið.

Hér er semsagt komið hið nýja laxeldi.  Eða kannski frekar refarækt.  Nú er að sjá hvort menn geti lifað á því að selja hver öðrum bjór.

Um það ríkir alls enginn efi
að í aðra hönd betur það gefi
bjórinn að laga
liðlanga daga
en laxa að ala´ eða  refi.

Það var frétt um drukkna geimfara í mbl. í dag.  Samkvæmt þeirri frétt fara þeir meira og minna drukknir í loftið en ekki var getið um hvort að þeir drukku bjór eða eitthvað sterkara.

Það ríkir víst gleði og glasa-
glaumur og enginn að þrasa
þó fullir á loft
þeir fari víst oft
enda frábært að vinna hjá NASA.

Hann var hinsvegar víst ekki fullur, bara frekur, guttinn sem var tekinn fyrir of hraðan akstur hér suður með sjó í gær.  Hann var á 130 km hraða og ók öfugt í gegnum hringtorg.  Heppinn að drepa engann en þetta er auðvitað ekkert annað en hreinn og klár ofbeldisglæpur.

Á hringtorgi öfugt hann ók
og eftir það hraðann svo jók.
Slíkt er ofbeldi frekt
og fá mun hann sekt
því til fanga hann lögreglan tók.

Sennilega sleppur hann þó við að sitja inni þrátt fyrir að hann gæti vissulega haft gott af því að fá að hugsa sinn gang í ró og næði.


Vélknúnar íþróttir?

Ég geri nokkuð af því að hlaupa framhjá golfvelli.  Þar hefur orðið sprengja upp á síðkastið.  Golfbílasprengja.  Mér kom því ekki á óvart fréttin um að kona hefði orðið fyrir golfbíl.  Ég er stundum hrædd þegar þeir bruna framhjá mér á stígunum sem ég skokka eftir.  En mér skildist nú af fréttinni að þetta hafi verið golfspilari - ekki hlaupari.

Góða við þetta er að konan getur líklega haldið áfram að stunda golfið fótbrotin.  Til þess eru nú þessir bílar ef ég skil málið rétt.  Og ef hún hefur ekki átt bílinn sjálf þá ætti sá er ók á hana að sjá sóma sinn í að lána henni bílinn meðan hún er að ná sér.

Sú frú er á fæti hlaut brot
mun fjarri því komin í þrot:
Því ljóst er að nú
sú fótbrotna frú
fær loks af golfbílnum not.

Vonandi halda samt flestir golfarar áfram að elta kúluna gangandi.

Allir á völlinn

Já, allir vilja á völlinn.  Þó ekki til að sjá Fylki bursta Val (eins og gerðist í kvöld) heldur til að búa í blokkunum sem Kaninn flutti úr og læra frumgreinar hjá Runólfi rektor.   Væntanlegir nemendur flykktust í dag til að skrifa undir leigusamninga og vilja bæði búa og nema á Vellinum ef trúa skal frétt mbl.is (eins og ég geri alltaf).

Allkunna er að rafkerfi þessara húsa er lagað að amerískum stöðlum og mér finnst eins og formaður Rafiðnaðarsambandsins hafi verið að vara við því hér um daginn?  Eða er mig að misminna?  Og hvað með kakkalakkana?  Eru þeir örugglega farnir úr landi? 

Hreysin þó rafvirkjann hrelli
þá hrúgast nemar í hvelli
með kjark og með þor
í Kananna spor
og vilja búa‘ út á Velli.


Galdrar

Nú er komið að því.  Nýjasta bókin um Harry Potter er komin í sölu um allan heim, líka í litlu Reykjavík.  Nokkrir æstir kaupendur voru búnir að bíða fyrir utan bókabúðir í allt að sólarhring meðan aðrir hafa treyst á að nóg yrði til handa öllum.

Annað fréttnæmt er að í Reykjavík rignir í kvöld - í fyrsta sinn í meira en mánuð.  Ég gæti alveg þegið meira af slíkum rigningarlausum mánuðum ef því er að skipta.

Í Reykjavík veður nú vott er
en vísast þó skap margra gott er
sem fengu sér bók,
flögur og kók
og fóru í rúmið með Potter.

Njótirð vel.  Ég bíð nú bara róleg eftir að einhver láni mér bókina - sem gæti orðið fljótlega ef ég þekki mitt fólk rétt.

Fréttir úr slorinu

Í dag las ég með hryllingi frétt af konu sem fór með jeppa í Herjólfi til Eyja.  Samkvæmt fréttinni er jeppin nær ónýtur sökum slorlyktar eftir flutninginn.  Konan á alla samúð mína og ég hef ákveðið að fresta Eyjaferðum þar til komin verða göng þarna úteftir.

Með skipinu kaus hún að skreppa
en skynsamlegt væri að sleppa
það eftir að leika
því illa til reika
hún ekur nú slorlegum jeppa.

Eirðarleysi

Alltaf er leiðinlegt þegar óhöpp verða.  Það er því kannski ekki ástæða til að grínast með óhappið sem varð í vikunni þegar TF-SIF sökk í saltan sjá í nágrenni Hafnarfjarðar.  Hinsvegar urðu ekki slys á mönnum og þá er leyfilegt að brosa út í annað.

Er farkostur lipur á loft fer
lending á dagskránni oft er
en klúðraðist þó
og sökk því í sjó
SIF sem var helikopter.

Hinsvegar er furðulegt ef satt er að þyrlan hafi einungis verið tryggð fyrir 78 milljónir en að ný kosti milljarð?  Þetta þætti ekki góð frammistaða hjá okkur óbreyttum sem erum að tryggja bíla, hús og innbú.

Í fréttunum í dag var því slegið upp að Íslensk erfðagreining hefði fundið genið sem veldur fótaóeirð og þar með er lækning sennilega í sjónmáli.  Ekki vil ég gera lítið úr þjáningum þeirra þjást af fótaóeirð en mikið vildi ég þó að það hefði frekar verið krabbamein eða parkinson sem þeir hefðu fundið ráð til að lækna.

Víst mun það verða til bóta
og vafalaust margir þess njóta
ef lækning er föl
sem linar það böl
friðlaus að vera til fóta.


Týndur hvolpur....

Furðuleg sagan um hundinn sem var dauður og ekki bara það heldur hafði hlotið grimmilegan dauðdaga eftir að hafa lent í höndum skepnuníðinga.  Sami hundur fannst víst í gær á öskuhaugum Akureyringa, skítugur og þvældur en ómeiddur. 

Kertavökur og kyrrðarstundir hafa nú vonandi ekki skaðað en hundurinn hefði hugsanlega fundist fyrr ef allt það fólk sem var að kveikja á kertum út um allt land hefði í staðinn hjálpað til við að leita að honum.

Fjölmargra léttist nú lundin
er látinn treguðu hundinn:
En Lúkas var týndur,
hvorki laminn né píndur
og flott að skepnan er fundin.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Limruleikur

Höfundur

Jóna Guðmundsdóttir
Jóna Guðmundsdóttir
Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.7.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband