14.7.2007 | 00:15
Malbiksfréttir
Örlögin fær engin flúið
og fjandi er þetta snúið:
Valtara-menn
veslast upp senn
enda malbikið mestallt búið.
Eins og það er nú gaman að sjá malbikunargæjana bera að ofan í góða veðrinu sem virðist vera orðið landlægt hér um slóðir.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.7.2007 | 00:49
Úr kryddhillunni
Fína og fræga fólkið á sínar erfiðu stundir. Í dag er það kryddpían fræga sem er fréttaefni:
" Victoria Beckham hefur loks tjáð sig opinberlega um það hversu erfitt það reyndist henni þegar Rebecca Loos, fyrrum barnfóstra barna hennar, staðhæfði að hún hefði átt í ástarsambandi við eiginmann hennar David Beckham".
Hjá þeim var slagviðri og slydda
enda slúbbert hann David og lydda.
Með rakaðan haus
ræfillinn kaus
sitt kynlíf með annarri að krydda.
Vicky hafði nú reyndar ekki svona ljót orð um bónda sinn - þau eru bara skáldaleyfi.
Kunningi minn einn hafði á orði að hann þyrði ekki að tala við mig nú orðið - aldrei að vita nema það endaði í bloggi. Ekki alveg minn stíll.....en samt:
Á blogginu stend ég við staðal einn
og stunda ekki um félaga vaðal neinn.
Þagmælskan lifir
ég þegja mun yfir
því sem ég veit um þig, Aðalsteinn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.7.2007 | 00:25
Dýrasögur
Að fréttunum göngum við gefnum
getið þess var hér á vefnum
að sigli úr höfn
um sæfexta dröfn
sjómenn kálandi hrefnum.
Textinn í gæsalöppunum er fenginn að láni úr einni þekktustu limru landsins eða textanum um manninn sem var sjómanður dáðadrengur, en drabbari eins og gengur.... Þetta kunna allir en ekki víst að allir viti að hér erum um limrur að ræða.
Önnur frétt sem líka fjallar um dauða og dýr var um eld í fuglabúri í íbúð við Gunnarsbraut. Ég sá að einhverjir bloggarar voru að gera sér vonir um að íbúar í búrinu hefðu komist lífs af en það tel ég nú heldur mikla bjartsýni.
Drottinn hann leggur æ líkn með þraut
og ljóst er að dauðdaga volgan hlaut
gaukurinn sá
sem andaðist á
eldavél vestur á Gunnarsbraut.
Svona gerist ekki ef maður á gullfiska.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.7.2007 | 23:48
Ekki fréttir
Aftur er Byrgið orðið fréttaefni. Nú vegna þess að í ljós hefur komið að veggjalýs voru heimilisfastar í Efri-Brú og hefur þurft að brenna innbú til að losna við óværuna. Veggjalýs munu vera skæð kvikindi sem ráðast á sofandi fólk og bíta. Sennilega er hér komin skýring á því hvers vegna forstöðumaðurinn svaf ekki allar nætur í eigin rúmi að því er sagt var.
Hann lá ekki á sínu liði
en leiddi inn margskonar siði:
Svo sem fletin að reyna
til að finna það eina
sem væri ekki á einlægu iði.
Annars er það annað fréttnæmt að nú hafa tveir Íslendingar gert tilraun til að synda yfir Ermasund í vikunni og báðir þurft að gefast upp fyrir erfiðum aðstæðum. Mér sýnist vera fullreynt - einkum ef maður heitir Benedikt.
Ermasund allmargir þreyta
ár hvert og sundtökum beita
en betra má telja
bátsferð að velja
ef Benedikt kapparnir heita.
En að þessu sögðu vil ég taka fram að ég ber mikla virðingu fyrir þessum köppum. Það eru engir meðaljónar sem reyna við svona ögrun og það er engin skömm að játa sig sigraðan í slíku einvígi við náttúruöflin.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.7.2007 | 23:06
Stálstytta
Enn heldur fram heimsins prjáli
og heilmikið ferlíki' úr stáli
mun brátt að finna,
á Bítlana minna
sem byrjuðu' í Sankti Pauli.
Lögin þeirra halda þó minningu þeirra betur á lofti en nokkur stytta - jafnvel þó hún væri gerð úr Fjarðaráli.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.7.2007 | 23:24
Sumarfrí hjá okkur Benna!
Það þarf semsagt ekki að hvetja mig til að njóta sumarsins en hvort ég sé páfa þóknanaleg er mér ekki alveg ljóst. Hann var þó á leið í frí og í andartaks samkennd með öðrum hvatti hann heimsbyggðina til að gera slíkt hið sama. Eða eins og segir á mbl.is:
Benedikt XVI páfi hvatti fólk til þess í sunnudagsávarpi sínu í dag að huga að heilsu sinni og gefa sér tíma til að taka frí og hlaða batteríin bæði andlega og líkamlega. Sagði páfi líkamlegt heilbrigði ekki síður mikilvægt en andlegan vöxt, en hann er nú sjálfur að hefja þriggja vikna sumarfrí sitt.
Hann lunkinn á ráðinu lumar, því
lappirnar tifa nú hrumar í
ferð upp í fjöll
og finnst að við öll
flýta okkur ættum í sumarfrí.
Ætli hann viti að það er ekki einu sinni sumar á suðurhveli jarðar?
Bloggar | Breytt 9.7.2007 kl. 17:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.7.2007 | 23:25
Óviljaverk
Honum fataðist spái ég spark
og spannst af því rella og hark:
Í tuðru rak fót,
hún flugið tók skjót
og flýtti sér rakleitt í mark.
Annað virtist nú ekki hafa gert ef marka má nokkurra daga dagblaðaskammt sem fyllti póstkassann þegar ég kom heim úr nokkurra daga útilegu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.6.2007 | 23:31
Skepnuskapur
Það er eitthvað hundafár í gangi. Það litla sem ég veit um það mál hef ég lesið í bloðunum síðustu daga en samkvæmt fréttum var hundur drepinn á Akureyri og meintur gerandi hefur átt í vök að verjast síðan. Dómstóll götunnar hefur dæmt hann sekan og honum er nú hótað lífláti á hinum ýmsu heimasíðum:
Því máli er heilmikil harka í
ef heimasíður skal marka, þvi
þar honum í orði
hótað er morði
fyrir hundinn að spotta og sparka í.
Samkvæmt mínum upplýsingum hefur drengurinn lýst sig saklausan og sömuleiðis hefur líkið ekki fundist. En að þessu öllu sögðu þá vil ég taka fram að ég hef að sjálfsögðu skömm á skepnuníðngum.
Og talandi um skepnur. Í Reykjavík fór hálfgerð fílahjörð eftir Grettisgötu og trampaði yfir allt sem fyrir varð - þar á meðal átta kyrrstæðar bifreiðar. Merkilegir vitleysingar en þó gæti málið átt eftir að upplýsast því þeir skildu eftir sig skófar:
Fréttirnar gerast nú grófar
og greina nú frá því að bófar
líkist nú fílum
og labbi á bílum
en skilji þó eftir sig skófar.
Og fyrst ég minnist á skó þá er ég búin að setja gönguskóna í bílinn og legg af stað í nokkurra daga gönguferð í fyrramálið.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.6.2007 | 23:26
Gúrkutíð
Jæja, nema hvað, stúlkukindin ákvað að skella sér til Hawaii og hvílast þar og til að þekkjast ekki á leiðinni setti hún upp svarta hárkollu sem gerði auðvitað ekkert annað en að vekja enn meiri athygli á henni en ella hefði orðið. En fyrir vikið fá fjölmiðlar eitthvað að skrifa um.
Fjölmiðlar velkjast ei vafa í
verðug mál til að grafa í:
Kalin á hjarta
með kolluna svarta
er Hilton stokkin til Hawaii.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.6.2007 | 00:13
Veðurfréttir og véfréttir
Ég fylgist af miklum áhuga með veðurfréttum þessa síðustu daga. Til stóð að heimsækja Austfirðina í næstu viku með gönguskó og bakpoka en það lítur nú ekki vel út með þau plön. Þessa dagana snjóar þar niðrí miðjar hlíðar og spáin er ekki góð.
Úrkomuskortur hefur hinsvegar verið mikill í Bergen af öllum stöðum og fréttir greina frá vatnsskorti þar í bæ. Þetta er víst í fyrsta sinn í sögu staðarins sem íbúar hafa ekki haft meira en nóg af blávatni.
Þessum tíðindum varla þið trúið
og talsvert er lífið nú snúið:
Hér snjóar í fjöll
fannhvítri mjöll
en Bergen er vatnið allt búið.
Í kvöld las ég svo frétt um að hinn gamalgróni íþróttavöllur Valsmanna, Hlíðarendi héti hér eftir Vodafonevöllurinn. Allt er greinilega falt og nú er bara að finna sponsor fyrir Friðrikskapellu.
Einsleitt er auðmagnsins tal
ég ætla, ég get og ég skal.
Kom eftir þjark
Mammon í mark;
Vódafón keypti sér Val.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Limruleikur
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (26.7.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar